Mín skoðun

26. nóvember 2011.
Leó M. Jónsson:
Kötturinn okkar, högninn Gústi var, eins og títt er um ketti, mjög sérstakur karakter og mikill og ljúfur félagi. Strax að morgunverkum loknum hjá okkur báðum þegar ég hafði sest við tölvuna kom hann sér fyrir og hvíldi hausinn vinstra megin við lyklaborðið og malaði. Þannig tók hann sinn þátt í mínum störfum. Malið í Gústa hafði þægileg áhrif á mig sem ég kann enga vitræna skýringu á.

Fyrir tilviljun las ég grein í þýsku tímariti um sérkenni dýrategunda. Meðal þess sem vakti athygli mína var að talað var um að einungis dýr af kattaætt (feline) mali og geri það öll, frá stærstu tígrísdýrum og ljónum til svartfótar sem mun smæstur húskatta. Af forvitni fór ég að skoða ýmislegt á Netinu um þetta efni og notaði sem leitarlykil feline purring.

Netið
Á Netinu kennir ýmissa grasa og eins og það sem varðar bílabransann er vissara að taka flestu með fyrirvara því margir eru kallaðir en fáir útvaldir: Margt er fullyrt án sannfærandi raka; - sumt virðist eiga meira skylt við trúarbrögð en raunveru. Ég fann áhugaverða grein úr tímaritinu Scientific American eftir Leslie A. Lyons (leitarlykill), sem er prófessor í dýralækningum við University of California. Í greininni fjallar hann um þetta fyrirbæri, mal í köttum; rannsóknir á tilgangi þess og áhrifum.

Á meðal þess sem prófessorinn nefnir er að kettir mali ekki einungis þegar þeir annist kettlinga eða hvílist heldur einnig þegar þeir eru órólegir, kvíðnir eða líður illa, t.d. sé algengt að veikir kettir mali við meðhöndlun á dýralæknastofu og þegar sár eru að gróa eftir meiðsli. Kettir mali því ekki einungis þegar þeim líði vel. Þessi gáta hefur hvatt vísindamenn til að rannsaka malið sjálft, þ.e. á hvern hátt kettir beiti mali.

Í greininni segir að kettir mali bæði við inn- og útöndun með jafnri tíðni sem, eftir atvikum, mælist frá 25 til 150 rið. Einnig segir að rannsóknir sýni að hljóðbylgjur á þessu tíðnisviði geti aukið beinþéttni og flýtt lækningu, t.d. beinbrota. Prófessorinn segir að þetta samband á milli tíðni mals hjá köttum og græðslu beina og vöðva geti hjálpað sumu fólki. Hann bendir á að beinþéttni og vöðvaafl rýrni hjá geimförum búi þeir við þyngdarleysi í lengri tíma og að læknar hafi notfært sér þessa vitneskju til að draga úr áhrifum lengri tíma þyngdarleysis á beinþéttni hjá geimförum.

Orkubúskapur katta - sjálfsheilun
Vitað er að kettir geta safnað og geymt orku sofi þeir eða hvílist í lengri tíma skorpum. Hugsanlega er malið aðferð sem kettir hafa þróað með sér til að nýta orkubylgjur til að þjálfa vöðva og styrkja bein. Af þessu megi álykta að malið gegni hlutverki við heilun og kunni að tengjast þeirri mýtu að kettir séu lífseigari en gengur og gerist - þ.e. hafi 9 líf. Prófessorinn bendir á að á meðal dýralækna sé þekktur merkilegur eiginleiki katta, umfram önnur dýr, til að græða sig sjálfa eftir beinbrot og vöðvaáverka; jafnvel sá makalausi eiginleiki að þótt þeir slasist með aflimun geti þeir stundum raðað beinum/útlimum saman og grætt sig sjálfir, séu þeir látnir í einangrun ásamt lim eða limahlutum!

