Leó M. Jónsson iðnaðar- og vélatæknifræðingur:

Hver vill greiða fyrir umhverfisvernd?
(Þessi grein birtist upphaflega í Bændablaðinu nr. 15 í september 2006 og er birt hér í nokkuð lengri útgáfu. Skoða má heilu árgangana af Bændablaðinu sem pdf-skrár á vefnum ).

Með aukinni velmegun, fólksfjölgun og breyttum lífsmáta hefur fjöldi einkabíla margfaldast samhliða því sem notendum almenningsvagna hefur fækkað. Nú mælist loftmengun í Reykjavík yfir hættumörkum þegar hún er mest. Afleiðing loftmengunar er ómælt heilbrigðisvandamál. Þrátt fyrir ástandið í Reykjavík telst loftmengun af völdum útblásturs frá brunavélum ekki viðverandi vandamál á Íslandi1). Flestir eru samt sammála um að merkjanlegar breytingar hafi orðið í veðurfari og á lífríki undanfarna áratugi. Gróðrhúsaáhrifum er kennt um, þ.e. eðlileg uppgufun og vegna útblásturs gróðurhúsalofttegunda (ghl).

Á undanförnum áratugum hefur því ítrekað verið spáð að olíulindir jarðar sé að þverra. Á sama tíma hafa uppgötvast neðansjávarjarðlög sem geyma meira af gasi og olíu (Norðursjór) en nokkurn óraði fyrir. Víða í Evrópu er raforka til iðnaðar og húshitunar framleidd með brennslu jarðefnaeldsneytis með tilheyrandi loftmengun. Um 70% af heildarorkuþörf þjóðarinnar er mætt með vatnsaflsvirkjunum og jarðvarma2). Stærsti hluti loftmengunar (ghl) hérlendis1) stafar af umferð, samgöngum (22,7%), fiskveiðum og mjölvinnslu (25,9,7%), iðnaði (16,5%) og landbúnaði (15,9%).

Viðbrögð - ekki ég ....
Flestir munu sammála um að áhrifaríkasta vörn gegn vaxandi loftmengun sé minni brennsla jarðeldsneytis, þ.e. bensíns og olíu. Allir virðast sammála um að nauðsynlegt sé að grípa til slíkra aðgerða - en þeim finnst yfirleitt að framkvæmdin/aðgerðir sé hlutverk einhverra annarra en þeirra sjálfra; skoðanakannanir myndu líklega sýna að almenningur sé hlyntur svokölluðum tvinnbílum vegna sparneytninnar og hversu lítil loftmengun fylgir notkun þeirra; - samt kaupa fáir slíkan bíl. Mengunarvarnir þykja fólki sjálfsagðar - svo lengi sem þær bitna ekki á því sjálfu eða lífsmáta þess: Áhugi virðist vera fyrir öðrum tegundum eldsneytis og orkumiðlum - sé fyrirsjáanlegt að þær breyti engu í bráð heldur einungis í hæfilega fjarlægri framtíð!

Íhaldssemi og fordómar
Ákveðin varkárni gegn breytingum er eðlileg. Einhvers staðar liggja mörk á milli algengrar íhaldssemi og fordóma. Varðandi umhverfismál er almenn varkárni hemill sem má losa um með upplýsingum. Fordómar eru erfiðari viðureignar. Markmið með upplýsingum er hugarfarsbreyting. Hins vegar má breyta atferli með opinberri stýringu (valdi) svo sem með sköttum. Dæmi: Háir skattar á eldsneyti í Evrópu, en lágir eða engir í Bandaríkjunum, gera það að verkum að Evrópubúi notar helmingi minna eldsneyti á heimilisbíl en Bandaríkjamaður.

Dýrt eldsneyti er mengunarvörn
Á miðju ári 2006 var um 60% af útsöluverði bensíns og dísilolíu skattar til ríkissjóðs3). Sé gert ráð fyrir álagningu olíufélaga má ætla að innkaupsverð bensíns og dísilolíu sé innan við 50 kr. á lítra. Kosti bensínlítrinn 125 kr. fær ríkissjóður, samkvæmt því, 75 krónur í sinn hlut. Samkvæmt upplýsingum FÍB um eldsneytisverð í 13 Evrópulöndum, í mars 2006, er bensín einungis dýrara í Hollandi (127.08 kr/l) en hérlendis (115 kr/l). Dísilolía er hins vegar ódýrari í Hollandi en hér (93,66/113,00). Einungis í Bretlandi er dísilolía dýrari en á Íslandi (114,7/113,00).

