Chevrolet Tosca
eftir Leó M. Jónsson vélatæknifræðing

Chevrolet Europe er sérstakt fyrirtæki í eigu General Motors sem annast markaðssetningu Chevrolet-bíla á Evrópumarkaði en þeir Chevrolet eru framleiddir í einni fullkomnustu bílaverksmiðjunni í Suður-Kóreu, GM DAT en þá verksmiðju reisti Daewoo. Hrikaleg fjárfesting í tæknibúnaði reyndist Daewoo ofviða og

Chevrolet Tosca: Nýr bíll hannaður af David Lyon.

GM eignaðist það með yfirtöku og stofnun nýs fyrirtækis í S-Kóreu (sem selur sína bíla áfram sem Daewoo þarlendis). Tækniiðnaður stórfyritækja í S-Kóreu er í miklum uppgangi eftir efnahagshrunið sem varð á síðasta áratug fyrri aldar. Það fer ekki leynt að suður-kóreönsku fyrirtækin mæla sig við japönsk og mörg þeirra standa uppi í hárinu á þeim.

Daewoo hafði lengi verið í samvinnu við GM, m.a. framleitt fyrir það Pontiac-bíla sem seldir voru í Bandaríkjunum og keypti um miðjan 10. áratuginn hönnun og vélar frá Opel en þá Daewoo-bíla var byrjað að selja hérlendis 1998 og eru enn algengir á götunum. Hluti af Chevrolet-bílunum eru bílar sem Daewoo hafði framleitt (Matiz) og nýir bílar sem Daewoo hafði rétt náð að koma á koppinn svo sem rýmisbíllinn Chevrolet Rezzo og aðalsölubíllinn Kalos. Leganza var lúxusnúmerið hjá Daewoo. Nýr lúxusbíll hefur verið hannaður nánast frá grunni af bandaríkjamanninum David Lyon, bíll sem ber nokkurn keim af Opel Vectra og Renault Laguna og er seldur sem Chevrolet Magnus, Evanda, Epica, Verona eða Tosca eftir markaðssvæðum í Evrópu.

Tosca: Fjarstýringar í stýri, hraðastillir í stýri, útpælt mælaborð og ótrúlega fallegur frágangur. Öryggisbúnaður eins og hann gerist mestur.

Hér nefnist bíllinn Chevrolet Tosca. Í Evrópu er takmarkaður markaður fyrir svo stóra 5 manna fólksbíla. Það sem Chevrolet Europe hyggst nýta sér er sterk samkeppnisstaða Tosca sem er allt að 25% ódýrari en sambærilega búnir bílar á borð við Opel Vectra, Renault Laguna og Ford Mondeo (Toyota er ekki enn á meðal þeirra stóru á Evrópumarkaðnum - t.d. einungis hálfdrættingur á við Renault í Þýskalandi). Verðið á Tosca þýðir að hann dregur kaupendur upp um einn stærðarflokk - en þannig hefur Chevrolet Europe lagt markaðssóknina upp og þannig hyggst það selja rúmlega 10 þúsund Tosca á árinu 2007.

Nú þegar eftirspurnin er mest kostar dýrasta gerðin af Tosca með öllum hugsanlegum lúxus- og þægindabúnaði ásamt leðurklæðningu um 3 mkr. Mér kæmi ekki á óvart þótt dýrasta gerðin lækkaði á næsta ári í 2,8 mkr. og ódýrari gerð með tauklæðningu yrði fáanleg fyrir um 2,5 mkr.

Þá er Tosca væntanlegur á næsta ári með 4ra sílindra 150 ha 2ja lítra túrbódísilvél sem er hönnuð og framleidd í samvinnu Detroit Diesel og VM Motori en 2,5 lítra túrbódísilvélar frá VM hafa verið í Jeep Cherokee, Ford Mondeo, breskum leigubílum o.fl. í um 15 ár.

Álblokkin steypt utan um sílindra úr stáli. Tækni sem Porsche hefur náð fullkomnum tökum á.