Í greininni segir að á meðal dýralækna sé það þekkt staðreynd að veikindi í stoðkerfi og vöðvum hinna ýmsu tegunda ræktaðra húskatta séu sjaldgæf en algeng hjá hinum ýmsu tegundum ræktaðra hunda. Malið kunni að eiga sinn þátt í því. Prófessorinn lýkur greininni á því að segja að þótt það kunni að vera freistandi að segja að kettir mali þegar þeir séu ánægðir og líði vel bendi niðurstöður rannsókna til þess að líklegri skýring sé að kettir beiti malinu sem lið í samskiptum og sem aðferð til sjálfsheilunar með vægum orkubylgjum.

Mín ályktun
Ég hef ekki gefið mér mikinn tíma til að kynna mér fróðleik um gigt sem mikið er af á Netinu, jafnvel á íslensku, t.d. á vefsíðu Gigtarfélagsins. En eftir að hafa fræðst um þessa merkilegu eiginleika kattarins gaf ég mér það sjálfur að í fyrsta lagi myndi vera samband á milli slitgigtar og beinþéttni, enda finnst mér það hljóti að liggja í augum uppi og í öðru lagi að einhverjum hlyti að hafa dottið í hug að gera einstaklingum kleift að nota svona hljóðbylgjur til að mynda og beita orku til heilunar, m.a. á bein/vöðva og reyna þannig að draga úr óþægindum og áhrifum gigtar.

Margir glíma við slitgigt, sérstaklega á efri árum og prófa ýmis ,,töfraefni" sem sérfræðingar telja jafnvel dýr og gagnlaus. En hvað prófar einstaklingur ekki til að lina stöðugar kvalir? Skyldi það vera tilviljun að sala svokallaðra bætiefna og alls konar ,,lyfja," sem fást án lyfseðils, nemur jafn ótrúlegum upphæðum og nefndar hafa verið? Það væri ótrúlegt innihéldu allar þessar töflur virk efni, t.d. gegn gigt? Ég spurði gigtarlækninn að því hvort líklegt væri að dýrar töflur, sem sagðar voru innihalda efni unnið úr brjóski hákarla og áttu að gagnast vel gegn alls konar gigt, gætu verið einhvers virði. Hann hló og sagði telja að ein gulrót á dag væri ódýrari og líklegri til að koma að gagni en þessar ,,hákarlapillur". Hins vegar, liði einhverjum betur, eftir að hafa greitt ríflega 8 þúsund krónur fyrir pilluskammtinn, þá væri það hans mál.

Mergurinn málsins
Trú á kraftaverk, - eitthvað sem er umfram mannlegan mátt er mörgum eðlislæg. Einhver frægur heimspekingur færði rök fyrir því að raunveruleikinn gengi ekki upp án kraftaverka því það sem væri ómögulegt í dag gæti verið staðreynd á morgun. Sem dæmi mætti nefna för Hannibals með her Karþagómanna og fílana yfir Pýreníu- og Alpafjöll 218 f.kr. Vísindamenn eru enn þann dag í dag að rannsaka hvernig Hannibal fór að þessu - því enn virðist þetta ókleift.

Þar sem ég gat ekki malað eins og Gústi vinur minn fór ég að leita upplýsinga um hvort og hvernig ég gæti nýtt þessa tækni kattarins. Eins og fyrri daginn reyndist Netið ríkt af upplýsingum um alls konar tæki sem sögð voru geta bætt ýmis mein með orkubylgjum (Resonance therapy), m.a. myndskeið á YouTube. Ég byrjaði að skoða þessa tækni í janúar 2011 og get ekki sagt að ég hafi botnað mikið í ýmsu sem fyrir augun bar enda virðast miklar og glannalegar fullyrðingar einkenna þetta svið eins og margt annað sem fylgir tækjagleði Ameríkana; - margur textinn fannst mér ýkjukenndur og ótraustvekjandi.

