Leó M. Jónsson vélatæknifræðingur:

Nýr Land Rover Discovery (Þriðja kynslóðin)

Innkeyrslan og lofthæðin í bílageymslunni undir hótelinu í Luxemborg er greinilega hönnuð fyrir tíma stóru jeppanna - stærð og aðkoma stæðanna hefur verið sniðin fyrir evrópska bíla eins og þeir voru upp úr stríðslokum. Engu að síður krækir þessi nýi 2600 kg LR3 Discovery fyrir hvert horn og smýgur lipurlega í eina auða stæðið í fyrstu röðinni. Öðru vísi mér áður brá - hér hefði maður líklega endað eins og tappi í trekt á eldri Land Rover Discovery - hefði aldrei náð að beygja inn í þetta stæði í einni atrennu. Mér varð hugsað til þrengslanna í stæðahúsi Kringlunnar heima.

Þótt nýi LR3 Discovery sé um 10 sm lengri en eldri gerðin og með rúmlega 30 sm meira hjólhaf, leggur hann miklu betur á; - kostur sem margir munu ekki átta sig á hve miklu máli skiptir þegar um þessa gerð lúxusbíla er að ræða. Líklega beygir LR3 betur en allir aðrir lúxusjeppar - þvermál hrings sem hann snýr innan í er 11,45 m - rúmlega 30 sm minna en t.d. nýjasta Lexus-jeppans, WV Touraeg og Volvo XC90. Þetta er mikill munur og hefði þurft að segja mér tvisvar hefði ég ekki reynt það sjálfur.

Daginn eftir - á hraðbrautinni til Parísar - áður en hámarkshraðinn er takmarkaður eftir frönsku landamærin, suðar 300 hestafla 4,4 lítra V8-Jaguarvélin með 6 gíra sjálfskiptingunni á 185 km hraða á vegi sem er gerður fyrir hraðakstur (það heyrist meira í loftkælikerfinu en vélinni - upplýsingaskjárinn segir að eyðslan sé 28 lítrar á þessum hraða - og samt er nóg afl til viðbótar). Einhvern veginn finnst mér "jeppi" alveg fáránleg flokkun á þessum bíl sem er jafnvel þægilegri vinstra megin á þýskum átóban en stærri Benzarnir - ég veit um nokkra sem fengju talsvert "kikk" út úr því að blikka háa geislanum á venjulega Benza.......

Nýr bíll frá grunni - á grind
Fyrsta kynslóðin af Discovery kom sem árgerð 1989 og 2. kynslóðin 1998. LR3 Discovery er 3. kynslóð þessa "SUV" sem er meiri lúxusbíll og jafnframt meiri jeppi en margir aðrir svokallaðir "sportjeppar". Önnur kynslóð Discovery var endurbætt útgáfa af þeirri fyrstu. LR3 er hins vegar nýr bíll frá grunni með nýjan undirvagn, nýjan vélbúnað, gjörbreytt útlit og nýja innréttingu.

LR3 er byggður á grind. Grindin er áföst og felld að botni bílsins. Land Rover nefnir þessa hönnun "Integrated Body Frame". Það sem einkum vinnst með þessari hönnun er aukið innanrými á hæðina, lægri þyngdarmiðja og lægra innstig í bílinn án þess að veghæð sé skert - á meðal sýnilegra kosta þessarar hönnunar sést m.a. á því að LR3 er einn örfárra lúxusjeppa sem hefur þriðju sætaröð með fótarými og höfuðhæð fyrir fullvaxið fólk. Í útfærslu Land Rover á þessi hönnun jafnframt að sameina helstu kosti grindarbíls og einstykkishönnunar (monocoque) sem eru burðarþol og snerilstyrkur þó með hæfilegum sveigjanleika. Snerilstyrkur er lykilatriði varðandi aksturseiginleika og öryggi bíls. Innfeld grind er ekki ný af nálinni. Á meðal þekktra bíla sem voru byggðir á þenna hátt má nefna Citroën CX.