Athygli vekur í þessum samanburði FÍB að þar sem dísilolía er ódýrari en bensín (11 lönd af 13) er munurinn minnstur á Íslandi. Hátt eldsneytisverð hvetur til kaupa á sparneytnari bílum þótt skiptar skoðanir séu um hve virk sú stýring sé hérlendis. Einnig eru skiptar skoðanir um hve hátt eldsneytisverð megi vera - einhvers staðar liggja mörkin - ekki síst þegar það er haft í huga að eldsneyti er rúm 5% af vísitölu neysluverðs; hækkar þannig skuldir heimila á sjálfvirkan hátt og hefur bein áhrif á kjör fólks.

Því meiri loftmengun - því meiri ríkistekjur
Á árinu 2005 innheimti ríkið 47 milljarða3) í sköttum af bílum og umferð. Stór hluti þess er skattur af eldsneyti. Af þeirri upphæð er varið um fjórðungi, 12 milljörðum3), til vegaframkvæmda - þótt þessir skattstofnar muni upphaflega hafa verið samþykktir á Alþingi til öflunar fjár til vegagerðar.

Sala eldsneytis er því mikilvægur tekjustofn ríkisins og líklega hærra hlutfall af heildarskatttekjum en hjá miklu stærri þjóðum í Evrópu. Sé sú tilgáta mín rétt hlýtur það að móta afstöðu valdhafa til aðgerða sem miða að umhverfisvernd. Þá á ég við minnkun loftmengunar með eldsneytissparnaði, með nýju eldsneyti eða öðrum orkumiðlum. Slíkar aðgerðir myndu þýða að skattar yrðu fluttir yfir á aðra stofna því fremur ólíklegt verður að teljast að tekjumöguleikar ríkisins verði skertir án mótvægis. Vegna fámennis þjóðarinnar (300 þúsund manns) getur maður gefið sér þá forsendu að tregða íslenskrar ríkisstjórnar, hvernig sem hún er samsett, gagnvart orkusparnaði með mengunarvarnir að markmiði, sé meiri hérlendis en á meðal nágrannaþjóða sem telja milljónir, jafnvel tugmilljónir íbúa og eiga því fleiri skattstofna völ en við.

,,Hreinna eldsneyti" - illleysanlegt vandamál
Sem dæmi um eldsneyti, sem bílar gætu notað í stað bensíns og dregið gæti verulega úr mengun í útblæstri, er lífrænt gas, t.d. metangas sem verður til hér innanlands við gerjun sorps og knýr nú þegar nokkra bíla, m.a. bensín- og dísilbíla í eigu Vélamiðstöðvar Rvk-borgar. Útblástur koldíoxíðs (ghl) frá 113 metanbílum samsvarar útblæstri eins bensínbíls4). Hver yrðu áhrifin fyrir hið opinbera ef svo ólíklega vildi til að almenning í Reykjavík gripi mengunarvarnaæði og metanbílar yrðu keyptir í stórum stíl?

Hver metanbíll er niðurgreiddur um 240 þús. kr. við innflutning og er undanþeginn árlegum þungaskatti4). Metan, að jafngildi eins lítra af 95 oktan bensíni, kostar 78,57 kr. Um 10 þúsund metanbílar gætu sparað 10 milljón lítra af bensíni árlega. Tekjutap ríkissjóðs vegna niðurgreiðslu bílanna yrði 2,4 milljarðar og árlegt tekjutap ríkissjóðs vegna minni bensínsölu yrði 0,75 milljarður og tekjumissir olíufélaganna um 200-300 milljónir. Á móti kæmu 173 milljónir í ríkissjóð með virðisaukaskatti af sölu metans. Áhrif slíkra ótvíræðra loftslagsbóta og mengunarvarna yrði hins vegar meiriháttar áfall fyrir ríkissjóð - þýddi gríðarlegt tekjutap og pólitískan glundroða. Auðvitað má benda á gjaldeyrissparnað vegna þeirra 10 milljón bensínlítra sem sparast - en hvaða gildi hefur gjaldeyrissparnaður núorðið, - gjaldeyrissparnaður sem rýrir tekjur ríkissjóðs og fleiri? Og varðandi gjaldeyrissparnaðinn yrði hann aldrei stór liður í dæminu vegna þess hve innkaupsverð eldsneytis er lítið hlutfall af útsöluverði þess.