Sjaldan er ein báran stök
Við erum fámenn og því má segja að maður sé bundinn við heimalningssnagann. Vinur minn, sem er m.a. reikimeistari, sagði mér í óspurðum fréttum að kunningi hans, sem ég vissi deili á, og sem hafði lamast eftir að hafa fengið heilablóðfall tvisvar með skömmu millibili, væri að ná undraverðum bata með hjálp raftíðnitækis. Mér datt strax í hug tækni kattarins. Við nánari eftirgrennslan kom í ljós að svo er; farið er að beita svipuðum rafbylgjum (Micro Frequency) og kettir nota til sjálfsheilunar við endurhæfingu sjúklinga.

Heimild: Scientific American. 3.4. 2006. Lesly A. Lyons, assistant professor, School of Veterinary Medicine, University of California, U.S.A.

5. nóvember 2011
Leó M. Jónsson:
Óli Tynes blaðamaður er fallinn frá á besta aldri. Þar er skarð fyrir skildi sem við munum verða vör við - fjölmiðlarnir munu ekki verða eins skemmtilegir, inná við sem útá við.Ég er einn þeirra sem hef átt því láni að fagna að starfa með Óla Tynes. Það var á miðjum 8. áratug síðustu aldar að Frjálst framtak hf, undir stjórn drifkraftsins Jóhanns Briem, stofnaði nýtt tímarit að útlendri fyrirmynd og nefndi FÓLK. Og það var ekkert verið að skera utan af því því tímaritið skyldi koma út vikulega. Óli Tynes var ráðinn ritstjóri, undirritaður blaðamaður og Loftur Ágústsson ljósmyndari. Þarna var Óli í essinu sínu, drífandi, hugmyndaríkur, laus við mont, stæla og kreddur: Eftir örstutta ritstjórnarfundi, sem við sátum þrír og skiptum með okkur verkum, var viðkvæðið venjulega: Samþykkt - kílum á þetta. Ekki man ég hvað FÓLKI entist örendið (sennilega rúmt hálft ár eða svo) því það voru engir peningar til í reksturinn og auglýsendur voru rétt að byrja að uppgötva þennan miðil um það leyti sem hann hafði runnið sitt skeið. Og þótt launin væru ef til vill ekki greidd nákvæmlega um hver mánaðamót og af spunnust alls konar vandamál eins og gengur - var enginn að grenja yfir því því þetta var svo rosalega gaman. Ég gleymi aldrei forsíðuviðtalinu við Svein ,,Patton" Eiríksson slökkviliðsstjóra á Keflavíkurflugvellií fullum herklæðum. Viðtalið vakti gríðarlega athygli og FÓLK var bókstaflega rifið út og seldist hvert einasta eintak.
Karlinn var fyrrverandi flugstjóri á DC8 þotum og rak umsvifamikla farmflutninga, m.a. fyrir Herinn auk þess að halda slökkviliðinu vakandi með látlausum æfingum. Varla leið mánuður að liðið vann ekki einhverja afrekskeppni á vegum Bandaríska sjóhersins. Ég spurði Patton í framhaldi af skipulegri þjálfuninni hvernig Slökkvilið Reykjavíkurflug-vallar væri metið í samanburði við hans lið á ,,Vellinum." Aldrei gleymi ég meinlegu glottinu á andliti karlsins þegar hann sagði ,,við skulum nú ekkert minnast á þá piltana - það brann ofan af þeim stöðin greyjunum ....."
Það var gaman að vinna með Óla Tynes. Blessuð veri minning hans.

