Leó M. Jónsson vélatæknifræðingur:

Gæði bíla mæld

Erlendis fylgjast samtök og fyrirtæki með reynslu kaupenda af nýjum bílum og birta niðurstöður sínar eða selja til birtingar. Sem dæmi má nefna samtök sænskra bíleigenda, (Motormännens Riksförbund), sænsku bílaskoðunina (Svensk bilprovning AB), bandarísku neytendasamtökin (Consumer Union), og bandaríska fyrirtækið J.D. Power & Associates en það fylgist með, metur og mælir gæði alls konar vöru og þjónustu á bandaríska markaðnum, þar á meðal bíla.

Fyrir þá bílaframleiðendur sem eru á bandaríska markaðnum skiptir máli hvernig þeim farnast í gæðamælingum J.D. Power enda notar almenningur þær upplýsingar við val á nýjum bílum. Gæðamælingar J.D. Power á bílum hófust 1987 og fyrstu niðurstöður um gæði 3ja ára bíla birtust 1990. Mælingar fyrirtækisins byggjast á skipulagðri söfnun kvartana á meðal kaupenda nýrra bíla í Bandaríkjunum. Niðurstöður mælinga, sem birtar eru á vefsíðu J.D.Power, eru opnar almenningi án endurgjalds. Ein af ástæðum þess er sú að allir helstu bílaframleiðendur taka þátt í kostnaði fyrirtækisins af þessum mælingum. Aðferðum J.D. Power og fyrirkomulagi, m.a. kostun, er lýst á vefsíðu þess www.jdpower.com.

"2003 Corporate VDS Ranking" mælir orðstír bílaframleiðenda á grundvelli samanlagðs fjölda kvartana fyrir allar gerðir bíla sem hann framleiðir. Þessi niðurstaða var birt með fréttatilkynningu J.D. Power 8. júlí 2003. Hún byggir á skipulagðri skráningu frá eigendum bíla af árgerð 2000. Tölurnar aftan við stóplana er fjöldi kvartana á hverja 100 bíla frá viðkomandi framleiðanda.
(Ath. til að nálgast fréttatilkynningar J.D.Power á Netinu má nota leit á www.google.com með leitarstrengnum
2003 Vehicle Dependability Study eða
2005 Vehicle Dependability Study eða
2005 Vehicle Initial Quality Study

Lexus: Varla tilviljun …..
Það er örugglega ekki tilviljun að Lexus hefur verið efst á lista J.D.Power, yfir gæði bíltegundar, á hverju ári - samfellt í 11 ár. Það eru heldur ekki tilviljanir að Cadillac og Honda skuli hafa verið, árum saman, í 2. 3. eða 4. sæti á lista J.D. Power yfir þá bíla á bandaríska markaðnum sem bila sjaldnast. (Evrópskir Ford, Fiat, Citroën, Peugeot og Renault eru ekki á bandaríska markaðnum og því ekki á þessum listum).

Auðvelt er að misskilja niðurstöður gæðamælinga á bílum og algengt er að þær séu teknar of alvarlega. Þá má setja spurningarmerki við notkun hugtaksins ,,gæðamæling" í þessu samhengi: Þótt J.D.Power nefni þessar kannanir ,,Vehicle dependability Study" og ,,Initial Quality Study" , þ.e. áreiðanleikakönnun og gæðakönnun, er um að ræða skipulega skráningu kvartana eigenda nýrra bíla á ákveðnum tímabilum innan ábyrgðartíma. Niðurstöðurnar eru því ekki mæling á gæðum ákveðinnar bíltegundar heldur samanburður á gæðunum: Sem dæmi er ljóst af samanburðinum að gæði Lexus-bíla eru miklu meiri en Mercedes-Benz-bíla á svipuðu verði.

Ekki ætti að koma á óvart að Daewoo og Kia skuli vera í neðstu sætunum á lista yfir gæðamælingu því þetta eru ódýrustu fólksbílar sem boðnir eru á bandaríska markaðnum. Það er hins vegar merkilegt að bíll á borð við Honda, sem ekki telst dýr, skuli vera svo ofarlega á þessum listum ár eftir ár og það er einnig merkilegt að tiltölulega dýrir bílar á borð við Land Rover og Volvo skuli ekki skora betur á þessum gæðalistum J.D.Power.

Jafnframt þarf að átta sig á því hvernig þessar mælingar eru framkvæmdar. Eftirfarandi skýringar gætu forðað frá misskilningi, ekki síst hjá þeim sem kaupa notaða bíla í Bandaríkjunum en þeir geta haft verulegt gagn af upplýsingum/þjónustu J.D. Power.

