Leitarvél: Hægt er að leita uppi valið efnisorð í textanum. Stutt er samtímis á Ctrl og F og orðið skrifað í gluggann.
Copyright ©: Leó M. Jónsson. Öll réttindi áskilin.

Brotajárn nr. 33
(Ath. Af gefnu tilefni er vakin athygli á að textinn sem hér birtist er svarið sem viðkomandi fær við spurningu með tölvupósti. Það sem birtist í Bílablaði Morgunblaðsins getur verið stytt vegna þess að rýmið í blaðinu er takmarkað við ákveðinn stafafjölda. Myndatextar í Mbl. er samdir af starfsmönnum þess).
Varðandi fyrirsagnir, sem einhverjum kunna að finnast undarlegar án punkta, þá er það með ráðum gert til að rugla síður leitarvélina.

laverkstæðið Kistufell selur samsettar blokkir (kjallara) fyrir Nissan 2.5 Tdi. Þeir eiga reyndar einnig á lager samsetta kjallara fyrir Nissan Patrol ZD30 auk þess að auka stöðugt úrval alls konar slithluta í stýris- og undirvagn fólksbíla og jeppa.


Áður en þú kaupir nýja vélar- eða sjálfskiptingartölvu fyrir hundruð þúsunda króna: Oft má gera við bíltölvur (ECU/OBD/TCU/TOD) fyrir brot af því sem ný kostar. Varahlutalagerinn í Kópavogi sendir tölvurnar til Bretlands til viðgerðar. Kynntu þér málið í síma 699 3737 - það gæti sparað þér veruleg útgjöld.


Varahlutir í Ford Explorer?
Hefur einhver rifið svona bíl á undanförnum árum af árgerð 2000 - 2005? Mig vantar ýmsa hluti.
S. 664 4552 (Loftur).

189
ABS-ljós - einföld ástæða
Spurt: Aldrei þessu vant þá sprakk á bílnum mínum. Eftir talsvert bras tókst mér að finna tjakkinn, eftir mikið erfiði tókst mér að losa varahjólið. Þá kom í ljós að felguboltarnir voru svo fast hertir að hjólið varð ekki losað með lélegum felgulyklinum sem fylgir bílnum. Sendibílstjóri sem kom til aðstoðar náði að losa þá með stórum krosslykli. Loksins þegar ég komst af stað aftur kviknar ekki bölv. ABS-ljósið þegar hraðinn er 90-100 km -en það hefur aldrei kviknað áður á ferð. Getur verið að ég hafi skemmt hjólnemann eða einhverjar leiðslur?

Svar: Nei - þér er óhætt að slaka á. ABS-ljósið kviknar vegna þess að þvermál varahjólsins er ekki það sama og hinna hjólanna. Þegar þú hefur látið gera við dekkið og sett það aftur undir mun ABS-ljósið hætta að lýsa af sjálfu sér. En þetta er þörf ábending til bíleigenda fyrir sumarið: Kaupið felgulykil með skafti sem draga má út til að ná meira átaki. Þeir fást á mörgum bensínstöðvum. Sé varahjólið í grind undir bílnum borgar sig að losa það og smyrja lamir og festibolta. Og hvort sem varahjólið er undir bílnum eða í skottinu, borgar sig að ganga úr skugga um að í því sé nægur þrýstingur (sjá handbók bílsins).

Volvo V70 XC ,,Sibilius" truflun í lausagangi
Spurt: Ég bý úti á landi og á Volvo V70 XC (Cross Country) árg. 2001 (2.4 lítra, sjálfskiptan , 5 síl. túrbó). Á mínu svæði er ekki hægt að fá bilanagreiningu með tölvu. Um 2ja ára skeið hefur "CHECK ENGINE" ljós í mælaborðinu lýst stöðugt þrátt fyrir ýmsar tilraunir, svo sem endurnýjun súrefnisskynjara í útblásturskerfinu sem engu breytti. Svo neitaði vélin að fara í gang. Var þá ekki um annað að ræða en að flytja bílinn til Reykjavíkur og á verkstæði umboðsins og bað ég um að hann yrði yfirfarinn. Endurnýjuð voru kerti, hjólalegur, bremsuborðar/klossar, bremsuslöngur og ýmislegt fleira. Þegar ég tók við bílnum (eftir að hafa greitt himinháan reikning) var bilunarljósið hætt að lýsa. Allt var með felldu í viku. En þá kviknar ljósið á ný og vélin fer að drepa á sér í lausagangi og/eða ganga mjög óreglulegan lausagang. Á bílaverkstæði heima fyrir kom í ljós að gat var á miðju útblásturskerfinu og var gert við það með nýju röri. Við það slokknaði bilunarljósið og allt virtist eðlilegt á ný. Nokkrum dögum seinna fer vélin aftur að drepa á sér og ganga óreglulega í lausagangi en það lagaðist fyrst um sinn eftir að bíllinn var kominn á ferð. En svo tók vélin upp á því að verða stundum afllaus og í mælaborðinu birtust skilaboð ,,Power reduced." Með því að drepa á vélinni, bíða smá stund og gangsetja á ný gekk hún aftur eðlilega. Ég fór aftur á verkstæðið. Þeir endurnýjuðu allar síur en við það slokknaði bilunarljósið um stund en fljótt sótti í sama horf, þ.e. vélin gengur með rokum í lausagangi; missir afl og drepur á sér þegar inngjöf er sleppt. Hefur þú nokkra hugmynd um hvað gæti verið að? Mér lýst ekki á að fara sérferð til Reykjavíkur með bílinn í þessu ástandi til að komast í tölvu og greiða morðfjár fyrir þjónustu sem svo jafnvel reynist gagnslaus.

Svar: Án tölvubúnaðar getur verið mjög erfitt að greina þessa bilun sem þú lýsir - Í Volvo (frá og með 2001) getur þetta verið allur andskotinn. Hvort sem þú trúir því nú eða ekki lenti einn af lesendum Vefsíðu Leós í svipuðum leiðindum með sams konar bíl. Umboðið klóraði sér á útseldum taxta í næstum viku án árangurs. Fyrir tilviljun kom í ljós að leki með bensínlokinu olli draugaganginum og bilunarljósinu. Nýtt bensínlok, sem kostaði um 2000 kr, leysti málið). Því ekki að prófa?
Hins vegar þarf ekki að fara með bílinn til Reykjavíkur til að lesa bilanakóðana - það getur bíleigandi gert sjálfur hafi hann réttar upplýsingar (sem umboðið er ekkert að hafa hátt um). Þær munu birtast á vefsíðunni minni innan skamms undir TÆKNIMÁL . Mér hefur ekki unnist tími enn til að ljúka við grein um málið en hana sýð ég upp úr námskeiðsgögnum, sem ég notaði á tæknifundi með bílvirkjum árið 2002 þar sem þetta nýja kerfi var tekið fyrir. Greinin kemst væntanlega upp fyrir n.k. föstudag, -verst hvað vinnan getur tafið mann svakalega!).
Það sem þú skalt gera í stöðunni er að fara mjög nákvæmlega yfir allar soglagnir frá soggrein, leita að sprungum í slöngum, lausum trosnuðum stútum, lausum klemmum o.s.frv. Því næst skaltu kaupa glas af aceton í apóteki, losa barkana frá inngjafarkverkinni og hreinsa hana og spjaldið með stinnum listmálarapensli. Sjáðu hvaða áhrif þetta hefur. Breytist ekkert skaltu hafa samband aftur - þá get ég leiðbeint þér við að kóðalesa kerfið - eða bent þér á greinina.

188
Nokkrar staðreyndir um fjórhjóladrif

Sá misskilningur er algengur að fjórhjóladrifnir jepplingar séu duglegri í ófærð en framhjóladrifnir fólksbílar þegar eini munurinn er sá að oft er hærra upp undir jepplinga. Einungis í þeim tilvikum sem læsa má millidrifi fram- og afturhjóla, en það heyrir til undantekninga, er gagn af fjórhjóladrifi jepplings, t.d. í snjó. Þessu til staðfestingar má geta þess að stór hluti jepplinga (SUV), sem seldir eru í Bandaríkjunum, eru einungis með drif á framhjólum. Reyndar er einnig nokkuð algengt í Bandaríkjunum að bílar, sem líta út eins og jeppar, t.d. Cherokee, Explorer, Trailblazer o.fl. séu einungis með drif á afturhjólum og ekkert lágt drif. (Mismunur á jeppa og jepplingi er að jeppi er með öðru vísi fjórhjóladrifsbúnað og auk þess með tvískipt (hátt og lágt) drif en jepplingur einungis með eitt (hátt) eins og fólksbíll.

Jepplingur er oftast byggður á sama hjólbotni og fjórhjóladrifinn fólksbíll. Hærri yfirbygging er stílfærsla (þykir sportlegri) auk þess sem innanrými er meira og hentar betur fjölskyldum (SUV = Sport Utility Vehicle = sportlegur og fjölhæfur bíll). Með ímyndarsköpun og klókindum í sölumennsku hefur fólki verið talin trú um að fjórhjóladrifinn jepplingur sé að einhverju leyti sambærilegur við fjórhjóladrifinn jeppa (með háu og lágu drifi), - þ.e. að fjórhjóladrifið geri jeppling dugmeiri í snjó og annarri ófærð. Einkum á þetta við um svokallað sjálfvirkt (sítengt) fjórhjóladrif (AWD). Beitt er blekkingum, t.d. mismunandi heitum á sama búnaðinum, til að selja fólki bíla með þessum dýra búnaði sem nýtist því ekki nema að hluta; skapar jafnvel falska öryggiskennd í vondri færð og eykur viðhaldskostnað jepplinga verulega. Með fáum undantekningum er meðaleyðsla sjálfskipts fjórhjóladrifins jepplings í borgarakstri tvöföld miðað við framhjóladrifinn fólksbíl af svipaðri stærð.

Þessar fullyrðingar byggja, m.a. á eftirfarandi rökum: Í fyrsta lagi var tilgangurinn með sjálfvirka fjórhjóladrifinu, sem þróað var fyrir 1960, að auka stöðugleika og öryggi bíla, ekki síst samhliða sjálfvirkri læsingarvörn á bremsum (ABS), en ekki að búa fólksbíla jeppaeiginleikum! Í öðru lagi, eftir að þessi sjálfvirku fjórhjóladrif urðu tölvustýrð, eru þau ekki virk nema örstutta stund í senn og án vitundar bílstjóra. Til að sem minnst verði vart við inngrip tölvunnar er millidrifið látið snúa bæði fram- og afturdrifskafti sem tölva tengir afturdrifinu eftir boðum frá stöðugleikakerfinu. Þetta fyrirkomulag eykur eyðslu, einkum og sér í lagi sé bíllinn sjálfskiptur. Með fáum undantekningum veit bílstjóri jepplings aldrei hvenær hann ekur í fjórhjóladrifi eða einungis í framdrifi og því er villandi að tala um ,,sítengt aldrif" í þessu sambandi.