Fólk getur leikið sér við að reikna þetta dæmi áfram. En niðurstaðan verður alltaf sú að mengunarvarnir með minni brennslu eldsneytis eru slæmar fyrir hið opinbera - hafa mjög slæm áhrif á efnahag og tekjuöflun ríkissjóðs - ríkissjóður byggir nefnilega afkomu sína að hluta til á loftmengun, - eins þversagnarkennt og það kann að hljóma. (ath. verð og kostnaður í þessari málsgrein er miðað við verðlag á miðju ári 2006).

Eru umhverfisvænni bílar óþægilegri?
En er einhver hætta á því að almenningur taki upp á því að kaupa bíla sem brenna metan eða bíla sem geta brennt bæði lífrænu gasi og bensíni? Borgaryfirvöld í Linköping (í Austur-Gautlandi) hafa haldið úti athyglisverðu verkefni síðan 1999 sem miðar að því að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis með því að nota með því og í staðinn fyrir það lífrænt gas.

Í fræðsluriti er gerð grein fyrir þessu verkefni, áhrifum þess og árangri5). M.a. lýsir leigubílstjóri í Linköping breytingum eftir að hann fór að nota tvinnbíl, Volvo V70, sem hann hefur ekið í 5 mánuði. Með fullan geymi af metangasi getur hann ekið 180-190 km á gasinu. Tæmist gasið skiptir búnaður sjálfvirkt yfir í bensín en á því getur hann ekið 300 km. Í Linköping eru fjórar áfyllingarstöðvar fyrir gas. Til að aka sem mest á gasinu, sem er ódýarari kosturinn, þarf þessi leigubílstjóri að fylla á gasgeyminn tvisvar á hverjum vinnudegi. Hvort fólk myndi leggja það á sig í stað þess að fylla á geyminn á 5-7 daga fresti getur hver dæmt um fyrir sig. Þrátt fyrir niðurgreiðslu tvinnbíla (gas/bensín) og þrátt fyrir áróður fyrir umhverfisvernd fjölgar tvinnbílum hægt í Svíþjóð.

Fátt um fína drætti?
Flest hugsandi fólk álítur að raunhæf aðgerð við núverandi aðstæður sé að spara eldsneyti; ganga, hjóla (að svo miklu leyti sem veðurfar hérlendis leyfir), nota sparneytnari bíla, passa betur upp á ástand bíla (vélarstillingu, þrýsting í dekkjum) og temja sér sparakstur. Hið opinbera, af framangreindum ástæðum, tregðast við að hvetja til fjölgunar dísilbíla þótt þeir eyði þriðjungi minna eldsneyti og séu, með loftagnasíum, með hreinni útblástur en bensínvélar. Dísilvél er án kveikjukerfis og einfaldari búnaður gerir það að verkum að ástand hennar er stöðugra og gæði brunans meiri og jafnari yfir lengra tímabil. Þessi tregða gegn dísilvélum hefur staðið í meira en áratug eftir að dísilbílavæðing hófst fyrir alvöru í helstu iðnríkjum Evrópu (en þar er nú annar hver nýr fólksbíll með dísilvél). Tregðan hér er auðvitað af ofangreindum ástæðum - dísilbílar draga úr sölu á eldsneyti. (FÍB sannaði það nú í ágúst með eftirminnilegum hætti þegar starfsmenn þess óku nýjum Skoda Octavia dísil tæplega einn og hálfan hring umhverfis landið með 3,5 lítrum af dísilolíu að meðaltali á hverja 100 km).

Margt bendir til þess að hagkvæmt geti orðið að vinna etanól úr úrgangi (lífmassi) en 10% íblöndun etanóls í bensín krefst engra breytinga á bílvélum en minnkar loftmengun umtalsvert. Etanól hefur um árabil verið í notkun í Svíþjóð með góðum árangri. Tvinnbílar, Toyota Prius, sem knúinn er bensíni og raforku er þegar á markaðnum og niðurgreiddur. Prius er mun sparneytnari en hefðbundinn bíll sömu stærðar og Toyota ábyrgist rafbúnað og rafhlöður í 8 ár. Eftirspurn er samt ekki rífandi. Galli við Prius er að rafhlöður hans er ekki hægt að hlaða með utanaðkomandi rafmagni, a.m.k. ekki enn sem komið er.