Ákveðin mæling J.D. Power nefnist "Initial Quality Study", skammstafað IQS. Um er að ræða könnun á fjölda kvartana eigenda nýrra bíla af ákveðinni árgerð á fyrsta 3ja mánaða tímabilinu eftir kaupin. Mælikvarðinn er fjöldi kvartana á hverja 100 bíla af ákveðinni tegund og árgerð. Á áðurnefndri vefsíðu má skoða hvaða einkunn árgerðir og gerðir ákveðins bíls hafa fengið og undan hverju er helst kvartað.

Önnur mæling nefnist "Vehicle Dependability Study", skammstafað VDS. Sú mæling byggist á skráningu kvartana/bilana bíleigenda fyrstu 3 árin eftir kaup. Um er að ræða gæðamælingu til lengri tíma. Niðurstöður eru birtar einu sinni á ári, venjulega að sumri og þá fyrir 3ja ára gamla bíla. Síðasta mæling (þegar þetta er skrifað í mars 2006) var birt með fréttatilkynningu frá J.D. Power í 29. júní 2005 fyrir bíla af árgerð 2002. Við hana er stuðst í þessari grein og eru stólpagröfin fengin úr þeirri fréttatilkynningu.


"2005 Nameplate Ranking" var birt með fréttatilkynningu J.D.Power 29. júní 2005. Athygli vakti að gæði bíla (árgerð 2002) höfðu aukist að meðaltali um 12% miðað niðurstöður árið á undan (árgerð 2001). Varla hefur það komið mörgum á óvart að Lexus mældist með mest gæði allra bíla, 11. árið í röð og hafði enn aukið gæðin, samkvæmt mælingunni, um 14%. Athygli vekur að eigendur Lexus-bíla kvarta að meðaltali 138 sinnum á 3 árum. Á sama tíma kvarta jafn margir Kia-eigendur 397 sinnum.

Lengri tíma gæðamæling J.D. Power er tvískipt; annars vegar er mæling á gæðum einstakra bíltegunda (Nameplate VDS Ranking) en hins vegar mæling á gæðaímynd einstakra bílaframleiðenda með tilliti til tíðni kvartana/bilana (Corporate VDS Ranking). Inni í þeirri mælingu er jafnframt mat og gæðamæling á þjónustu, þ.e. varahluta- og viðgerðarþjónustu og á eigendaþjónustu, þ.e. hvernig viðkomandi bílaframleiðandi eða fulltrúi hans hefur komið fram við sölu, brugðist við kvörtunum o.s.frv.
Eins og að líkum lætur er reginmunur á þessum þremur könnunum/listum. Því miður kemur fyrir að þeim sé ruglað saman í fjölmiðlum, jafnvel við samanburð á milli ára og getur af því orðið misvísandi mynd af stöðu mála.

Samandregið - J.D. Power mælir annars vegar gæði nýrra bíla eftir 3ja mánaða notkun (IQS-mæling) en hins vegar gæði bíla eftir 3ja ára notkun (VDS-mæling). Að baki niðurstöðunum, sem birtar voru 2005, liggur skipuleg skráning 50.635 eigenda bíla af árgerð 2002.

Hástökkvarinn Hyundai
Athyglisvert er að gæði nánast allra bíltegunda hafa aukist frá árinu á undan sem sést á færri kvörtunum á hverja 100 bíla, - reyndar 32 kvörtunum færra að meðaltali á hver 100 eintök bíltegundar. Niðurstöður lengri tíma mælingar hafa ekki síst gildi fyrir þá sem kaupa notaða bíla. Miðað við fyrra ár (2004) sýnir lengri tíma mælingin að Porsche hefur aukist hlutfallslega mest að gæðum (38%) miðað við fyrra ár en Hyundai hefur tekist að fækka kvörtunum mest þótt gæðin mælist enn undir meðaltali. Athyglisvert er að Hyundai hefur verið að auka gæðin umtalsvert annað árið í röð. Þótt það eigi enn talsvert í land hafa fáir bílaframleiðendur náð jafn miklum árangri á jafn stuttum tíma og Hyundai.

Dýrir bílar í vandræðum ....
Þá er það einnig athyglisvert að Hyundai, sem selur þá fólksbíla sem einna ódýrastir eru á bandaríska markaðnum, skuli vera 2 sætum ofar á gæðalista J.D. Power en Volvo, sem er mun dýrari tegund, hvað þá 8 sætum ofar en Mercedes-Benz sem kostar margfalt meira; 13 sætum ofar en margfalt dýrari Aud og 15 sætum ofar en VolksWagen! Ef til vill endurspeglar þessi röðun á listum J.D.Power vel hve alvarlegt ástandið er orðið í bílaframleiðslu í V-Evrópu. Þá hafa sérfræðingar bent á, sem dæmi um hve hve nærri brúninni þekktur framleiðandi á borð við Volswagen sé kominn, að gæðamæling J.D. Power fyrir árgerð 2003, sem birt var 2005, skuli sýna VW 2 sætun neðar en Daewoo sem er ódýrasta bíltegundin á bandaríska markaðnum.