Og vegna þess að í fæstum tilvikum er unnt að læsa sjálfvirku fjórhjóladrifi milli fram- og afturhjóla kemur það ekki að neinum notum, t.d. festist jepplingur í snjó: Sjálfvirka fjórhjóladrifið eykur stöðugleika og öryggi í akstri en ekki torfærugetu. Með stöðugleikakerfi (ESP/ESC =Electronic Stabilizing Program/ Electronic Stabilizing Control), sem nú eru í flestum nýrri bílum, eru bílveltur vegna mistaka vakandi bílstjóra nánast úr sögunni. Það breytir ekki þeirri staðreynd að fjöldi fólksbíla, með drifi á framhjólum og án stöðugleikakerfis, lenda aldrei í óhöppum en kosta nýir 2-3 milljónum minna en eyðslufrekari jepplingar með AWD-, ESP- eða ESC-kerfi sem margir teldu sig geta verið án - hefðu þeir meiri upplýsingar um hvers eðlis þau eru, vissu hvaða kostnaður fylgir viðhaldi þeirra og fyrir hvers konar aðstæður þau eru þróuð. Þótt þau byggi á breytiboðum frá ABS-nemum eru þau byggð upp af hópi nákvæmra rafeindatækja svo sem flóttaaflsnema, gíró-stefnunema, stýrisvísunarnema, hraðanema auk þess að byggja á breytum frá vélartölvu bílsins. Þessi kerfi eru ekki einungis flókin heldur einnig fokdýr.

Spólvörn eða rásfestir?
Í jeppum eru mismunardrifslæsingar notaðar til að hjól á sömu hásingu snúist með sama átaki og komi þannig í veg fyrir að jeppi festist í ófærð. Það sem kallast spólvörn í jepplingum og fólksbílum getur verið mismunandi að gerð. Algengasta gerð spólvarnar, sem notuð er í bílum með aldrif eða tvíhjóladrif, hefur ekkert með sjálfvirka fjórhjóladrifið að gera, sem slíkt, heldur er stöðugleikakerfi sem byggir á breytiboðum frá ABS-hjólnemum. Sú spólvörn virkar ekki fyrr en bíll hefur runnið til eða hjól spólað á ferð. Spólvörn, sem ekki byggist á mismunardrifslæsingu, er því villandi heiti. Ef til vill væri ,,rásfestir" réttara?

187
Hin nýja búrtík - bensínbyttan
Í rúm 30 ár hef ég reynt að andmæla fordómum gagnvart Diesel-bílum og klifað á því hve mikið þjóðarbúið gæti sparað í peningum og minnkað loftmengun í þéttbyli, væri fólki gefinn kostur á að reka Diesel-fólksbíla í stað bensínbíla. En lengst af fyrir lokuðum leðurhlustum ráðamanna. Loks með breytingu á bifreiðagjöldum og olíugjaldi, 2005, urðu Diesel-bílar raunhæfur kostur eins og í nágrannalöndum. En enginn sá fyrir þá gríðarlegu verðhækkun á eldsneyti sem orðin er og því sitja margir uppi með bensínbyttur sem ætla þá lifandi að drepa. Eðlilegt er að eldsneytiseyðsla bíls aukist með aldri og notkun, en þó mismunandi mikið eftir meðferð, viðhaldi og umhirðu. Eyðslutölur sem hér eru nefndar eiga við þegar bíl hefur verið ekið 100 þús. km eða meira.
Sumir bíleigendur, sem farið hafa með Norrænu og tekið bílinn með, segja mér að eyðslan mælist minni, t.d. þegar ekið er í Danmörku og Svíþjóð en hérlendis! (Telja fleiri sig hafa þá reynslu hvet ég þá til að láta mig vita á leoemm(hjá) simnet.is

Á meðal bíla, nýrra sem notaðra, sem yfirleitt eyða meiru en fólk átti von á við kaup eru sjálfskiptir fjórhjóladrifnir jepplingar með V6-bensínvél (jepplingur, til aðgreiningar frá jeppa, er ekki með lágt drif). Sem dæmi um eyðslufreka jepplinga (17-19 lítrar í borgarsnatti er ekki óalgengt en sem betur fer eru undantekningar, bílar í góðu lagi sem eyða minna) eru Toyota RAV4 fram að árgerð 2005, Ford Excape V6, Hyundai SantaFe og Tucson með V6-vél og fleiri jepplingar með bensínvél, jafnvel sumir með 4ra sílindra bensínvél svo sem notaðir MMC Outlander og Subaru Forester - Honda CR-V er þó undantekning - alltaf verið neð sparneytnustu jepplingum. Handskiptir jepplingar með 4ra sílindra Diesel-vél eyða flestir 7-8 lítrum og sjálfskiptir innan við 9 (það fer þó eftir gerð sjálfskiptinga og aldrifsbúnaði).

Vinsælir fjölskyldubílar á borð við Chrysler Voyager/Caravan/Town & Country eyða 13-14 lítrum sjálfskiptir með 4ra sílindra bensínvél. En sé sami bíll með V6-bensínvél og fjórhjóladrifi er eyðslan kominn í 17-19 lítra. Svipaðir en ódýrari fjölskyldubílar með Diesel-vél (handskiptir) t.d. Hyundai Trajet (2ja lítra) og nokkru minni en kraftmeiri Kia Carnival (2,9 lítra) eyða 8 og 10 lítrum af dísilolíu!

Sem dæmi um mismun á sparneytni Diesel-vélar og bensínvélar má nefna að hjá 90 ha 1323 kg VW Golf 1998 með 1,9 lítra Turbo-Diesel er meðaleyðsla í blönduðum akstri 6,4 lítrar. Sami bíll, 1190 kg með 54 ha 1,4 lítra 16 ventla bensínvél, eyðir 8,8 lítrum, eða 37,5% meiru; 132% meiru á hvert hestafl og 52,7% meiru fyrir hvert kg. eigin þyngdar.

Eyðsla bíla hefur minnkað hlutfallslega með aukinni tækni. Þannig eyðir nýr BMW 523i með 2,5 lítra bensínvél 9,5 lítrum í blönduðum akstri en sami bíll af árgerð 1998 eyddi 10,5 lítrum. Nýr BMW 525d (Diesel) eyðir innan við 8 lítrum í blönduðum akstri. Því miður hefur aukin tækni, öfugt við það sem hefði mátt ætla, aukið viðhaldskostnað bíla verulega, sérstaklega eftir 2005 (auknar mengunarvarnir).

Má minnka eyðslu bensínbyttnanna?
Oft veldur sjálfskipting umtalsverðri eyðsluaukningu vegna lélegs glussa. Endurnýjun sjálfskiptingarvökvans á 60 þús. km. fresti borgar sig með minni eyðslu og betri endingu.
Fjöðrun bíla og bygging dekkja hafa breyst. Mest sparneytni næst þegar þrýstingur í dekkjum er 36 psi (2,0 kp/sm2) og munstursdýpt 3 mm eða meiri.
Ný gerð tæknilegra (syntetískra) vélarolía getur aukið sparneytni mælanlega. Sem dæmi um slíkar má nefna Valvoline 5w-30 (Poulsen) og Mobile One 5w-30 (N1). Veldu þá sem er ódýrari.

Hvað með Metan? Í þættinum Reykjavík síðdegis á Byrlgjunni 13. maí 2010 var viðtal við Grétar Siguðsson hjá nýju fyrirtæki , ,,Einn grænn" (sem ekki er enn komið á skrá hjá 118). Af máli Grétars mátti ráða að búnaður og ísetning til að breyta bensínbíl þannig að hann gæti brennt metan (106 kr. lítrinn í samanburði við 2012 kr. bensín) kostaði nú minna hjá Einum grænum en þeim sem fyrir voru á markaðnum. Frekari upplýsingar um Einn grænn má fá á vefsíðunni www.G1.is og um kostnað (reiknivél). Persónulegt álit mitt á möguleikum metans hefur ekkert breyst. Ég breytti sjálfur bíl fyrir metan árið 1977, það er einfalt verk og hefur lítið breyst tæknilega. Á meðan olíufélag er einn hluthafa í vinnslu- og dreifingarfyrirtækinu Metan ehf. og á meðan áfyllingarstöðvar eru einungis 2 á öllu landinu (í Reykjavík) og á meðan verð á ígildi bensínlítra er 106 kr. af metan (sem er úrgangur sem kostar að losna við og því verðlagningin út í hött) þýddi ekki að reyna að selja mér metanbreytingu - hún leysir ekki nema lítinn hluta vandamálsins en fyrir of mikið fé (ath. þetta er mín persónulega skoðun).

(Allar upplýsingar um eyðslu eru fengnar úr gagnabanka Auto Motor & Sport).

186
Ég kysi Daewoo Leganza
Spurt: Ég átti VW Passat sem bilaði oft. Ég er að velta fyrir mér Daewoo Leganza Executive árg. 2000, með 2ja lítra 134 ha vél, ekinn 140 þús km. Vondri reynslunni ríkari af Passat spyr ég hvort manni sé óhætt að kaupa svona Daewoo-bíl standist hann söluskoðun?

Svar: Þótt Daewoo hafi verið ódýrir bílar á sínum tíma hafa þeir reynst betur en sumir bílar af dýrari tegundum. Verð á notuðum Leganza er hagstæðara en t.d. á jafn gömlum og jafn mikið eknum VW. Bilanatíðni sambærilegs VW Passat er hærri og viðgerðarkostnaður meiri. Daewoo Leganza er skrautlegri og nokkuð betur búinn en Daewoo Nubira en að öðru leyti frekar einfaldur bíll að byggingu og flokkast ekki sem lúxusbíll á mína mælistiku, þrátt fyrir viðhafnartitilinn ,,Executive." Hljóðeinangrun mætti t.d. vera betri. Með mjúkum 70-prófíl dekkjum má lágmarka veghljóð. Aksturseiginleikar standast kröfur leigubílstjóra en varla mikið meira (þar hefur Nubira vinninginn auk þess sem 1600-vélin í Nubira hefur reynst betur). Umboðið hefur staðið sig ágætlega með varahluti og verð. Margt í vélbúnaði passar á milli Nubira og Leganza og á milli Daewoo og Opel).

Fellihýsi - ljósavandamál
Spurt: Ég er með Futura fellihýsi árg. 2005 og er í þeim vandræðum að þegar ég drep á bílvélinni og slekk ökuljósin þá loga ljósin á bílnum og á fellihýsinu ennþá þangað til ég tek tengilinn úr sambandi. Hvað getur verið að?

Svar: Það fyrsta sem kemur í hugann er röng tenging tengilsins á dráttarbeislinu. (rétt tenging er sýnd á www.leoemm.com/vagnar.htm og www.leoemm.com/kerrutengill.htm og á vefsíðu Würth. Í sumum amerískum bílum er sjálfvirk töf á inniljósum og hægt að stýra henni með styrkstilli mælaborðsljósanna (hjólrofi). En sé hjólrofinn settur í efstu stöðu lýsa inniljósin stanslaust. Athugaðu stöðu þessa rofa - en byrjaðu á kerrutenglinum. Öll bílaverkstæði geta lagfært tenginguna og millistykki, sé þetta amerískur bíll, fást hjá IB á Selfossi.