Í upphafi skyldi …..
Skáldið Oscar Wilde sagði að vegurinn til vítis væri varðaður góðum ásetningi. Það á við varðandi pólitískar lausnir á mengunarmálum. Ágætt dæmi er frá 9. áratug síðustu aldar þegar yfirvöld í Brasilíu ákváðu að ráðast gegn mikilli loftmengun í stórborgum með því að taka upp etanól í stað bensíns sem eldsneyti á bíla. Bílar fyrir etanól voru framleiddir í stórum stíl í Brasilíu og etanólframleiðsla úr sykurreyr átti að verða lyftistöng fyrir landbúnað í hinum strjálu byggðum - slá átti tvær flugur í einu höggi; minnka mengun í borgum og efla landbúnað. Á fáum árum tókst að hreinsa loftið í stórborgunum. Gríðarleg aukning varð í ræktun á sykurreyr. Bændur brenndu reyrinn fyrir uppskeru til að eyða laufi og snákum. Og þar kom að meiri loftmengun varð í landbúnaðarhéruðunum vegna reyks og sóts en áður hafði verið í borgunum og þegar reykinn fór að leggja yfir borgirnar var sjálfhætt við etanólbílana. Reynslunni ríkari framleiða Brasilíumenn nú bíla sem brenna bensíni með 10% íblöndun etanóls. (Lesa má um þetta á ýmsum vefsíðum. Leitarorð: Gasohol Brazil).(Í Bandaríkjunum hefur um árabil verið selt E85 sem er etanól (unnið úr korni) blandað með 15% bensíni og notendum fjölgað í yfir 5 milljón ir bíla því engu þarf að breyta í bílum. Ekki eru þó allir sannfærðir um ágæti etanólsins eins og sjá má á Netinu sé notaður leitarstregurinn <E85 USA>).

Mikil möguleikar en ......
Skrifa mætti um framleiðslu á dísilolíu úr repju (en slíka grein skrifaði ég árið 1996 þar sem lýst var framleiðslu dísilolíu í Þýskalandi úr grænfóðri), um framleiðslu á dísilolíu úr notaðri matarolíu og öðrum feitarafgöngum. Skrifa mætti um raforkuframleiðslu til sveita með gerjunargasi úr húsdýraskít með hjálp jarðvarma; um rafbíla, um skipastól sem brennir óhreinna eldsneyti án nokkurra mengunarvarna (engin pólitískur áhugi virðist vera fyrir því að draga úr mengun af útblæstri skipa), um vetnisvélar, um ónýtta og umtalsverða innlenda orkulind, sem er mórinn, og þannig mætti áfram telja. En spyrja má hvaða raunhæft gildi það hefði í ljósi þess sem hér hefur áður verið bent á - þ.e. hagsmuni ríkissjóðs af sem mestri sölu þess eldsneytis, þ.e. jarðefnaeldsneytis sem mestri loftmengun stafar frá?

Póltísk kviðrista
Það er auðvelt að byggja skýjaborgir og sjá fyrir sér Ísland sjálfu sér nógt um eldsneyti með endurnýtanlegri orku án loftmengunar nema þeirrar sem leggur til okkar með háloftavindum frá Evrópu (og enginn virðist muna eftir þegar gripið er til viðhafnarlyginnar um hreint land og tært loft). Tækist að knýja helming bílaflotans með metangasi ætti hið opinbera varla annarra kosta völ en að auka skattlagningu eldsneytis til að tryggja tekjur sínar - sem gæti þýtt að verð á bensíni, dísilolíu og metan yrði að hækka upp úr öllu valdi og langt umfram eldsneytisverð í nágrannalöndum.

Stjórnmálamönnum er vissulega vorkunn: Sá þingmaður sem beitti sér opinberlega (en ekki á bak við tjöldin) gegn eldsneytissparnaði - til þess að vernda hagsmuni ríkissjóðs, ætti ekki sjö dagana sæla. Hver einasti þingmaður myndi hiklaust lýsa því yfir að hann sé á móti loftmengun - hvað annað? Það er ekki fyrr en viðkomandi er kominn í ríkisstjórn - orðinn ráðherra, sem hann þarf að fara að ljúga bæði listrænt og tæknilega. (1998 var frumvarp fjármálaráðherra um afnám þungaskatts af dísilbílum fellt og svæft í Allsherjarnefnd, eina ferðina enn, og þá undir forystu „vetnisþingmanns’’ af Suðurnesjum en í staðinn stofnaði Skeljungur Vetnisstöð í Reykjavík og lagði til fé til að halda uppi áróðri fyrir vetni sem eldsneyti á bíla (sem kom áðurnefndum þingmanni á framfæri í fjölmiðlum) - þrátt fyrir að flestum mönnum með nægilega tækniþekkingu væri ljóst að vetni yrði aldrei samkeppnishæft við aðra orkumiðla til að knýja bila).