Bandarískir að rétta sinn hlut
Bandarísku General Motors og Ford ásamt Toyota Motors hafa færst upp um nokkur sæti á gæðalistanum. Athyglisvert er að niðurstöður fyrir árgerð 2002, sem birtust í fyrra, sýndu í fyrsta sinn gæði bandarískra bíla mælast meiri en evrópskra. Í niðurstöðum 2005 er fyrsti bíllinn skráður með færri en 100 kvartanir á 100 bíla, síðan þessar mælingar hófust en það er lúxusvagninn Lexus LS430. Einnig vekur athygli góð útkoma smærri pallbílsins Chevrolet S10 og þess stærri, Chevrolet Silverado, og Ford F-150 af árgerð 2002.

Forpokun íslenskra fjölmiðla
Sagt hefur verið frá niðurstöður J.D.Power 2005 sem frétt í öllum stærstu dagblöðum Bandaríkjanna eins og undanfarin ár. Sérstök umfjöllun hefur verið um niðurstöðurnar og stöðu einstakra framleiðenda í blöðum á borð við USA ToDay og t.d. um stöðu Mercedes-Benz, sérstaklega, í tímaritum á borð við Newsweek, Forbes og þýska Der Spiegel. Því kemur manni spanskt fyrir sjónir að enginn íslenskur fjölmiðill, en hér eru fjölmiðlar, ekki síst sjónvarp, þekktir fyrir að apa upp eftir bandarískum, skuli hafa fjallað um þetta mál - mál sem hlýtur að teljast mikilvæg upplýsingamiðlun til almennra neytenda, ekki síst þegar tekið er tillit til þess að nýr bíll er yfirleitt önnur stærsta fjárfesting venjulegrar íslenskrar fjölskyldu. Sá grunur hlýtur að læðist að manni að hagsmunir auglýsenda ráði í þessu efni - a.m.k. virðast hagsmunir neytenda ekki halda vöku fyrri neinum.

Öðru vísi mér áður brá
Árið 1990 var birt í fyrsta sinn niðurstaða 3ja ára gæðamælingar J.D. Power. Þá var Mercedes-Benz efst á listanum með fæstar skráðar kvartanir á hverja 100 bíla. Undanfarin ár hafa gæði Mercedes-Benz mælst 9-13 sætum undir meðaltali. Það á þó talsvert í land til að ná Volkswagen sem er í einu af neðstu sætunum ásamt Kia og Daewoo (en bílar framleiddir í fyrrum Daewoo-verksmiðjum í Suður-Kóreu eru seldir hérlendis og nefnast Chevrolet eftir að GM keypti þrotabúið).

1950 var Mercedes-Benz 300 (Adenauer-Benzinn) einn vandaðasti bíllinn á götunum. Þetta mælaborð þótti lengi táknrænt fyrir þýsk gæði. Um 1990 var þessi stóri S-Benz talinn vandaðastur allra fjöldaframleiddra fólksbíla. Þegar niðurstöður fyrstu gæðamælingar J.D. Power á 3ja ára bílum voru birtar 1990 var Mercedes-Benz efst á listanum með fæstar kvartanir allra bíla. Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar.


Það hlýtur að valda mörgum talsverðum heilabrotum hvernig það megi vera að heimsþekktur lúxusbílaframleiðandi á borð við Daimler-Benz, - með bíla sem kosta 8- 15 m.kr, án þess að nefndar séu dýrustu gerðirnar, skuli fara jafn illa út úr gæðamælingum J.D. Power og raun ber vitni. Vegna fornrar frægðar sker staða Mercedes-Benz á listanum vissulega í augu - með 283 kvartanir að meðaltali á hverja 100 selda bíla af árgerð 2002. Þó má benda á að þótt Mercedes-Benz hafi færst neðar á listanum 2005, eða í 13 sætið, hefur kvörtunum fækkað úr 318 fyrir árgerð 2000, samkvæmt niðurstöðunum 2003, í 283 fyrir árgerð 2002 eða um 35 kvartanir á hverja 100 bíla á 2 árum. Mercedes er því greinilega að klóra í bakkann. Þótt það veki ef til vill minni athygli, við fyrsta yfirlit, er niðurstaðan fyrir VW þó öllu alvarlegri. Athyglisverður munur er á Porsche og BMW annars vegar og Mercedes-Benz, VolksWagen og Audi hins vegar sem sýnir að ekki er þó allt á verri veg í þýskum bílaiðnaði.

Til baka á aðalsíðu

Netfang höfundar