ABS-skynjarar af ,,nýrri" gerð?
Spurt: ABS-kerfið í Dodge Caravan 2005 virkar ekki (gaumljósið lýsir stöðugt). Á verkstæði er mér sagt að líklega sé um bilun að ræða í einum eða fleiri ABS-hjólnemum. Verkstæðið hefur ekki tæki til að mæla þessa ABS-nemana því þeir eru af nýrri gerð, s.k. ,,Active ABS-sensors" í stað algengari ,,Passive ABS-sensors." Sé þetta rétt hjá þeim hvað gerir maður í málinu og hver er munurinn á þessum ólíku gerðum ABS-skynjara?

Svar: Þetta er ekki alveg rétt hjá þeim. Rafvirkir ABS-nemar, til aðgreiningar frá segulvirkum, sem eru algengari enn sem komið er, komu fyrst í bílum frá DaimlerChrysler 1999 en eru nú í mörgum nýjum bílum, meira að segja komnir í nýjasta Toyota-150-jeppann. Þessa ,,nýju" ABS-nema er auðvelt að mæla. Ekki þarf sérhæfð tæki til þess heldur réttar upplýsingar. Munurinn er sá að rafvirku nemarnir (active) mæla alltaf með sömu nákvæmni hver sem snúningshraði hjóls er og breytuboð þeirra fullnægja þeim kröfum sem fullkomnari öryggisbúnaður krefst, svo sem stöðugleikastýring, spólvörn, stefnudrif og átaksstýring bremsa. Nákvæmni boða frá segulvirkum ABS-nemum (passive) minnkar hins vegar eftir því sem bíl er ekið hægar og því eru þeir að úreldast. Til að ganga ekki gjörsamlega fram af lesendum með tæknilegum útskýringum í löngu máli er þær að finna (m.a. mælingu/prófun á rafvirkum ABS-skynjurum) á Vefsíðu Leós (www.leoemm.com) undir TÆKNIMÁL.

185
ABS - full skoðun þótt það sé óvirkt
Spurt: Ég á Renault Clio, '01. Bremsurnar læsast stundum með skruðningum og ískri eins og bremsuklossarnir séu ónýtir og pedalinn titrar. Svo tek ég fótinn af bremsunni og stíg aftur á og eftir nokkur skipti verða bremsurnar eðlilegar aftur.
Á N1-verkstæði var dæla smurð og mér sagt að þetta yrði í lagi, bremsuklossarnir væru góðir og vandamálið ætti að vera úr sögunni! Það reyndist ekki raunin svo ég fór með hann á annað verkstæði og borgaði rúmlega 7000 kr. fyrir viðgerð og skoðun - en þeir fundu ekkert að bremsunum. Ég fór aftur með bílinn til þeirra, reyndi að lýsa biluninni og bað þá að prófa bílinn í von um að þeir fyndu fyrir þessu. En þeir urðu einskis varir enda kemur þetta ekki alltaf, en helst þegar beygt er eða ekið hægt. Hvað get ég gert í stöðunni?

Svar: Þetta er bilun í ABS-kerfinu (sjálfvirku læsingarvörninni á bremsunum). Þótt þú teljir þig finna það eru bremsurnar ekki að læsa hjólunum föstum heldur fer ABS-kerfið í gang þegar stigið er á pedalan. Ástæðan er bilun í ABS-skynjara (4 stk.) eða ABS-tannhring (4 stk.). Tannhringir geta fyllst af óhreinindum eða brotnað/losnað og geta þá valdið svona hnökrum. Tannhringirnir fyrir afturhjólin eru inni í bremsuskálunum. Þegar hraðinn er lítill og lélegt samband á einhverjum skynjara eða tannhringur ekki lagi þá bregst ABS-tölvan við eins og eitt hjólið sé hætt að snúast og setur þá læsingarkerfið í gang með þessum afleiðingum. Fljótlegast er að ganga úr skugga um þetta með því að gera ABS-kerfið óvirkt, t.d. með því að aftengja einn skynjara en þá ættu þessi verkun að hverfa. Ef allt væri með felldu ætti ABS-ljós að lýsa stöðugt í mælaborðinu en ekki slokkna eftir að vélin hefur verið gangsett. ABS-læsivörn er ekki skyldubúnaður(heldur ekki öryggisloftpúðar). Þú færð fulla skoðun þótt það sé ekki virkt. En viðvörunarljósið þarf þá að lýsa stöðugt til að viðkomandi aki ekki með falskt öryggi (peran gæti verið ónýt). Athugasemd vegna bremsa, þegar ABS-kerfi er óvirkt, er yfirleitt vegna þess að bremsurnar taka ekki jafnt (útíhersla að aftan ójöfn sem ABS-upphefur) en ekki krafa um viðgerð á ABS-kerfinu en viðgerð á því getur verið dýr. Hér skal tekið sérstaklega fram að með þessu er á engan hátt dregið úr öryggisgildi læsivarnar eða loftpúða - en þessar staðreyndir geta gert fjárvana bíleiganda kleift að reka bíl lengur með lögmætum hætti þótt öryggið sé skert.

LandCruiser -miðjukoppum má festa betur
Spurt: Ég hef týnt 3 miðjukoppum af Toyota LandCruiser sem virðast losna vegna tæringar á milli stálkopps og álfelgunnar. Hvernig get ég komist hjá því að týna koppunum?

Svar: Tæringin veldur útfellingu. Þrífðu hana með vírbursta og stálull og notaðu svo kennaratyggjó til að festa koppana í felgumiðjuna.

Miðstöðvarleki þéttur með kaffikorgi
Spurt: Miðstöðin í jeppanum mínum lekur. Mér er sagt að losa þurfi mælaborðið úr til að endurnýja hitaldið sem auk þess er dýrt og að vatnskassaþéttir muni bara stífla það. Er einhver önnur lausn möguleg?

Svar: Losaðu miðstöðvarslöngurnar frá vélinni. Skolaðu úr hitaldinu með heitu vatni. Láttu slöngurnar vera uppréttar. Settu trekt í aðra slönguna og helltu korgi af fínmöluðu kaffi í trektina og láttu heitt vatn renna hægt inn í hitaldið þar til rennur út úr hinni slöngunni. Skolaðu korginn út með heitu vatni eftir 5 mín. Endurtaktu þetta í 3 skipti og tengdu þá slöngurnar á ný. Oft dugar þetta til að þétta hitaldið án þess að stífla það.

Viftukúplingu má prófa með hárþurrku
Spurt: Er með Patrol 2.8 árg 1993. ek. 320 þús. sem ofhitnar við álag, t.d. upp úr Hvalfjarðargöngum. Hvað á ég að skoða?

Svar: Hitaðu viftukúplinguna með hárþurrku. Tengi hún ekki við hitun skaltu bæta á hana sílikóni (fæst í litlum túpum hjá Stillingu). Svona kúpling tekur 10-12 ml. Flæði upp úr yfirfallskútnum þegar vélinni er gefið inn pústar út í vatnsganginn með heddpakkningunni.

184
Toyota-ábyrgð
Spurt: Ég hafði heyrt að Toyota Avensis árgerð 2003 með 1800-vél ættu það til að brenna smurolíu og hef því fylgst nákvæmlega með olíustöðunni frá því ég keypti minn bíl fyrir 2 og hálfu ári. Brennslan virðist aukast stöðugt. Bíllinn er með 100% þjónustu (bók) frá upphafi og olíuskipti á réttum tíma. Í fyrstu, en þá hafði bílnum verið ekið 60 þús. km, brenndi vélin 0,5 l af olíu á 7500 km. Við 90 þús. km. var brennslan komin í tæpan lítra og nú, eftir 109 þús. km, brennir hún einum lítra á hverja 4000 km og mér er hætt að lítast á blikuna. Eru þessar 1800-vélar vandræðagripir? Hve mikil ætti olíubrennslan að vera miðað við eðlilegan akstursmáta?

Svar: Þetta er þekkt vandamál. Það á einungis við Avensis-bíla sem framleiddir voru á ákveðnum tíma. Orsökin eru gallaðir stimplar sem slitna óeðlilega (verða egglaga). Evrópudeild Toyota framlengdi ábyrgðina á þessum ákveðnu 1800-vélum og hefur verið gert við þær eigendum að kostnaðarlausu, eins þótt eigandi sé ekki upphaflegi kaupandi. Strax og þessi galli uppgötvaðist var ný gerð stimpla notuð í vélarnar. Eðlileg olíubrennsla er innan við 1 lítri á 10 þús. km. Þú skalt hafa samband sem fyrst við þjónustustjóra Toyota í Kópavogi því ætla má, samkvæmt upplýsingum sem ég hef frá Toyota í Svíþjóð, að þessi vél sé ennþá með gilda Toyota-ábyrgð.

Hraðastillir og dagljósabúnaður
Spurt: Ég keypti Nissan Qashqai með 2.0 cDi-vél og sjálfskiptingu. Mig langar að láta setja í hann hraðastilli (cruise control). Dýrari gerðirnar koma með hraðastilli frá framleiðanda og taldi ég að það ætti að vera hægt að kaupa búnaðinn til að setja í bílinn eftir á. En mér er sagt að það sé ekki hægt og trúi því varla?

Svar: Það er ekki hægt að bæta hraðastilli frá Nissan/Renault í þessa bíla eftir á vegna þess að tölvukerfi bílsins er valið á framleiðslustigi með tilliti til búnaðarstigs hvers bíls. Á eftirmarkaði eru hraðastillikerfi sem eru sjálfstæð kerfi óháð tölvukerfum viðkomandi bíls. Muni ég rétt hafa Aukaraf, VDO og/eða Arctic Truck selt þannig kerfi og annast ísetningu. Rotor í Hafnarfirði (Á Hjallabraut gegnt Aðalskoðun) selur WAECO hraðastilli sem passar í þennan bíl einnig alls konar eftirbúnað í bíla, m.a. dagljósabúnað.

Óreglusamur Benz
Spurt: Ég á Mercedes-Benz ML-jeppa árg. 2000. Fyrir rúmu ári drapst á vélinni í 4 daga í röð eftir ákveðna vegalengd. Vélin fór aftur í gang eftir 15-20 mín. Tölvulestur sýndi engin bilunarboð. Svo var allt með felldu í heilt ár eða þar til ég var með hjólhýsi í drætti þá steindrepst á vélinni á Hellisheiði og fékkst ekki í gang aftur fyrr en eftir 15-20 mín. Á Hvolsvelli neitaði vélin að fara í gang eftir stutt stopp og þannig gekk. Ég fékk annan til að draga hjólhýsið til Reykjavíkur en þá gekk vélin hnökralaust alla leið og hefur verið í lagi síðan. Hins vegar er þetta bagalegt því ekki er hægt að treysta á bílinn ætli maður í frí með hjólhýsi. Hvað telur þú að gæti valdið þessari bilun?