"Jeppa-undirvagn"
Er eðlilegt að ætlast til að lúxusbíll á borð við LR3, jafnvel þótt hann beri með sér að vera fjórhjóladrifinn, sé fullgildur jeppi þegar komið er út fyrir malbikið? Þar til þessi Land Rover birtist hefði svarið vafist fyrir einhverjum. Svo við höldum okkur við Ameríkutýpuna með 4,4 lítra V8-álvélinni þá er aflið yfirdrifið og stenst samanburð við öflugustu amerísku lúxusjeppana. Mig grunar að núna eftir breytinguna á dísilsköttunum og klaufaskap Kerfisins við ákvörðun olíugjalds - sem ekki mun hvetja frekar til kaupa á dísilbílum muni margir renna hýru auga til þessa bíls með V8-bensínvélinni. En þeim bendi ég á að skoða meðfylgjandi töflur, ekki síst ætli þeir að nota bílinn jafnframt til dráttar, t.d. hestaflutningavagns - því fyrir þá segir vélaraflið í hestöflum minna um getu bílsins en hámarkstog vélarinnar í Nm.

LR3 Dicovery er fyrsti stóri Land Roverinn með sjálfstæð fjöðrun á hverju hjóli; gormafjöðrun í grunngerðunum en 7manna bíllinn er með loftfjöðrun sem staðalbúnað (sams konar og er í Range Rover), en með henni má stilla veghæð bílsins eftir þörfum með hnappi í miðjustokknum. Hjólastellið er traustvekjandi með efri og neðri klafa við hvert hjól, hönnun sem gerir bíl stöðugan í akstri og fastan í rásinni. Athygli vekur hve fjöðrunarsviðið er ríflegt þrátt fyrir klafana; 250 mm að framan og 330 mm að aftan. Mismunardrifslæsing í afturhásingu er fáanleg sem aukabúnaður en sjálfvirk læsing á milli hásinga er staðalbúnaður.

Bremsukerfið, með diska á öllum fjórum og ABS + miðlun, stöðvar þennan völduga bíl á 36 metrum sé bremsum nauðbeitt á 100 km hraða.

Helsta og merkilegasta nýungin í þessum bíl er að mínu mati tölvustýrt veggripskerfi sem Land Rover nefnir "Terrain Response". Ökumaðurinn velur á milli þeirra eiginleika sem hann telur að henti aðstæðum: I: Venjulegur akstur, II: Erfiðari færð, III: Torfærur (4 undirflokkar: hálka, drulla, sandur, grjót). Kerfið sér um að stilla veghæð, millidrif og gír eftir því hver kostanna er valinn.

Eldri hugtök á borð við sítengd aldrif, hlutadrif, grip við gjöf o.s.frv. eiga ekki lengur við - stýrikerfi velur það drif- og átakslag sem hentar. Millidrifið er með 1,1 hlutfall í háa en 2,93 í lága. Athygli vekur að í torfærustillingunni stjórnar kerfið vélbúnaðinum að öllu leyti t.d. með skriðgír og eins þegar fara þarf niður mikinn bratta en þá beitir kerfið bremsum og átaki vélar/skiptingar með tillits til veggrips og jafnvægis - ökumaður þarf hvorki að stíga á bremsu né gjöf. Prófanir hafa sýnt að torfærugeta bílsins með þessu kerfi er jafn mikil eða betri en þjálfaður ökumaður næði, að öðru jöfnu, með hefðbundnum drifbúnaði.

Kosturinn við þetta nýja drifstýrikerfi er að ökumaðurinn þarf hvorki að kunna á né stjórna vali á drifi, læsingum o.þ.h. - þetta kerfi er meira að segja svo fullkomið að gleymi ökumaður að velja "Venjulegan akstur" eftir að aftur er komið upp á veg gerir kerfið það fyrir hann = þetta er "notendavænt" kerfi.