2
4. október 2011
Leó M. Jónsson:
Ég á fátt sameiginlegt með Samfylkingarfólki og, ef út í það er farið, nokkrum öðrum stjórnmálaflokki: Hef alla tíð haft andstyggð á íslenskri pólitík sem ég hef aldrei getað skilið öðru vísi en samkeppni um heimsku. En ég er sammála þeim Samfylkingarmönnum sem telja hag Íslands best borgið innan Efnahagsbandalagsins þótt mín rök fyrir aðild séu allt önnur en þeirra (og allt önnur en erlendra fræðimanna og hagfræðinga sem þekkja ekki félagslegu hliðina á þessu ,,föðurlandi öfundarinnar"). Ég þekki nokkuð vel til í Belgíu og Frakklandi og hef starfað með þarlendum og fólki frá löndum EB og Evrópu. Sé frátalið fólk frá fyrrum leppríkjum Rússa, hefur sérfræðimenntað fólk næstum undantekningarlaust betri kjör en við Íslendingar (að teknu tilliti til skattgreiðslna), menntun þess og hæfileikar tryggja því möguleika á atvinnumarkaði og það býr við meira félagslegt öryggi en hér tíðkast.
Íslenskt þjóðfélag er enn gegnsýrt af spillingu: Ein birtingarmynd hennar eru þau afgerandi áhrif sem frændsemi, ættartengsl og klíkuskapur hefur haft og hefur enn á möguleika fólks til að njóta menntunar og hæfileika sinna á sviðum atvinnu- og þjóðlífs. Hér stafar almenningi ógn af spilltu réttar- og dómskerfi; - það getur ráðist af ættartengslum hvernig lög eru túlkuð. Með örfáum undantekningum hafa einstaklingar eða samtök þeirra tapað sóttum réttindamálum á hendur ríkinu fyrir Hæstarétti, - ekki á grundvelli gildandi laga heldur vegna túlkunar meirihluta hæstaréttardómara á gildandi (óljósum) lögum. Með inngöngu Íslands í EB mun skapast fyrsta umtalsverða réttarbót almennings frá stofnun lýðveldisins. Dómarar, sem ekkert tillit taka til þess af hvaða ætt málsaðilar eru eða hvaða klíku þeir kunna að tilheyra, munu fella úrskurð sinn á grundvelli laganna sjálfra.
Með aðild okkar að EB mun Alþingi ekki komast upp með að hnoða saman lögum sem jafnvel brjóta í bága við stjórnarskrá, lögum sem brjóta gegn almennum mannréttindum eða lögum sem sérstaklega eru höfð óljóst orðuð þannig að gjörspillt embættismannakerfi geti hunsað þau eftir hentugleikum eða gert þau gagnslaus með ,,túlkun." (Lög skulu vera ótvíræð og þeim skal vera hægt að fylgja eftir með aðför að lögum).

Aðild að EB mun smám saman stöðva þann umfangsmikla atgervisflótta sem staðið hefur látlaust í hálfa öld vegna klíkuskapar við ráðningu á öllum sviðum.
Þessi atgervisflótti hefur reynst þjóðinni dýrari en allar kreppur samanlagðar sl. 50 ár; hann hefur stuðlað að rányrkju náttúruauðlinda, haldið niðri verðmætasköpun, hlaðið upp stjórnkerfi þar sem lykilstöður eru mannaðar undirmálsfólki og gert það m.a. að verkum að nú sitjum við uppi með Alþingi þéttskipað hálfvitum. Aðild að EB mun gera það að verkum að ráðningar, eins og nú síðast að Bankasýslu ríkisins, mun ekki þýða að reyna auk þess sem ríkisborgarar annarra EB-landa munu geta sótt um störf og stöður jafnt hjá fyrirtækjum sem hinu opinbera á Íslandi.

Aðild að EB mun gera það að verkum að eðlilegur aðgangur mun verða tryggður að auðlindum þjóðarinnar en ekki einskorðaður við hagsmunahópa og klíkuskap kvótagreifa. Á embættismenn EB mun ekki duga nein bætiflákalygi um að umgegni íslenskra útgerða um auðlindina í sjónum sé, eða hafi verið til fyrirmyndar enda hefur afli rýrnað, í tonnum talið, hvert ár síðan við öðluðumst fullan umráðarétt yfir fiskimiðunum! (sem mig grunar að nú þegar sé búið að stela af þjóðinni eins og fleiru ...). Erlendir fræðimenn vita nánast ekki neitt um þessar skuggahliðar íslensks þjóðfélags og því skyldum við taka aðvörunum þeirra um að EB muni gleypa okkur með fyrirvara - það er örugglega skárri kostur en áframhaldandi íslenskt lénsskipulag á 21. öld.