Svar: Gef mér að þú sért með ML 320 með V6-bensínvél. Þegar enginn bilunarkóði er skráður og áhrif bilunar óregluleg, eins og hjá þér, getur verið erfitt að finna orsökina. Toppstöðunemi (crank sensor) gæti valdið svona bilun (enginn neisti) þótt það munstur sé yfirleitt reglulegra en það sem þú lýsir. Þar sem þetta virðist geta verið tengt álagi á vél myndi maður athuga hvort bensínsía gæti verið stífluð, hvort bensíndæla gæti verið biluð, straumloka bensíndælu ónýt eða hvort sambandsleysi gæti verið í öryggjaboxi (ekkert bensín að spíssum). Helst þyrfti að vera hægt að kanna neista á kertum og bensín að vél á þeim tíma sem vélin fæst ekki í gang - en það getur, af skiljanlegum ástæðum, verið hægara sagt en gert.

183
Bíll sem rásar
Spurt: Ég las svar þitt um léleg ný dekk sem gerðu Honda-jeppling óstöðugan og leiðinlegan í stýri. Ég er með Nissan Terrano II sem rásar og leitar þrátt fyrir ný BFGoodrich-dekk en er að öðru leyti í góðu lagi. Hvað ætti að láta athuga?

Svar: Þú ættir að geta útilokað dekkin. Hér hafa verið seld dekk frá Rússlandi, Indónesíu og Kína sem ekki standast evrópskar gæðakröfur. Dekk, sem seld eru sem ný, geta verið gömul framleiðsla og ófullkomin bygging belgsins valdið því að sólinn kúpist við þrýsting yfir 32 psi. (2,2 kp/fsm). Dæmi eru um að notuð endursóluð dekk hafi verið seld sem ný (t.d. Green Diamond vetrardekk). Dekk frá þekktum framleiðendum geta haft of mikil vik frá staðalmáli; - hef ekið á nýjum 32" General Grabber sem ekki héldust jafnvægð því þau snérust á felgunum (jeppadekk, sem hleypt er úr í snjó, lætur maður ekki líma á felgur). Að lélegum og/eða misslitnum dekkjum og ójöfnum þrýstingi frátöldum, er slit í stýrisliðum algengasta ástæða þess að bíll rásar til hliðanna. Slit breytir stöðu hjóls og raskar framhjólastillingu. Sé heil (stíf) framhásing eða liðhásing getur slit í stýrissnekkju (stillanlegt) og/eða slit í stýrisendum á millibilsstöng, jafnvel bogin stöng, valdið of mikilli útvísum framhjóla sem svo veldur rási. Sumir bílar, t.d. Terrano II, eru með klafafjöðrun að framan og tannstangarstýri. Í þeim er algengara að rangur hjólhalli, vegna lausra klafaása, slits í klafafóðringum eða spindilkúlum, breyti hjólhalla og valdi rási. Oft fylgir að bíllinn leitar til hliðar við inngjöf. Hvaða verkstæði sem er getur fundið slíka bilun og lagfært.

Vetni í stað jarðefnaeldsneytis?
Spurt: Ég var að horfa á Discovery og sá þar þátt um orkumál, m.a. var fjallað um vetnisbíla. Þar var sýnt að hreint vatn kom úr pústinu og þáttagerðar maðurinn drakk það. Spurningin er þessi hvað gerist í frosti, frýs vatnið ekki í pústinu þegar bílnum er lagt og er ekki hætta á ísingu á vegum vegna vatns sem úðast úr pústinu? Og hvaða áhrif myndi vatnsúðinn frá mörgum vetnisbílum hafa í þéttri umferð?
Ég er hissa að það skuli ekki vera farið að rækta repju í stórum stíl, til að vinna úr henni eldsneyti fyrir Diesel-vélar. Gætir þú lýst vinnsluferlinu frá því repjan er uppskorin og eldsneytið tilbúið á bíla?

Svar: Vatnið myndi ekki frjósa í pústinu því sérstakt slefrör væri notað fyrir það framar í útblásturskerfinu - eins og þegar vatni er veitt frá frystikerfi (AC). Að vetri til þyrfti kannski að gera einhverjar ráðstafanir til að affall myndaði ekki hálku. En þetta er eitt af tæknilegum viðfangsefnum sem verða leyst skapist nægur markaður fyrir vetnisbíla.Það sem útilokar vetnisbíla er að vetni er ekki eldsneyti heldur orkuberi (miðill) - ein mynd rafmagns og eftirspurn þarf að vera mjög mikil til að framleiðsla þess borgi sig. Vetni var framleitt með rafgreiningu í áratugi hjá Áburðarverksmiðjunni í Gufunesi. Sú framleiðsla reyndist svo dýr að banna varð innflutning tilbúins áburðar. Bændur og neytendur voru skattlagðir vegna vetnisframleiðslunnar með dýrari áburði/búvörum. Vegna sprengi- og eldhættu er útilokað að stór hluti bílaflota verði búinn þrýstikútum með vetni. Aðrar lausnir munu verða þróaðar þótt þær séu ekki í augssýn - þrátt fyrir alls konar bull pólitíkusa (sem nú eru loks þagnaðir!). Lykillinn að lausn virðist vera sá sami fyrir vetnisbíla og rafbíla, þ.e. fullkomnari rafhlöður. Þrátt fyrir rokufyrirsagnir af og til eru rafhlöður enn svo ófullkomnar að lítil sem engin sala er í rafbílum og orkufrek framleiðsla rafhlaða og förgun er enn óleyst umhverfismál. Þar með er ekki sagt að ekki sé fullkomlega réttlætanlegt að stunda vísindalegar rannsóknir á vetni og hauggasi eins og öðrum orkumiðlum/eldsneyti. Ég skrifaði grein um eldsneytisframleiðslu, m.a. úr repjuolíu, í tímaritið Bílinn fyrir 12 árum. Ræktun repju er hafin hérlendis fyrir skömmu. Áðurnefnd grein er enn í fullu gildi og hana má lesa uppfærða á www.leoemm.com/eldsneyti.htm

182
Vondar sjálfskiptingar

Spurt: Ég keypti nýlega VW Passat station, sjálfskiptan með 2000 vél, árg 2001, ekinn 139.000. 5 sinnum hef ég farið með hann á VW-verkstæði vegna þess að stundum skiptir hann sér ekki úr 1. gír í D, 2, eða 3. Bíllinn verkar kraftlaus og skiptir sér niður í litlum halla uppá við. Eftirfarandi hefur verið gert á verkstæðinu: Í fyrsta sinn var skiptingin endurforrituð, en án árangurs. Þá var skipt um endurræsirofa, einnig án árangurs. Í þriðja sinn var ekkert gert því þeir fundu enga bilun og mátu bílinn í lagi. Í 4. sinn, en þá var bíllinn hjá þeim í 2 vikur, var endurnýjuð vélarolía og vökvi á skiptingunni og töldu verkstæðismenn mikla breytingu hafa orðið á bílnum. Hún entist 4 daga! Í 5. sinn var bíllinn dreginn til þeirra með vélina í gangi (svo þeir gætu ,,lesið" skiptinguna bilaða). En með klaufaskap tókst þeim að drepa á vélinni þannig að bilanakóðinn hreinsaðist út. Hvernig á ég að fara að því að fá þessa bilun í sjálfskiptingunni lagfærða?

Svar: Sjálfskiptingar (ZF) í Volkswagen frá þessum tíma eru gallagripir. Sérstaka þekkingu og varahluti þarf til að koma þeim í viðunandi lag og einungis örfá verkstæði eiga nauðsynlega varahluti til þess og kunna réttu handtökin. Eitt þeirra er Jeppasmiðjan við Selfoss.

Engin stefnuljós á 4Runner
Spurt: Ég á Toyota 4runner Diesel árg. 1994. Stefnuljósin virka ekki en hættu-ljósin virka. Mér sýnist því mega útiloka blikkarann og öryggið. Er eitthvað fleira sem ég ætti að kanna áður en ég fer að kaupa dýra sprotarofann við stýrið?

Svar: Þótt blikkarinn sé sá sami er sitt hvort öryggið fyrir stefnuljósin og hættu-ljósin í þessari árgerð af 4Runner. Byrjaðu á að finna öryggið og skoða það.

Pajero sem ofhitnar
Spurt: Ég á Pajero '99, 2.8 TDI, sjálfskiptan á 33" með upprunaleg hlutföll. Hann hefur verið í fínu lagi lengi. En nú ofhitnar vélin í brekkum með 12-feta fellhýsi (850 kg) í eftirdragi. Ég tek yfirdrifið af í drætti. Engu breytir þótt ég hafi skiptinguna D2 upp brekkur. Hvað getur verið að?

Svar: Fyrst er að ganga úr skugga um að kæliviftan virki þegar vélin er heit. Virki kæliviftan gæti vatnskassinn verið stíflaður af útfellingum (vökvann á að endurnýja á 3ja ára fresti). Varahlutalagerinn 697 3737 (Gunnar) hefur átt vatnskassa á góðu verði í Pajero og fleiri.

Blettir í þakklæðningu
Spurt: Hvernig næ ég blettum úr þakklæðningu (gæti verið eftir gos eða bjór)?

Svar: Með efni sem nefnist UNDRI blettahreinsir (fæst í dagvöruverslunum). UNDRI fjarlægir sykur-, olíu- og feitarbletti á plasti- og vefjarefnum svo sem fatnaði og gerviefnum (bílaáklæði). Hafi verið reykt í bílnum þarftu að þrífa alla þakklæðninguna.

Ábending: Rólegri börn í bíl
Lítil börn hlakka oftast til bíltúrs um helgar, ekki síst sé áð af og til (börn læra og þroskast af ferðalögum eins og fullorðnir). En börn þreytast fljótt af setu í bíl, sérstaklega þegar þau sitja of lágt og/eða sjá ekki nógu vel út af einhverjum ástæðum. Bestu fjölskyldubílar hafa síðar hliðarrúður til að börn sjái vel út: Reynslan sýnir að góð útsýn róar börn og, séu fleiri en eitt í bíl, eru minni líkur á stríðni og stympingum. Barnastóla ætti að hafa þar sem útsýn er best, sé hægt að koma þeim fyrir á fleiri en einum stað. Fyrir börn sem vaxin eru upp úr barnastólum og barnasessum ætti að nota púða til að þau sjái betur út.