Glæsilegur
LR3 (Discovery 3) er nokkru stærri en sá eldri og með önnur hlutföll, breiddin er örlítið minni, lengdin er 10 sm meiri og hjólhafið 34,5 sm meira. Hann fæst með sætum fyrir 7. Öftustu sætin eru gerð fyrir fullorðna og nú snúa þau rétt (fram) en ekki þversum eins og í eldri bílnum. Sá nýi er merkjanlega rúmbetri, m.a. er rýmið á hæðina meira. Þakið er með sams konar upphækkun og á Discovery 2 en aftar og eru gluggar yfir tveimur sætaröðum (fáanlegur með glugga yfir þeirri þriðju) - sá fremsti er opnanleg lúga. Áhrif þakglugganna eru áberandi; manni finnst mun meira rými vera inni í bílnum. Í útliti er LR3 áberandi kantaður og dregur, að því leyti, dám af nýjasta Range Rover þótt varla sé um frekari samanburð á bílunum að ræða. Þá er LR3, að mínu mati, nýtískulegri útlits en flestir aðrar lúxusjeppar.

Varahjólið er geymt undir bílnum en ekki aftan á honum eins og á eldri kynslóðum jeppa. Fyrir bragðið er afturhlerinn af nýrri hönnun sem mun koma sér vel; neðri hlutinn er hleri sem leggst niður í lárétta stöðu og má nýta sem sæti eða borð en efri hlutinn er á hliðarlöm.

Innrétting
Innréttingin er bæði vönduð og glæsileg og greinilegt að LR3 nýtur þar skyldleikans við Range Rover og Jaguar. Talsverðu hugviti hefur verið beitt til að nýta rými sem best, m.a. með alls konar hirslum, hillum og höldurum. Upphitun, kæling og loftræsting hefur verið endurbætt verulega - er bæði afkastameira og hljóðlátara en í eldri Discovery.

Hjá aftari sætaröðunum er stilling fyrir hita/kælingu, lesljós, straumtenglar fyrir tölvur/farsíma, tenglar fyrir heyrnartól ásamt drykkjarhöldurum.

Niðurfelld mynda aftursætin sléttan gólfflöt sem gerir bílinn hentugri til flutninga. Þótt það sé ef til vill aukaatriði - en hefur þó sitt að segja þegar setið er lengri tíma í bíl í kílómetralangri bílalest sem þokast fetið - fyrirbæri sem við erum farin að venjast hér heima, er að staðsetning takkanna fyrir rúðuvindurnar er undarlega framarlega á hurðaspjaldinu - engu líkara en að gert sé ráð fyrir að maður sé með skósíðar hendur ......

Flutningsrýmið er mikið: 2464 lítrar með sætin felld (til samanburðar 2010 lítrar í VW Toureg og 2209 lítrar í Lexus GX 470). Sé aftasta sætaröðin (3.) felld er þar 1190 lítra flutningsrými sem hverfur séu sætin reist.

Vélar
Á Evrópska markaðnum er LR3 jafnframt boðinn með nýrri V6-túrbódísilvél frá Indénor (fyrir þá sem ekki vita eru Indénor-dísilvélar á meðal mest seldu dísilvéla í heiminum en það er vörumerki í eigu PSA (Peugeot).

4,4 lítra (Jaguar) bensínvélin í LR3 er 32ja ventla álvél, 295 -300 hö við 5500 sm og með hámarkstog 429 Nm við 4000 snm. Þessi vél (4394 rsm), sem er með ofanáliggjandi kambásum með breytilegum tíma, virðist sérstaklega ætluð fyrir bandaríska markaðinn. Viðbragð bílsins með henni er um 8 sek 0-100, hámarkshraði 195 km/klst (uppgefinn). Uppgefin eyðsla bílsins með V8-vélinni er 13 lítrar á þjóðvegi og 16,8 lítrar í þéttbýli. Þessi Jaguar-vél er í grundvallaratriðum sú sama og 4,2ja lítra vélin sem Ford notar í Jaguar, Lincoln LS og Thunderbird. Munurinn er meira slagrými og öflugri kæli- og smurkerfi.