En 2ja lítra bensínvélin í Tosca er merkileg að mörgu leyti. Þetta er 6 sílindra línuvél úr áli með tveimur ofanáligjandi keðjuknúnum kambásum sem knýja 24 ventla. Þessi línuvél er þverstæð og mun ekki eiga sér hliðstæðu í framhjóladrifnum bíl. Það má líklega ekki segja frá því upphátt að hér er komin vél sem Porsche hannaði á sínum tíma fyrir Daewoo - fyrir geipifé - en sem Daewoo entist ekki örendið til að koma í gagn. Sú hönnun hefur fylgt með í kaupum GM á DAT-verksmiðjunni. Önnur ástæða þess að Chevrolet kýs að flagga ekki Porsche í þessu sambandi kann að vera þeir erfiðleikar sem Porsche lenti sjálft í á tímabili með þessa sérstöku framleiðslutækni sem felst í því að steypa stálsílindra sem fóðringar inn í álblokk (fyrsta árgerðin af Porsche Boxster) en það vandamál er búið að leysa fyrir löngu. Þessi tækni gerir það að verkum að styttra verður á milli sílindra sem styttir vélina, þetta er reyndar stysta 6 sílindra línuvélin á markaðnum og hún er einnig að því leyti merkilega ða hafa allan hjálparbúnað svo sem alternator, vatnsdælu, smurolíusíu, vökvastýris- og frystidælu á þeirri hliðinni sem snýr að manni þegar húddið er opnað. Þessi vél vegur einungis 151 kg.

Tosca er byggður sem burðarbúr án grindar. Fjaðrabúnaður að framan eru McPherson-gormaturnar og gasdemparar með hjólstífum, jafnvægisslá, tannstangarstýri (vökva) og loftkældum diskbremsum. Að aftan er gormafjöðrun (turnar) með fjölliða upphengju/togstífum, jafnvægisslá, gasdempurum og diskabremsum. Auk 4ra rása ABS-læsivarnar er bremsurnar með álagsstýringu sem er hluti af öryggisbúnaði bílsins.

Þótt Tosca sé kynntur sem Evrópskur bíll og með því gefið í skyn að hann sé grjóthastur (en það telst sportlegt á þeim bæ) má taka það með hæfilegum fyrirvara. Tosca er nokkuð mjúkur á fjöðrunum, hallar t.d. eðlilega í beygjum - hann er þægilegur fólksbíll.

Chevrolet Tosca er áberandi stærri bíll og rúmbetri en Toyota Avensis. Mjúkur á fjöðrunum og sérlega vel hljóðeinangraður. Sjálfskiptingin er japönsk (frá Aisin Warner).

Rýmið er mikið enda bíllinn langur á milli hjóla (2700 mm) Til frekari glöggvunar er sambærilegt mál á nýjum Toyota Avensis haft innan sviga. Tosca er 4805 mm á lengd (4630). Breiddin er 1810 mm (1760). Hæð er 1450 mm (1480). Sporvídd Tosca er áberandi mikil, 1550 mm að framan (1505). Botnskugginn er 8,7 m2 (8,15 m2). Eigin þyngd er um 1460 kg. Dráttargeta er 1300/500 kg. Hjól/dekk eru af stærðunum 205 60 R16 (LS) og 215 50 R17 (LT).

Flestum mun koma á óvart hve innréttingin í Tosca er vönduð - svona handbragð sést varla nema í miklu dýrari bílum; efnið er vandað, hönnunin vel útfærð og smekkleg og frágangur með því besta sem ég hef séð. Sætin eru hæfilega bolstruð, góð hæð á setu aftursætis (maður sekkur ekki niður í þennan bíl) - búnaður í algjörum sérflokki, jafnvel sambærilegur við þrefalt dýrari bíl og innanrými fínt - meiriháttar farangursrými (480 lítrar) þótt skottið sé fremur stutt, séð utanfrá.

Eins og gefur að skila er Tosca með 142ja ha vél ekkert tígrísdýr. Hámarkstogið er 195 Nm við 4600 sn/mín. Snerpan með sjálfskiptingu stillta á "Sport'' er um 10 sek. Sumir hafa veitt því athygli að við botngjöf á ferð myndast dauður punktur áður en vélin byrjar að taka við sér. Þetta er ekki galli, hafi einhver haldið það, heldur innbyggð vörn í forriti vélartölvunnar til að koma í veg fyrir of snögga hámarksinnsprautun sem myndi auka eyðsluna verulega. Þetta er einn af kostum barkalausrar inngjafar (drive by wire) en með henni má tryggja hægt vaxandi inngjöf - jafnvel þótt inngjöf sé botnuð. Sé hins vegar þörf sérstaklega snöggra viðbragða er sjálfskiptingin stillt á næsthæsta gír eða gírum stjórnað með hnappnum á stönginni. Sjálfskiptingin er japönsk frá Asin Warner sem er eitt af dótturfyrirtækjum GM en þessa skiptingu hefur t.d. Volvo notað í dýrari gerðum.
Með Tosca fæst stór og þægilegur fólksbíll sem eyðir um og innan við 10 lítrum og er með meiri lúxusbúnaði en nokkur annar bíll á markaðnum á sambærilegu verði.

Til baka á aðalsíðu

Netfang höfundar