18. október 2011
Leó M. Jónsson:
Undanfarna 2 mánuði hafa staðið miklar umræður um verðtryggingu lána, þ.e. hvort hún sé verjandi en sumt fólk, sem átti skuldlausan hluta í eignum fyrir 4-5 árum, situr nú uppi með skuldir sem nema 40-50% af söluverði fasteignar vegna verðtryggingar. Þeir sem öskra hæst krefjast afnáms verðtryggingar, m.a. gerði núverandi forsætisráðherra það þegar hún var í stjórnarandstöðu og gat bullað ábyrgðarlaust (sem hún gerir reyndar enn). Í ágúst 2007 var einbýlishús í Garðabæ selt á 67 millónir króna. Þá var gengi evrunnar 93 kr. Fyrir húsið fengust því 720 þúsund evrur. 4 árum seinna, í ágúst 2011 hefur gengi evrunnar hækkað úr 93 í 164 kr. Það þýðir að einbýlishúsið hefur lækkað í verði sem nemur 312 þús. evrum, úr 720 í 408 þús. evrur. En ekki nóg með það: Samkvæmt útreikningum sérfræðinga við HÍ (Ársæll Valfells o.fl.) hefur meðalfasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu lækkað um 33% á sl. 4 árum (að raunvirði). Það þýðir að fyrir einbýlishúsið sem keypt var á 720 þús. evrur fengist ekki nema 307 þús. evrur nú. Raunvirði hússins hefur minnkað um 57,4% á 4 árum; - verðgildi þess hefur minnkað úr 67 mkr ísl.í 50,4 m. ísl. kr. eða um 57,4%. Hefði söluverðið verið greitt með óverðtryggðu láni fyrir 4 árum með veði í húsinu má ljóst vera að sá sem lánaði til kaupanna hefur tapað tugum milljóna króna. Og þá er ekki úr vegi að spyrja: Hver á að bera það tap? Sá sem lánaði eða sá sem tók lánið? Svari nú hver fyrir sig! (Ath. að með ákveðnum rökum mætti sýna að verðgildi hússins hafi rýrnað enn meira, jafnvel um 75%, talið í evrum!).

11. október 2011
Leó M. Jónsson:
Ég ætla ekki að kaupa metanbreytingu í bílinn minn. Ástæðurnar eru margar. Þótt bíllinn minn sé miðlungsstór bandarískur fólksbíll og vegi tæp 1800 kg er hann tæknilega mjög vel úr garði gerður og eyðir 9-11 lítrum (það samsvarar 4-5 lítra eyðslu smádósar). Ég bý á Reykjanesskaganum og hef ekki aðgang að metangasi. Frá því bensínið hækkaði umfram 200 kr. lítrinn hef ég endurskipulagt allan akstur heimilisins. Útgjöld vegna eldsneytiskaupa eru 12% minni í krónum talið heldur en fyrir 3 árum. Ég er þeirrar skoðunar að sá metanbúnaður sem verið sé að selja fólki á okurverði sé tæknilega úreltur (hann byggir á um 60 ára gamalli tækni). Ég er jafnframt þeirrar skoðunar að metangas eigi einungis eftir að hækka í verði og geti ekki keppt við aðrar gastegundir, t.d. gas framleitt úr húsdýraskít eða lífmassa. Rökin fyrir því eru að N1, sem nú einokar framleiðslu og dreifingu, varð nýlega gjaldþrota. Við endurreisn þess, með strandkafteininn áfram við stýrið, þurftu lánardrottnar að afskrifa 4000 milljónir króna af skuldum þess. Forstjóri N1 er þegar byrjaður að jarma um of háan kostnað við framleiðslu á metangasi (síðast á Bylgjunni í morgun). Að öllu þessu samanlögðu sé ég ekki nokkurn möguleika á því að láta metanbreytingu (sem er okrað á) borga sig upp. Og til að skýra frekar það sem ég segi um úreltan metan-búnaðinn bendi ég fólki á að kynna sér það sem er að gerast í ,,gasmálum" á heimsvísu, m.a. með fljótandi jarðgasi sem eldsneyti en með þeirri tækni (ofurkælingu gass) eykst drægni bíls á einni hleðslu úr 200 km í 1200 og metanstöðvar, eins og þær tvær sem hér eru, eru þegar úreltar. www.lngjournal.com/