V6-dísilvélin frá PSA er með 2720 rsm slagrými. Þjöppun er 18:1. Hámarksaflið er 190 hö við 4000 sm og hámarkstog 440 Nm við 1900 sm. Blokkin er úr steypustáli blönduðu grafíttrefjum til styrktar og höfuðlegubakkar eru í einum styrktarramma. Heddin eru úr áli og kambásar ofanáliggjandi. Viðbragð er 11,7 sek 0-100 km/klst. Hámarkshraði 180 km/klst. Eyðsla 11,5 l/100 km í borgarakstri en 9,4 lítrar í blönduðum akstri. Þessi túrbódísilvél er með tölvustýrðri innsprautun frá forðagrein (common rail) og álagstýrðu pústþjöppukerfi, m.a. með breytilegum þjöppuspíssum (stýranlegir armar beina pústinu inn á skófluhjól hverfilsins eftir snúningshraða vélar þannig að þjappan heldur viðunandi þrýstingi á víðara sviði). Innsprautun er beint í brunahólf (í stað forbrunahólfs eins og í eldri dísilvélum). Frekari skýringar á þessari tækni er að finna á http://www.leoemm.com/disilvelin.htm

LR3 með V6-túrbódísilvélinni verður aðalbíllinn hérlendis og gera má ráð fyrir að flestir bílarnir verði með 6 gíra sjálfskiptingu þótt staðalútfærsla framleiðandans geri ráð fyrir 6 gíra beinskiptum kassa með þessari vél. Varðandi sjálfskiptinguna er ástæða til að benda á eftirfarandi: Þrátt fyrir alla tæknina hefur eðli dísilvélarinnar ekki breyst; þegar afkastatölur dísilvélarinnar eru skoðaðar skyldi hafa í huga að þær gefa til kynna afl og tog sem hámark, annars vegar við 4000 sm en hins vegar við 1800 sm. Eigi að nota dísilbílinn jafnframt til dráttar mæli ég með beinskipta 6 gíra kassanum fremur en sjálfskiptingunni.

LR3 Discovery með dísilvélinni vegur um 2,5 tonn óhlaðinn og er með loftviðnámsstuðul í hærri kantinum (Cd = 0,41). Þegar haft er í huga að slagrými dísilvélarinnar er 2720 rsm spái ég því að mörgum muni finnast að snerpa dísilbílsins með sjálfskiptingu (11,2) mætti vera meiri, ekki síst við framúrakstur. Á evrópska markaðnum gilda gamlar skattareglur sem gera það að verkum að þyngri bílar eru oftar en ekki með of litlar dísilvélar (of lítið slagrými) - í þessu tilviki hefði Discovery ekki veitt af 4ra lítra dísilvél. Hins vegar má benda á að margir keppinauta, aðrir en amerískir, eru sama marki brenndir.

Önnur atriði
Discovery 3 snýr innan kanta hrings með 11,45 m þvermáli eins og áður var sagt. Eins og lag bílsins ber með sér eru að- og fráhorn hagkvæmari en hjá eldri bílnum, einkum er yfirhaf minna að aftan sem er ótvíræður kostur. Dráttargetan er óbreytt, 750/3500 kg (6730 kg leyfilegur samanlagður þungi bíls og vagns). Vaðdýpi er 0,6-0,7 m eftir gerðum. Felgurnar eru 18".

Öryggisbúnaður þessa bíls er ekki skorinn við nögl. Auk venjulegra öryggisloftpúða eru púðar í hliðum, belti með skotstrekkingu, árekstrarvörn innbyggð í framstykki og innan í hurðum auk þess sem bíllinn er búinn tölvustýrðum öryggiskerfum svo sem 4ra rása ABS, EBA-hemlunarjöfnun, ARM-hliðarsvifluvörn, DSC-stöðugleikagát og rafknúnum stöðuhemli.

Nú eru hljómflutningstæki næstum undantekningarlaust hluti af pakkanum þegar um nýjan bíl er að ræða. Í þessum LR3 Discovery V8 er 300 vatta kerfi með 9 hátölurum frá Harman Kardon. Tækið í mælaborðinu getur geymt 6 diska (MP3). Mér fróðari menn segja að þetta kerfi sé varla boðlegt svo þróttmiklum bíl - a.m.k. sé það langt frá því að uppfylla kröfur þeirra sem vilja "meiriháttar sánd" - dótið nægði þó vel til að æra mig.

Á vefsíðu félagsskaps Land Rover-eigenda eru ýmsar upplýsingar varðandi breytingamöguleika og fleira.
www.islandrover.is

Aftur á aðalsíðu