Skoda Fabia, VW Polo, Audi A2 - Rafknúin stýrisdæla - viðgerð

Framleiðendur smærri bíla teygja sig stundum mjög langt til að auka sparneytni. Því miður er það oft á kostnað áreiðanleika - framleiðandinn getur stært sig af 10% meiri sparneytni sem kostar kaupanda hundruð þúsunda í auknum viðhaldskostnaði að ábyrgð lokinni - kostnaði sem nemur margföldum eldsneytissparnaði. Sláandi dæmi um það er MM-gírskiptingin hjá Toyota (rafknúin sjálfvirk kúpling og gír-ílag) sem er og verður til stöðugra vandræða. Rafknúna stýrið í Opel Corsa og Astra er annað dæmi um misheppnaðan búnað, ekki vegna hönnunarinnar, sem er út af fyrir sig athyglisverð, heldur vegna illa smíðaðs, lélegs búnaðar sem hefur gert þessa bíla nánast óseljanlega notaða.

VW hefur farið flatt á óhefðbundnu vökvastýri (PAS = Power Assisted Steering). Þetta er misheppnaður búnaður sem er í VW Polo og Skoda Fabia (Seat og Audi A2). Notuð er rafknúin vökvadæla sem fær boð frá stefnuskynjara á stýrisvélinni. Fólk hefur lent í því að allt í einu kviknar gult ljós í miðjum snúningsmælinum og stýrið snöggþyngist. Á meðan ljósið lýsir stöðugt er bíllinn varla aksturshæfur nema fólk sé því handsterkara. Í 90% tilfella er rafknúna stýrisdælan biluð ef ekki ónýt. Þótt ótrúlegt sé er dælan í vinstra framhorni bílsins undir rafgeyminum. Fram að árgerð 2003 er áfyllingarstútur dælunnar undir rafgeyminum miðjum en til hliðar við hann í nýrri bílunum. (Ljósið lýsir ekki stöðugt þótt vökva vanti á kerfið - a.m.k. ekki fyrr en það er tómt). Þessi bilun hefur, fram að þessu, verið ávísun á 200-250 þús. kr. viðgerð og því verulegt tjón fyrir viðkomandi heimili. En ég trúði því ekki þegar því var haldið fram að ekki væri hægt að gera við þessar stýrisdælur - reynslan hefur kennt mér að taka slíkum yfirlýsingum bílaumboða með ákveðnum fyrirvara. Því ákvað ég að prófa að gera við svona búnað sjálfur. Það tókst með því að tefla saman hlutum úr fleiri en einni dælu og kostaði mig einungis lítinn hluta af því sem umboðið gefur upp (fyrir utan vinnu).

Innra brettið hefur verið fjarlægt. Hvíta hylkið vinstra megin er geymirinn fyrir rúðuvökvann en hægra megin við hann sést stýrisdælan með svörtu plastkápunni sem maður fleygir ásamt svampsokknum sem er innan í henni. Tærði potturinn sem sést neðan við plastkápuna er rafmótorinn. Raftengin eru framan á dælunni en vökvatengin (2) aftan á henni. Auðvelt er að komast að raftengjunum í gegnum göt fyrir ristar eða aukaljós í framstuðaranum. Mikilvægt er að losa raftengin áður en dælan er losuð. Séð framan á stýrisdæluna (gerð, Koyo) eftir að kápan hefur verið fjarlægð. Efst er forðabúrið. Innan í því er dælan sjálf en neðsti hlutinn er rafmótorinn. Á milli dælu og rafmótors (stallurinn með strikamerkinu) er hólf fyrir tölvustýringuna sem er samrásarplata sem liggur lárétt. Þessar stýrisdælur eru af tveimur gerðum, Koyo (betri) og TRW (verri). Báðar gerðirnar passa, þ.e. skipta má TRW-dælu út fyrir Koyo.

Undirbúningur
Rafknúið aflstýri er mjög straumfrekur búnaður. Lélegur rafgeymir, geymasambönd eða alternator, sem ekki hleður með rúmlega 14 volta spennu, getur gert aflstýrið óvirkt. Því skyld ávallt ganga úr skugga um ástand rafkerfis, t.d. með álagsmælingu og skoðun, áður en farið er að eiga við stýrisbúnaðinn. Í Skoda Fabia þarf geymir í lagi að vera minnst 55 amperstunda og hleðsla frá alternator má ekki mælast minni en rúm 14 volt (mælt á leiðslu nr. 1 undir hlífinni ofan á geymakassanum. Eftir spennumælingu þarf að ganga úr skugga um að öryggi séu í lagi. 3 öryggi eru í litlum kassa undir efstu hlífinni yfir geyminum og eitt (nr. 7 eða 8) í öryggjaboxinu í hlið mælaborðsins bílstjóramegin. Séu þessi öryggi í lagi skaðar ekki að vita að þunnu ílöngu álskinnurnar á milli tengipólanna í lokinu yfir rafgeyminum eru 50 ampera bræðsluöryggi. Mælið næst vökvastöðuna í forðabúri dælunnar. Það má gera ofanfrá í bílum frá og með árgerð 2003. Í eldri gerðum borgar sig að losa láréttu hlífina undan vélinni en þá má komast að loki dælunnar neðanfrá (undir rafgeyminum). Vanti á kerfið þarf að finna lekann áður en lengra er haldið. Sé rafkerfið í lagi og mælist vökvinn milli hámarks og lágmarks á kvarðanum eru allar líkur á að losa þurfi dæluna úr bílnum. Þá borgar sig að fjarlægja innra brettið bílstjóramegin (rafgeymakassann þarf ekki að eiga við).

Tengin losuð
Á Skoda-spjallþráðum á Netinu eru ýmsir sérfræðingar eins og gengur. Sumir þeirra eru greinilega snöggsoðnir, hafa hvorki séð né fengist við dæluna eða þennan búnað yfirleitt, en setja samt fram ýmsar ráðleggingar. Sumir þeirra fullyrða að stefnuskynjarinn á stýrisvélinni sé bilaður (kostar 28 þús. kr. hérlendis en fæst fyrir hálfvirði á Netinu. Hlutarnúmer er 6Q2 423 291 D eða DX sem er nýrri) en þessi skynjari er oftast í lagi og einungis sóun á tíma og fé að vera að baksa við hann, a.m.k. áður en dælan hefur verið skoðuð. Vegna staðsetningarinnar og frágangs dælunnar er líklegasta orsök bilunarinnar sú að geymasýra og raki hafi komist í raftengin (3 stk.) framan á dælunni (snúa fram í bílnum). Geymasýra getur einnig hafa komist niður í gegn um tengisökklana og inn í dæluna og eyðilagt rafmótorinn og/eða tölvustýringu (samrásarplötu/Control Modul 6Q0 423 156 G) sem er innan í henni á milli rafmótors, sem er neðri hlutinn, og vökvadælunnar sem er efri hlutinn. Forðabúrið er plasthólkur sem hvolft er yfir dæluna.

Í VW Polo og Skoda Fabia geta stýrisdælurnar verið hvor frá sínum framleiðanda þótt báðar séu merktar VW á forðabúrinu. Annars vegar eru dælur frá TRW (sem oftast eru ónýtar séu þær bilaðar) en hins vegar dælur frá Koyo sem oft má laga, t.d. búa til eina úr tveimur. Dælan kostaði ný um 160 þús. kr. í mars 2010.

Algengustu mistökin eru að byrja á að losa dæluna áður en raftengin eru losuð frá dælunni en þá er hætt við að þau brotni eða aflagist vegna þess hve leiðslurnar eru stuttar og erfitt að komast að tengjunum. Á þessum þremur tengjum eru engin fjaðrahök. Það sem heldur þeim saman er að sökkullinn á dælunni er með þykkildi og því þrengri um miðjuna en leiðslustykkið. Til að losa raftengin er ráðlegra að losa 2 plastristar neðst á framstuðaranum bílstjóramegin (eða fjarlægja dreifiljós sé því til að dreifa). Þá hefur maður góðan aðgang að raftengjunum þremur á dælunni meðan hún er föst í bílnum. Stóra tengið í miðjunni er aðalstraumtengið, vinstra megin við það er tengi frá bíltölvunni en hægra megin frá stefnuskynjaranum á stýrisvélinni. Ytri tengihulsunum er þrýst upp úr sökklunum með löngu skrúfjárni sem stungið er undir báðu megin til skiptis og snúið varlega upp á. Þannig má losa þau án skemmda séu þau ekki gróin föst eða í einum graut. Þegar tengin hafa verið losuð eru vökvatengin aftan á dælunni losuð og tappar settir í þau. Þá fyrst er dælan losuð en henni halda þrír 10 mm boltar, tveir á spöng að aftanverðu og einn að framan, boltarnir ganga lóðrétt upp í burðarbita.

Þetta er vökvadælan sem situr ofan á mótornum. Forðabúrið, úr plasti með áfyllingartappa efst, hylur dæluna. Sé hægt að snúa dælunni, en það er hægt án þess að taka hana sundur, er hún yfirleitt í lagi og þarf ekki að eiga við hana frekar. Rafmótorinn er ekki ósvipaður startaramótor. Hann er með fjölseglahólk í stað belgvafninga og því má ekki slá í hann með hamri (seglarnir sem eru hálfmánar úr koli geta auðveldlega brotnað. Eins og sjá má á dælustalli og mótor hefur geymasýra náð að leka niður á dæluna. Sýru-útfellingarnar er auðveldast að fjarlægja með volgu vatni blönduðu matarsóda.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 
Prófun dælu

Ekki borgar sig að reyna að prófa stýrisdælu nema fulltengda í bíl. Til að dælan virki þarf hún boð frá stjórntölvu bílsins (vinstra tengið) og frá stýrisstefnuskynjaranum (hægra tengið). Sé straumi hleypt á þessi tengi er eins víst að það valdi skemmdum á tölvustýringunni. Lítið mál er að festa dælu í bíl (3 boltar) og tengja hana. Hún fer þá í gang þegar vélin er gangsett og stýrið hreyft.

Sundurtekning
Byrjað er á að losa plastkápuna og svampsokkinn sem er innan í henni. Það er gert með því að fjarlægja festispöngina aftan á dælunni. Þessari plastkápu og svampsokknum borgar sig að fleygja - þetta drasl er gagnslaust sem hljóðeinangrun en veldur skemmdum með því að halda raka og óhreinindum að dælunni. Þvoið dæluna með volgu vatni sem bætt hefur verið út í 3-4 matskeiðum af matarsóda (losar sýruútfellingu) og skolið síðan með hreinu vatni eða háþrýstiþvotti.
Forðabúrið er fjarlægt og því næst boltarnir sem halda dælu og rafmótor saman; tveir þeirra eru brjóstboltar sem þarf að losa með góðri krafttöng. (Ath. að efri hluta dælunnar þarf ekki að losa frá dæluhúsinu á þessu stigi). Þrjár skrúfur á leiðslufjöðrum inni í dæluhúsinu að framanverðu eru fjarlægðar. Fara þarf með þunnt hnífsblað í samskeytin á milli rafmótors og hólfsins fyrir tölvustýringuna til að losa um þéttiefni/lím. Með neðri hlutann, rafmótorinn í skrúfstykki er dumpað varlega með plasthamri á dæluna þar til hún losnar sundur. Sláið ekki með hamri í belg rafmótorsins því í honum er fjölseglahólkur (úr kolhálfmánum) í stað venjulegs segulvafnings (stators) en seglarnir geta brotnað við högg.