Þess vegna leitar atvinnustjórnmálamaður að möguleikum til þess að vera talsmaður og boðberi umhverfis- og náttúruverndar með viðeigandi upphrópunum og vægjaslætti - möguleikum sem hann veit að hann mun aldrei standa frammi fyrir; loforðum sem engin leið er að efna - en ,,kosningaloforð" er sérstakt hugtak í íslensku - og ekki blandað saman við venjuleg loforð! (Og fylgdi hugur máli hjá stjórnvöldum er eðlilegt að spyrja hvers vegna allir bílar sveitarfélaga séu ekki knúnir metangasi og hvers vegna allir strætisvagnar á Stór-Reykjavíkursvæðinu séu ekki knúnir vetni (eitt pennastrik nægði) - því nóg er mengunin?).

Á meðal himnasendinga og mjög heppilegur pólitískur möguleiki er orkumiðlill á borð við vetni, sem nota má í stað eldsneytis og brennur án minnstu loftmengunar. Vetnið er ekki síst ákjósanlegt til að fabúlera um á stjórnmálafundum og fyrir kosningar því það er engin minnsta hætta á að vetni geti raskað núverandi eldsneytisbúskap (ríkistekjum) fyrr en hugsanlega eftir 10-50 ár (og þyrfti þó kraftaverk til) - sem er ákjósanlegur teygjanleiki í pólitík - eða samkvæmt sænska máltækinu: Sá dagur - sú sorg. Og í beinu framhaldi má spyrja: Ef stjórnvöldum er einhver alvara í því að stuðla að minnkun loftmengunar - hvers vegna er þá lítrinn af dísiolíu dýrari hér en lítri af bensíni?

Og brandarinn um bæjarlækinn …
Undanfarna áratugi hefur því verið haldið að almenningi (samkvæmt reglunni að sé einhverju logið nógu oft fer fólk að trúa) að íslenska raforka sé ódýr. Að vísu er útjaskaða klysjan ,,ódýr íslensk orka" orðin andskoti lúin, ekki síst upp á síðkastið með Kárahjúkavirkjun sem sérfræðingar fullyrða að aldrei muni bera sig og raforkan frá henni verði því greidd niður af íslenskum heimilum - eins og íslensk orka yfirleitt sem er engin nýbóla.

Nú borgar sig að virkja aðra hverja sprænu til sveita; - bændur eru hvattir með ýmsum hætti til að virkja ,,bæjarlækinn" til eigin nota og/eða til að selja raforku til stærri veitustofnana. Hafi einhver, í einfeldni sinni, haldið að þetta væri orðið svo hagkvæmt vegna þess að tæknin hafi gert bæjarlækjarvirkjun ódýrari eða minna fyrirtæki en áður - þá er það í besta falli misskilningur: Bæjarlækinn borgar sig einungis að virkja núna vegna þess hve raforkuverð hefur hækkað mikið miðað við aðrar nauðsynjar heimila í landinu: Raforka til heimilisnota á Íslandi mun nú vera ein sú dýrasta í V-Evrópu (sem hlutfall af meðaltímalaunum verkafólks) - og hvergi á byggðu bóli mun ríkið innheimta jafn háan virðisaukaskatt af heimilisrafmagni og á Íslandi (24,5% af almennri raforku og 14% af raforku til húshitunar), nema í Danmörku (25%). Þetta og fleiri ,,alíslensk" sérkenni má skoða í gögnum OECD.
-----------------------------------
Heimildir:
1) Orkustofnun. Upplýsingarit: Vistvænt eldsneyti. Október 2005 (bls. 13). www.os.is
2) Landsvirkjun. Upplýsingaritið ,,Umhverfið í okkar höndum."
3) Félag íslenskra bifreiðaeigenda. www.fib.is
4) Sorpa/Metan hf. www.metan.is
5) Linköpings Kommun. ,,28 steg för en bättre miljö I Linköping: Lokala investeringsprogram 1999-2005. (bls. 9) www.linkoping.se

Til baka á aðalsíðu

Netfang höfundar