9. október 2011
Leó M. Jónsson:
Spaugstofan er löngu búin að vera. Hún er ekki vitund fyndin frekar en hálftíma kyrrmynd af borgarstjóra Reykjavíkur. Ég skil ekki hvers vegna ágætir leikarar eru að niðurlægja sig vikulega með hallærislegum bjánagangi og aulabröndurum. Getur verið að enginn hafi þorað að gagnrýna Spaugstofuna, misheppnaðan grínþátt sem dagað hefur uppi og er, ranglega" auglýstur sem vinsælasti þáttur í sjónvarpi fyrr og síðar. Ef til vill hefur hann mælst með mikið áhorf einhvern tímann en örugglega ekki lengur: Landinn er ekki svo skyni skroppinn, þrátt fyrir fjárhagsleg áföll, að hann geti haft gaman af því að horfa upp á góða leikara gera sig að fíflum í verkefni sem þeir ráða ekki við - löngu útbrunnir og uppiskroppa með nothæfar hugmyndir. Í guðs bænum losið okkur við þetta hneyksli sem Spaugstofan er orðin að !

8. október 2011
Leó M. Jónsson:
Gjaldeyrishöft? Ætli margir geri sér grein fyrir því hvaða áhrif takmarkanir á gjaldeyrisyfirfærslu hafa á venjulegt fólk? Til hvers voru settar hömlur á millifærslu fjár úr íslenskum krónum í erlenda gjaldmiðla. Hvernig stendur á því að venjulegur Jón fær ekki keyptar 300 danskar krónur til að senda dóttur sinni, sem býr í Danmörku, í afmælisgjöf? en á sama tíma getur hver sem hefur krítarkort keypt það sem honum sýnist erlendis? Þessi mismunun er dæmigerð fyrir þá hentistefnu sem stjórnmálastéttin hefur tamið sér. (Það nýjasta er launahækkun til þingmanna á dögunum - sem þeir ,,slysuðust" til að samþykkja, nýbúnir að þverneita að endurskoða laun lögreglumanna). Um 10 þúsund manns hafa flúið land og fengið vinnu erlendis. Það samsvarar því að Akureyri stæði yfirgefin og hvert hús tæmt. Það gefur augaleið að flóttafólkið á húseignir hér heima sem kæmi því vel að geta notað erlendis. Það getur flutt með sér búslóðina en vegna gjaldeyrishaftanna getur það ekki selt húseign og fengið peningana yfirfærða. Gjaldeyrishöftin eru því átthagafjötrar, m.a. sett til að gera fólki erfiðara fyrir að yfirgefa ,,sæluna." Eins og með fleiri ráðstafanir íslenskra stjórnvalda standast þær áreiðanlega ekki ýmsa mannréttindasáttmála sem þau hafa undirgengist í trausti þess að þurfa ekki að virða, samanber valdnýðsluna gagnvart trillusjómönnum sem unnið hafa mál fyrir alþjóðlegum dómstóli gegn ríkinu en samt ekki fengið leiðréttingu sinna mála. Ráðherrar geta ekkert gert í málunum vegna þess að þeir ráða ekki við heimaríka embættismenn sem kæra sig kollótta. Þegar við erum gengin í Efnahagsbandalagið fær íslenskur almenningur sjálfkrafa vernd gegn valdnýðslu og misneytingu embættismanna. EB-aðild verður því einhver mesta réttarbót íslandssögunnar. Þá verður ekki hægt að dæma fólk fyrir morð án þess að fyrirliggjandi séu 3 meginatriði sakfellingar; lík, vopn eða sönnunargögn!

 

Næsta pistlaröð á undan

Eldri pistlar

Til baka á forsíðu