Tölvustýringin, plata, er í hólfi á milli mótors og dælu. Oftast er það hún sem bilar, oft vegna þess að vatn kemst inn í hólfið með tengjunum. Mér tókst ekki að finna neinn hér innanlands sem treysti sér til að gera við þessa tölvustýringu. En með hjálp Gunnars hjá Varahlutalagernum í Kópavogi (699 3737) var það reynt úti í Bretlandi en reyndist ekki hægt.

Viðgerð
Sé dælan illa farin (oftast tengin) er viðbúið að um TRW-dælu sé að ræða og ekkert upp á hana púkkandi (TRW var einu sinni þekkt gæðamerki en það er orðið æði langt síðan). Þá þarf að útvega notaða Koyo-dælu með heilum tengjum, helst með mótstykkjum og leiðslubútum tengjanna þannig að lengja megi í leiðslunum um leið. Sé um aðkeypta dælu að ræða er byrjað á að prófa hana í bílnum, þ.e. festa hana og tengja. Reynist hún ekki virka þarf eftirfarandi aðgerðir:
Eftir sundurtekningu er hólfið fyrir tölvustýringuna losað frá rafmótornum. Passið að týna ekki millistykki úr plasti (lítill hólkur) sem tengir öxul rafmótorsins við öxul dælunnar og gætið þess við samsetningu að tengistykkið snúi rétt. Rafmótornum á að vera hægt að snúa með handafli en dælan getur verið þyngri. Dælan er yfirleitt í lagi sé hægt að snúa henni. Prófa má rafmótorinn með því að setja straum og jörð á ystu tengin eftir að hólfið fyrir tölvustýringuna hefur verið fjarlægð. En vissara er að hafa sverar leiðslur og 30 ampera öryggi á þeim (mótorinn tekur um 30 amper laus og sprengir auðveldlega 20-26 ampera öryggi). Snúist mótorinn er hann í lagi. Séu skrúfurnar losaðar má taka ankerið upp úr segulhúsinu til að blása það hreint og smyrja og til að skoða leguna í botninum. Gætið að þunnu spennuskífunni sem er undir legunni - hún má ekki gleymast við samsetningu.
Sé allt með felldu varandi rafmótor og dælu og tölvustýringin ekki sjáanlega ónýt af raka og óhreinindum er bara að senda hólfið með tölvustýringunni (samrásarplötunni) út til Bretlands til viðgerðar. Ekki borgar sig að reyna að losa samrásarplötuna úr hólfinu - þær tilraunir enda með því að tengin eyðileggjast. Þeir sem gera við tölvustýringuna losa upp lóðningar sem halda plötunni við tengipinnana. Varahlutalagerinn í Kópavogi, sími 699 3737 (Gunnar) sér um að senda stýringuna út til viðgerðar, sem er reynandi því séu það bara tengin sem eru brotin geta þeir gert við það.

Samsetning
Þegar tölvustýringin er komin úr viðgerð er dælan sett saman í öfugri röð. Hreinsa þarf upp samskeytaflöt á milli dælu og mótors og þétta með sílikoni. Brjóstið á boltunum tveimur sem halda dælunni og forðabúrinu í stýringu þarf að laga með þjöl eftir tennur krafttangarinnar. Gúmmíþéttihringurinn milli stalls á dælu og forðabúrs þarf að vera óskemmdur. Eftir að dælan er komin saman og vökvatengin lokuð með töppum er sérstakri VW-stýrisvélarolíu (fæst hjá VW-þjónustuaðilum) hellt á dæluna. Dælunni fest í bílinn og gengið frá raftengjum í gegnum götin í stuðaranum og vökvatengjum aftan á dælunni. Vélin er gangsett og kannað hvort dælan virki þegar lagt er á stýrið en það finnst vel þegar haldið er um mótorhús dælunnar þótt bíllinn standi á tjakki. Síðan er dælunni slakað nægilega á boltunum til að mæla megi vökvastöðuna með hana í láréttri stöðu, fyllt á ef þarf og dælunni síðan fest. Innra brettinu fest og láréttu hlífinni undir vélina. Áður en ristarnar eru settar aftur í framstuðarann er ráðlegt að úða vaxefni (Vaxol, sem til er á úðabrúsum og nefnist holrýmisvax) rækilega á tengin framan á dælunni til að verja þau raka og vatni. Vel heppnuð viðgerð sparar verulegt fé.

181
Rennilásar. Þá má liðka
Spurt: Ég er ekki með nógu góða geymslu fyrir fellihýsið sem þó hefir ekki komið að sök nema að rennilásar verða stirðir og leiðinlegir. Ég er búinn að reyna ýmis efni til að liðka þá en þau hafa ekki dugað lengi. Er til hentugt efni sem liðkar og ver rennilása án þess að það smiti frá sér t.d. í fatnað?

Svar: Á bensínstöðvum hefur fengist silikónefni sem borið er á þéttikanta í bílum til að hurðir frjósi ekki við karma. Þetta er túpa með svamppúða undir stóru loki (T.d. Silikonstift frá MAN System). Efnið er kreist upp í púðann sem strokið er eftir þéttikantinum. Þetta efni virkar einnig vel á rennilása, úr plasti eða málmi, á tjöldum, töskum og fatnaði. Þeir verða léttir, liðugir og þola betur raka.

7 manna fólksbílar
Spurt: Við höfum ekki lengur efni á að gera út 2 bíla. Með 5 börn þurfum við 7 sæta fólksbíl (jeppi er of dýr). Hvaða fólksbílar koma til greina?

Svar: Hagkvæmasti 7-9 sæta fólksbíllinn er framdrifinn með Diesel-vél. Eftirfarandi bílar eru allir með Diesel-vél: Dodge Chrysler Voyager er framleiddur í Austurríki og hefur verið fáanlegur á evrópskum markaði með 2,5 eða 2,8 lítra Diesel-vél, lengra hjólhafi og breytilegri innréttingu frá og með árgerð 2005. Voyager er sérstaklega hannaður sem fjölskyldubíll. Citroën C8 HDi 110 FAP Diesel er fáanlegur 7 sæta einnig Fiat Dobliò1.9 JDT og Ulysse 2.2. Þá er 7 sæta Ford Galaxy 1.9 TDI framleiddur í Þýskalandi. Hyundai Trajet, 7 sæta með Diesel-vél er nokkuð algengur hérlendis einnig Kia Carens og Kia Carnival 2.0 CRD (munurinn á þeim er rennihurð á hlið). Mazda 5 með 2ja lítra Diesel-vél er 7 sæta bíll. Mercedes-Benz Viano Diesel er fáanlegur með 8 sætum. Mistubishi Grandis 2.0 DI-D, Opel Zafira 1.9 CDTI, Peugeot 807 (sami bíll og Citroën C8) og Renault Grand Scénic 1.9 dCi eru allir fáanlegir með 7 sætum. Toyota Previa 2.0 og Corolla Verso 2.0 eru báðir með Diesel-vél og 7 sætum. Þeir eru báðir með sjálfvirku fjórhjóladrifi sem eykur öryggi á kostnað sparneytni en meðaleyðsla þeirra er samt um og innan við 7 og 8 lítrar.

CRV þungur í stýri
Spurt: Ég á Honda CRV árgerð 2005, ekinn 35 þús. sem mér finnst vera orðinn afar leiðinlegur í stýri. Bíllinn leitar sitt á hvað til vinstri eða hægri, virðist það fara eftir halla vegarins. Til að halda stöðugri stefnu þarf næstum að togast á við bílinn því hann leitar svo til hliðanna. Viðbót: Eigandi sams konar bíls hafði samband og sagðist hafa lent í þessu sama (rási og þungu stýri). Hann telur orsökina hafa verið léleg heilsársdekk af tegundinni Winterforce, sem hann hafði keypt hjá Honda-umboðinu. Þegar hann keypti ný vetrardekk af annarri tegund hætti bíllinn að rása og stýrið varð eðlilegt!

Svar: CR-V í lagi er sérstaklega lipur í stýri. Gerum ráð fyrir að dekkin séu í lagi og réttur og jafn þrýstingur í þeim (30-35 pund). Láttu athuga hvort slit geti verið í framhjólabúnaðinum (stýrisendi eða spindilkúla). Slit getur orsakað of mikla útvísum framhjóla en hún getur valdið þessari hliðarleitun. Sé ekkert slit merkjanlegt getur þetta verið vegna stirðs (ónýts) hjöruliðar á stýrisstönginni þar sem hún tengist stýrisvélinni. Það er algeng ástæða óeðlilega þungs stýris og á við margar tegundir bíla.
Bremsuklossar endurnýjaðir

Ábending: Flestir bíleigendur geta endurnýjað bremsuklossa án þess að eiga sérstök verkfæri (þau, ásamt tækniaðstoð, má fá hjá bílaþjónustum (fyrir sjálfsþjónustu) sem nú eru að lifna við eftir 25 ára hlé. Áður en vél er gangsett og bíll hreyfður eftir endurnýjun bremsuklossa, þarf að pumpa bremsurnar upp. Þegar nýir og þykkari klossar hafa verið settir í án þess að þurft hafi að lofta bremsur fer bremsupedalinn í botn við fyrsta ástig og getur valdið óhappi, jafnvel slysi. Því þarf að pumpa bremsurnar upp áður en vélin er gangsett. Oftast nægja 3 ástig til að bremsurnar virki eðlilega.

Mótorhjól: Suzuki Strom - óvirk kúpling
Spurt: Ég er með Suzuki V-Strom 1000 dl 2002 árg ekið 22000 km. Vökvakúplingin á því slítur illa og má segja að það hafi gerst frekar hratt. Ég hef hreyft hjólið reglulega í vetur og það hefur virkað vel. Í dag tók ég rúnt og eftir stutta keyrslu varð erfiðara að skifta um gír og þegar ég ætlaði að stoppa sleit kúplingin það illa að drapst á því og nú slítur hún als ekki. Hefurðu einhverja hugmynd um hvað gæti valdið þessu?

Svar: Sérfræðingur Vefsíðu Leós í mótorhjólum segir: Gæti verið loft á kúplingunni, þarf að kanna hvað veldur því. Hafi þetta gerst snögglega er eitthvað að sem veldur því að loft kemst inn á vökvakerfi kúplingarinnar. Væru diskar búnir hefði þetta ekki gerst snögglega en gormur fyrir diskana gæti hins vegar verið brotinn.

Hyundai H1, Starex, Terracan, Galloper - erfið gangsetning þegar vél er heit
Spurt:
Ég er með árgerð 2000 af Hyundai H1, sjálfskiptum með 2.5 turbó-Dieselvél. Hann hefur gengið ágætlega en síðustu mánuði hefur verið erfitt að gangsetja vélina heita. Ástandið hefur versnað þannig að nú fæst hún alls ekki í gang lengur nema hún fái að kólna í 2-3 klst. Ekkert bilunarljós lýsir. Búið er að kóðalesa eldsneytiskerfið. Enginn kóði reyndist skráður. Stundum dettur vélin í gang sé bíllinn látinn renna og virðist þá engu máli skipta þótt hún sé heit. Nokkrar ferðir á verkstæði hafa ekki skilað neinum árangri (bara kostnaði). Á þessari vél kemur inngjafarbarkinn ekki í olíuverkið heldur í einhvern nema ofan á soggreininni. Þegar svissað er á (vélin ekki í gangi) suðar stanslaust í olíuverkinu). Á ventlalokinu stendur D4BF. Mér var sagt að það gæti borgað sig að skipta um olíuverk og spíssa, setja venjuleg olíuverk í stað ,,common rail-dælunnar." Telur þú það ráðlegt? Hvað álítur þú að gæti valdið þessari erfiðu gangsetningu heitrar vélar?

Svar: Fyrir nokkrum árum gekkst Bílgreinasambandið fyrir því að reglum um árgerðarskráningu bíla var breytt þannig að í skráningarskírteini eru skráð 2 ártöl; smíðaárs og árgerð (söluárs). Með þessu móti gátu bílaumboð skráð gamla bíla, sem þau höfðu geymt árum saman á hafnarbakka, sem nýja (árgerðin miðaðist við söluár en ekki smíðaár). Hvers vegna Skráningarstofa varð við þessum kröfum verður ekki skýrt öðru vísi en að þar hafi ráðið sama verklag og olli ,,Hruninu mikla", þ.e. klíkuskapur, undirlægjuháttur o.s.frv. Ruglið með árgerðarskráninguna hefur valdið ómældum aukakostnaði fyrir bíleigendur.
Því er þetta nefnt hér að þessi Hyundai H1 sendibíll er ekki árgerð 2000 heldur 1998 eða eldri (það er auðvitað smíðaárið sem gildir við hvers konar tilvísun, ekki síst sé hún tæknilegs eðlis eins og í þessu tilviki. D4BF-vél í Hyundai er síðast í árgerð 1999. Þetta suð sem þú heyrir í olíuverkinu er frá fæðidælunni sem er ofan á því. Diesel-vél með forðagrein (Common rail) kom ekki í Hyundai-bílum fyrr en á síðari hluta smíðaárs 2000.

Eftirfarandi upplýsingar gilda um Hyundai H1, Starex, Terracan og Galloper fram að smíðaári 2001.
D4BF: 2.5 lítra (Mitsubishi 4D56T) með mekanísku olíuverki; stjörnudælu, ýmist af gerð Bosch EP-VE eða Lucas-CAV). Vélin er með pústþjöppu en án millikælis. Smíðaár fram á mitt ár 1999.

D4BH: 2.5 lítra (Mitsubishi 4D56TI) með mekanísku olíuverki með tölvustýringu en að öðru leyti sömu gerðar og í D4BF. Vélin er með pústþjöppu og millikæli. Smíðaár út 1999.

Diesel-vélar í Hyundai sem smíðaðir eru árið 2000 eru af nýrri gerð, m.a. án forhólfs, og með forðagrein og rafspíssa, CRDi-vélar. Hér er ekki fjallað um þær.

Erfið gangsetning heitrar vélar er ekki algeng bilun í Hyundai með D4BF og D4BH. En hún er mjög líklega sama eðlis hvor vélin sem á í hlut. Aftan á þessum olíuverkum er rafsegulloki sem virkar sem ádrepari þegar lyklinum er snúið til vinstri í svissnum. Í lokanum, pung sem þekkist á rafleiðslu sem kemur í hann, er spólurofi sem lokar fyrir eldsneyti inn í þrýstirásir olíuverksins. Vöfin í þessum spólurofa bila oftast þannig að við hitaþenslu rofnar samband og rofinn verður óvirkur (opnar ekki). Þegar hann hefur kólnað og skroppið saman ná vöfin saman aftur og lokinn opnar þegar straumi er hleypt á hann. Vélaland hefur átt þennan rafsegulloka. Auðvelt er að skipta um hann og ekki þarf að lofta kerfið hans vegna - það loftar sig sjálft eftir skrykkjóttan lausagang í 30 sek.

Benz W126 300 gangtruflun
Spurt: Ég er með Mercedes-Benz W126 1987 300SE sem drepur alltaf á sér þegar hann er kaldur, það er að segja þegar ég sleppi bensíngjöfinni en þá er eins og hann fái ekki nóg bensín og drepur á sér. Þegar hann hefur hitnað þá er hann fínn. Ég er búinn að skipta um kerti og þræði.

Svar: Til öryggis skaltu byrja á því að setja slurk af ísvara í bensíngeyminn og úða rakaþétti á kveikjulokið (sé það kápulaust). Í þessum bíl er innsprautukerfið af gerðinni KE-Jetronic frá Bosch. Af lýsingu þinni að dæma kemur ýmislegt til greina svo sem sogleki (athugaðu allar slöngur sem þú sérð að og frá soggreininni), röng blöndustilling, o.fl. Tvær einingar í þessu kerfi stjórna bensínblönduninni þar til vél hefur náð eðlilegum ganghita: Annars vegar jöfnunarloki (Auxillary-air valve í enskri handbók) sem gæti staðið fastur opinn en hins vegar upphitunargangráður (Warm-up-governor) sem gæti verið óvirkur. Í báðum þessum stykkjum eru rafhitaðar fjaðrir sem stýra virkni þeirra á meðan vélin er að ná eðlilegum vinnsluhita. Byrjaðu á því að finna straumloku bensíndælunnar. Jöfnunarlokinn fær straum frá spaða nr. 85 og upphitunargangráðurinn frá spaða nr. 86. Á báðum þessum spöðum verður að mælast minnst 11,5 volt þegar startað er (með aftengdan háspennuþráð frá háspennukefli). Sé spennan ófullnægjandi á öðrum hvorum getur það nægt til að vélin drepi á sér köld. Of lágri spennu getur valdið sambandsleysi (útfelling), brunnið öryggi, ónýt straumloka o.fl.). Sé spennan rétt finnurðu jöfnunarlokann, hann er oft festur á heddið og liggja 2 slöngur frá honum og tengjast soggreininni strax á eftir barkanum frá deilinum, önnur slangan tengist stút fyrir framan inngjafarspjaldið en hin stút fyrir aftan það. Í jöfnunarlokann kemur ein rafleiðsla og á viðnámið í tenginu að mælast 40 ohm sé hitafjöðrin í lagi (0 ohm = ónýtur loki) . Sé jöfnunarlokinn losaður frá heddinu, slöngurnar teknar af honum og lýst inn í hann með vasaljósi má sjá hvort hann sé lokaður þegar vélin er köld. Loki maður slöngunum með töppum má sjá hvort lokinn sest (lokar) þegar hann er hitaður með byssu. Geri hann það ekki er hann bilaður. Rafspenna og vélarhiti eiga að halda þessum jöfnunarloka lokuðum. Sé lokinn í lagi á að draga niður í lausagangi kaldrar vélar þegar loftslangan öðru hvoru megin við lokann er klemmd saman.
Gefum okkur að spennan hafi mælst 11,5 volt á spaða 86 á bensíndælu-straumlokunni. Upphitunargangráðurinn er ekki á sama stað í öllum Benzum. Þetta er málmdós og þekkist á 3 grönnum bensínleiðslum og einni rafleiðslu; 2 tengjast deilinum en 1 tengist kaldræsilokanum sem er strax á eftir inngjafarspjaldinu í soggreininni. Byrjaðu á að mæla viðnámið í raftenginu á upphitunargangráðinum (hitanæm fjöður). Viðnámið á að mælast 25 ohm (0 ohm = brotin fjöður). Upphitunargangráðurinn er ónýtur sé fjöðrin brotin og þarf þá að endurnýja hann (dýrt stykki en ætti að fást á partasölu og passar úr fleiri bílum en Benz) en hann styrkir bensínblönduna á sjálfvirkan hátt eftir að köld vél er gangsett og þar til hún hefur náð að hitna eðlilega og gerir það með því að breyta þrýstingi í bensíndeilinum. Upphitunargangráðurinn hefur einnig áhrif á gangsetningu í kulda sem getur orðið erfið sé hann óvirkur.
Ég geri ráð fyrir að þú kunnir til verka eða getir fengið einhvern kunnáttumann til að hjálpa þér. Það er ákveðin aðferð við að prófa upphitunargangráðinn, mælist spennan rétt frá tengi 86 og viðnámið rétt í raftenginu á gangráðnum. Sé það tilfellið skal ég leiðbeina þér með þá prófun. En byrjaðu á þessu.


Benz W126 380 blöndustilling

Spurt: Ég er með einn af þessum alvöru eðalvögnum, gamlan W126, Mercedes-Benz 380 SEL árgerð 1988. Hann fékk fulla skoðun nýlega enda bíllinn í góðu standi, ekinn rúmlega 200 þús. km. En þó var gerð athugasemd við bensínblöndu - of sterk (2,3%). Það er ekki langt síðan kertin voru endurnýjuð og kveikjukerfið yfirfarið og vélin stillt. Smurolían á vélinni (Mobil One 5w-30) er 1500 km ,,gömul." Hvað getur haft áhrif á styrkleika blöndunnar og er hún stillanleg í þessu Bosch-kerfi? Hver á snúningshraðinn að vera í lausagangi? (Annað: þú birtir krækju á Stjörnuna (vefsíðu Benz-eigenda) á aðalsíðunni en þeir birta ekki þetta veffang á listum sínum yfir áhugaverðar vefsíður!)

Svar: Eftirfarandi á við alla W126 hver sem vélin er: Ástæða þess að bensínblandan mælist of sterk getur verið rakamettun í bensíni (ísvari), lekur EGR-loki, sogleki (barkar og slöngur), hálfteppt öndun, léleg kerti, óhrein smurolía (tvö síðustu atriðin getum við útilokað samkvæmt þínum upplýsingum).
Í húddinu á þessum bílum er miði þar sem á stendur CO-gildið sem skal stilla á í %. Á miðanum er einnig tekið fram hvort loftlögn að pústportum skuli vera tengd eða aftengd við mælingu (sé hún til staðar). Til að stilla blönduna þarf þrennt: Afgasmæli, upplýsingar um rétta tengingu hans og kunnáttu í að breyta blöndunni. Við blöndustillingu á að tengja afgasmælinn við sérstakan stút á pústgreininni en ekki við enda útblástursrörs aftan á bílnum. Á deilinum, milli leiðsluloksins og loftspjaldsins er stilliskrúfa fyrir blönduna. Ofan á henni er gúmmítappi sem tekinn er úr. Stillt er með sexkanti. Til þess að stilling takist og haldist þarf viðkomandi að vita að í þessum Bosch-Jetronic-kerfum (en þetta kerfi nefnist CIS) er blöndunni alltaf breytt frá veikri í sterka en ekki öfugt. Maður veikir blönduna með því að snúa stilliskrúfunni rangsælis (skrúfa hana upp) en styrkir með því að snúa henni réttsælis (niður).
Þetta þýðir t.d. að mælist blanda of veik verður að byrja á að styrkja hana umfram uppgefin mörk og skrúfa stilliskrúfuna síðan upp (þynna blönduna), lítið í einu, þar til hún mælist rétt. Þessi stilliskrúfa er viðkvæm, t.d. má ekki þrýsta sexkantlyklinum niður í hausinn á henni eigi stillingin að takast. Algengustu mistökin við lausagangsstillingu þessara véla er vegna þess að viðkomandi þekkir ekki þessa aðferð en þá getur blandan mælst allt önnur, t.d. eftir að vélin hefur hitnað og kólnað einu sinni. Lausagangur á að vera um 800 sn/mín (sjá miðann í húddinu).
Viðvörun: Í þessum K-Jetronic-kerfum er mjög hár og stöðugur bensínþrýstingur. Sé losað um tengi á lögninni, t.d. skömmu eftir að vél hefur verið stöðvuð, getur bensín sprautast langar leiðir og mikil eldhætta skapast. Þrýstingnum má hleypa af kerfinu. Það er gert með því að aftengja straumloku bensíndælunnar og starta nokkrum sinnum. Hún er á bak við lóðrétta spjaldið í vinstri hliðinni undir mælaborðinu, a.m.k. í eldri bílum en 1993.
Annað: Umsjónarmaður Stjörnunnar (Rúnar?) bað fyrir nokkuð löngu um að tengill á hana yrði birtur og varð ég, að sjálfsögðu, við því. Engin skilyrði eru sett fyrir birtingu tengils á þessari vefsíðu önnur en að efni viðkomandi síðu geti gagnast lesendum/bíleigendum - og það finnst mér að Stjarnan geri.

Benz 420 SE (W126) sem reykir
Spurt: Ég keypti mér nýlega Mercedes Benz 420se(w126), árgerð 1987, ekinn 370 þúsund. Hann er s.s. V8, 4,2 lítra með vél nefnist M116. Vel hefur verið farið með bílinn og er hann almennt í góðu ástandi nema fyrir að hann reykir dálítið olíu, þ.e. þú tekur eftir bláum reyk þegar tekið er af stað. Olíuþrýstingurinn er í góðu lagi og það lekur ekkert undan bílnum. Ekkert í mælaborði eða gangi bílsins gefur til kynna að neitt sé að.
Ég fór með bílinn í ástandsskoðun hjá Bíladoktornum - fannst hún ekki gefa miklar upplýsingar fyrir 25 þús. kr. Búið var að segja mér að þetta væru ónýtar ventlaþéttingar, spurning hvort þú sért sammála því eða er eitthvað sem ég ætti að athuga fyrst?

Þessu tengt þá er ég búinn að fá tvö verð í viðgerð á þéttingunum. Eitt verkstæðið segir að þetta muni kosta um 70.000.- annað verkstæði segir um 200.000.- Gæti þér dottið í hug hvað útskýrir svona mikin mun ? Er annar aðili að nota orginal varahluti meðan hinn gerir það ekki ? Er hægt að skipta um þéttingarnar á mis "góðan" veg, þ.e. gæti verið þessi virði að taka dýrara tilboði með von um "betri" viðgerð ?

Svar: Ég þekki ekki þetta verkstæði, Bíladoktor. Að skipta um ventlaþéttingar í 6 og 8 sílindra Benz er tiltölulega einfalt mál fyrir þann sem kann það og á réttu áhöldin. Vélinni er snúið þar til stimpill er í toppstöðu og báðir ventlar eru lokaðir á viðkomandi sílindra. Kertið er tekið úr og þrýstiloftstengi skrúfað í kertagatið. Loftþrýstingurinn heldur ventlunum uppi. Notuð er sérstök þvinga sem grípur utan um kambásinn og þvingar ventilgorminn niður. Þá er ventilarmurinn (rokkarinn) laus og er kippt úr. Síðan eru splittin tekin og ventilgormurinn og þéttihulsan endurnýjuð. Þannig koll af kolli þar til nýjar þéttingar eru á öllum 8 silindrum.

Ástæðan fyrir mun á ágiskuðu verði við að skipta um ventlaþéttingar, sem er hálfsdags vinna, er að öllum líkindum vanþekking á þessum ákveðnu vélum.

En með tilliti til þess hve þinn bíll er mikið keyrður (370 þús. km) og í ljósi þess að ég hef átt Benza með þessari vél auk þess sem ég gerði talsvert við Benz hér áður fyrr vil ég benda á eftirfarandi: Í þessum vélum eru mjög sverir ventlar. Og ég þekki það af reynslu að þegar vélarnar eru mikið keyrðar (+200 þús) og að einhverju leyti eftir því hvernig með þær hefur verið farið, stafar olíubruni oft af því að þessir sveru ventlar fletja út ventilstýringarnar og þá duga þéttingarnar ekki - jafnvel þótt þær væru nýjar. Mig grunar að í þínu tilfelli séu um ónýtar ventlastýringar að ræða. Það þýðir að taka verður heddin af og skipta um ventilstýringarnar en þeirri aðgerð fylgir plönun á heddum, nýjar heddpakkningar og heddboltar (í þessum vélum eru einnota teygjuboltar). Sá sem hefur reynslu af þessum vélum getur fundið út hvort stýringarnar séu slitnar með því að taka á ventlunum með góðri töng - slitið finnst sem hlaup milli ventils og stýringar. Þú skalt því vera viðbúinn því að viðgerðin geti kostað 500 þúsund krónur. Ráðlegg þér að hafa samband við Vélaverkstæðið Kistufell á Tangarhöfða. Þar er a.m.k. einn maður sem ég veit að vann við þessa bíla hjá Ræsi hér áður fyrr auk þess sem Kistufell hefur endurbyggt magar Benz-vélar og eru fagmenn á þessu sviði. Talaðu við eigandann, Guðmund Inga og segðu honum frá okkar samskiptum. Hann mun athuga þetta með ventilstýringarnar og í framhaldi af því skaltu taka ákvörðun um hvað þú gerir, þ.e. hvort þú leggur í þann kostnað sem fylgir stórviðgerð af þessu tagi. Þú getur haldið áfram að nota bílinn - fylgist bara vel með smurolíunni á vélinni (mæli með Mobile One 5w-30 og nýjum kertum en saman mun það minnka olíubrunann eitthvað) en mátt búast við grænum miða í næstu skoðun vegna mengunar.

180
Ford F-150 h
nökrar, rafmagnsleysi, eyðsla o.fl.
Spurt: Ég keypti nýlega Ford F150, árgerð 2003. Hann er með 5,4 lítra V8-bensínvél og sjálfskiptingu. Frá fyrsta degi í minni eigu hefur hann hoggið og nötrað allur fyrst eftir að sett er í bakkgír en jafnar sig þegar hann er kominn á hreyfingu. Fyrri eigandi segist ekki kannast við þetta. Get ég gert kröfu á hann að laga þetta? Svo er annað; hann á það til að afhlaða rafgeyminn þegar búið er að drepa á vélinni; geymirinn virðist vera i lagi og hann hleður hann. Stundum gerist þetta á 5 mín. rétt á meðan skroppið er frá. Hraðastillirinn (cruise control) virkar ekki. Hvað getur valdið því og hvernig get ég minnkað svakalega eyðslu bílsins?

Svar: Lýsingin bendir til bilunar í ventlaboxi eða öftustu kúplingu (bakkgír). Láttu athuga þetta hjá Jeppasmiðjunni (Ljónsstöðum við Selfoss). Samkvæmt reglugerð (www.us.is) um sölu notaðra bíla sýnist mér að fyrri eigandi sé ekki laus við málið.
Rafmagnsleysið: A. Botnfallinn, ónýtur rafgeymir. Álagmælingu (ókeypis hjá rafgeymasal) þarf til að staðfesta það. B. Bilaður stefnuliður í spennustilli alternators afhleður geymi með beinni útleiðslu. Hraðastillirinn: Biluð leiðslufjöður (clock spring) undir stýrishjólinu er algeng orsök þess að hraðastýring virkar ekki. Varúð: Vegna öryggispúða þarf rafgeymir að hafa verið aftengdur í 5 mínútur áður en átt er við stýrishjólið og á meðan á viðgerð stendur. Eyðsla: Tölvukubbur getur minnkað eyðslu um 15-25%. Talaðu við IB á Selfossi (480 8080).

Kkóðalesari - er það dýrt tæki?
Spurt: Bilunarljós sem kviknar í mælaborðinu eru vond skilaboð um væntanleg útgjöld. Sögur ganga um dýran kóðalestur hjá verkstæðum, jafnvel gagnslausan. Get ég keypt kóðalesara og notað án þess að vera ,,sérfræðingur" - jafnvel tæki sem borgar sig eftir nokkra kóðalestra?

Svar: Tölvubúnaður verkstæða er meira en kóðalesari. Þau fjárfesta ekki milljónir í tækjum nema af nauðsyn. Kóðalestur með bilunargreiningu á verkstæði hérlendis kostar um og innan við 10 þús. kr. Það er ekki dýr þjónusta miðað við vinnusparnað og/eða forvarnargildi. Hins vegar fást einfaldari tæki, sem lesa og jafnvel skýra bilunarkóða flestra tegunda bíla, m.a. hjá Poulsen í Reykjavík. Þau kosta 18-63 þús. kr. Hægt er að fá bækling (Verkfæratilboð) sendan í pósti með tæknilýsingu (s. 530 5900). Forsenda þess að geta notað slíkt tæki er enskukunnátta.

,,Vélarstilling fylgir með"
Spurt: Verkstæði Nikolai í Reykjavík auglýsir tímareimarskipti í hljóðvarpi og segir ókeypis vélarstillingu fylgja með. Finnst þér ekki einkennilegt að keppinautar skuli ekki hafa gert athugasemdir við þennan viðskiptahátt?

Svar: Mér finnst að Neytendasamtökin ættu frekar að svara spurningum um viðskiptahætti. En tæknilega hliðin er þessi: Með vélarstillingu er yfirleitt átt við aðgerð sem bætir bruna, jafnar og/eða mýkir gang vélar, eykur afl og sparneytni. Að frátöldum mjög gömlum bílum er ekkert sem á, þarf eða má stilla í bensínvél. Ventlabil getur aukist vegna olíuleysis og/eða skemmda en lagfæring á því er meira mál en endurnýjun tímareimar. Bilanagreining er ekki vélarstilling. Því er hæpið að það tvennt eða annað hvort geti verið þessi ,,ókeypis vélarstilling." Sú ókeypis þjónusta sem auglýst er að fylgi endurnýjun tímareimar hjá Nikolai er a.m.k. ekki vélarstilling eins og flest fólk skilur það hugtak. Því ætti fyrirtækið að nefna þjónustuna réttu nafni til að vekja ekki falsvonir hjá bíleigendum.

Meira brotajárn

Aftur á aðalsíðu

Tæknigreinar

PISTLAR