Leitarvél: Hægt er að leita uppi valið efnisorð í textanum. Stutt er samtímis á Ctrl og F og orðið skrifað í gluggann.
Copyright ©: Leó M. Jónsson. Öll réttindi áskilin.

Brotajárn nr. 29
(Ath. Af gefnu tilefni er vakin athygli á að textinn sem hér birtist er svarið sem viðkomandi fær við spurningu með tölvupósti. Það sem birtist í Bílablaði Morgunblaðsins getur verið stytt vegna þess að rýmið í blaðinu er takmarkað við ákveðinn stafafjölda. Myndatextar í Mbl. er samdir af starfsmönnum þess).

Viðgerðir á vélar-, sjálfskipti- og driftölvum bíla!
Varahlutalagerinn á Smiðjuvegi 4a í Kópavogi (áður Vatnskassalagerinn) sendir bilaðar vélartölvur út til Bretlands til viðgerðar. Með því getur bíleigandi sparað sér hundruð þúsunda króna. Varahlutalagerinn hefur fengið nýtt símanúmer fyrir þessa þjónustu - 699 3737.

144
Gert við sprungu í drifhúsi
Spurt: Við urðum fyrir því óhappi að reka framdrifna smábílinn okkar niður á grjótnibbu. Höggið sprengdi drifhúsið sem er úr álblöndu. Sprungan veldur minniháttar olíuleka af drifi og gírkassa. Hjá umboðinu var okkur sagt að taka þyrfti drifhúsið úr bílnum, tæma það og flytja innihald gírkassa og drifs yfir í nýtt drifhús. Hugsanlega mætti sjóða í sprunguna og nota gamla drifhúsið áfram. Í báðum tilfellum myndi viðgerðin kosta 200-350 þús. kr. Er hægt að leysa þetta mál á hagkvæmari hátt?

Svar: Oft má laga svona sprungur án þess að taka drifhús úr bílnum og án sérverkfæra. Nota verður epoxy-viðgerðarefni sem þolir 120 °C og þolir þenslu og samdrátt vegna hitabreytinga. Eitt þeirra er Bison epoxy-steypa (56g stautur kostar um 1000 kr. í Húsasmiðjunni). Tjakkaðu bílinn upp og settu stultur undir. Láttu bílinn halla þannig að olía renni frá sprungunni. Tappaðu olíu af drifi/gírkassa og láttu tæmast yfir nótt. Þrífðu svæðið umhverfis sprunguna með bursta og "Contact Cleaner" (úðabrúsi sem fæst á næstu bensínstöð) og láttu þorna. Settu upp hanska og hlífðargleraugu. Opnaðu sprunguna yst með slípiskífu þannig að hún verði v-laga. Farðu varlega. Fylgdu sprungunni nákvæmlega og þannig að v-ið verði ekki breiðara en 5 mm. Gættu þess að dýpka ekki/opna ekki sprunguna. Úðaðu því næst "Contact Cleaner'' í sárið og láttu þorna. Hitaðu sárið með hárþurrku þar til sprungusvæðið hefur náð 25 - 30 °C. Gættu þess að ekkert olíusmit sé í sárinu. Settu upp einnota hlífðarhanska. Lagaðu hæfilegt magn af epoxy-steypunni og þrýstu henni í sprungusárið þar til það er sléttfullt. Leyfðu efninu að storkna í 4-5 tíma. (farðu eftir leiðbeiningum sem fylgja Bison-efninu). Helltu réttu magni af réttri olíu á drif/gírkassa (upplýsingar eru í handbók bílsins). Sé um stærri viðgerðir á steypugóssi að ræða fæst sérhæft iðnaðar-epoxy-viðgerðarefni í stærri umbúðum hjá Landvélum (áður hjá Ístækni).

Hjólkoppar: Ábending
Lesandi sendi línu og nefndi m.a. að verð á einum hjólkoppi af upprunalegri gerð væri komið í 15 þús. kr. hjá einu bílaumboðanna og stykkið af upprunalegri sporfelgu úr léttmálmi jafnvel komið yfir 100 þús. kr. Það skyldi því ekki koma á óvart þótt þjófnaður færist í aukana. En vekja má athygli einföldu og ódýru ráði sem getur komið í veg fyrir að hjólkoppar falli af í akstri, t.d. vegna höggs. Í bílabúðum og byggingarverslunum fást grönn bensli úr hvítu eða glæru plasti. Benslin eru tennt að innanverðu og strekkjast með tannlás á öðrum endanum. Með því að smeygja bensli inn fyrir götin á felgunni á tveimur stöðum má spenna hjólkoppinn fastan þannig að hann geti ekki dottið af. Auðvelt er að skera benslin með hníf eða klippa sundur með bítara þurfi að losa hjól. Stundum gengur fólki illa að festa plasthjólkopp sem stundum skekkist og brotnar við átökin. Með því að úða WD-40 eða sambærilegu efni á festiklemmur koppanna er auðveldara að smella þeim á felgurnar. Víða erlendis selja bílabúðir lásrær, þ.e. felgurær sem torvelda þjófnað á hjólum undan bílum. Notuð er ein lásró á hverja felgu.

Rispur í lakki: Lagfæring
Flestir bílar eru núorðið sprautaðir með vatnsgrunduðu tveggja laga lakki; grunnlit og glæru yfirlakki. Rispur í glæra yfirlakkinu geta verið áberandi þótt þær séu grunnar, sérstaklega sé undirliturinn dökkur. Oft má meðhöndla rispurnar þannig að þær hverfi. Til þess er notað sérstakt fljótandi efni sem inniheldur slípimassa, t.d. "Paint Cleaner'' frá Meguiar's, borið fram sem „MAG-VÆERS’’, (Málingarvörur ehf.) eða "Paint Cleaner'' frá Sonax (N1). Rispan er nudduð með efninu þar til hún er horfin. Gæta þarf þess að efnið nái ekki að þorna á fletinum. Til að eyða áhrifum slípunarinnar og til að skerpa gljáann er svo borið á flötinn "Quick Detailier,'' frá Meguiar's. Á sumum nýjum bílum er ný gerð glæru sem þenst við að hitna í sólarljósi þannig að rispur eyðast og hverfa sjálfkrafa. Hún er frá þýska Glasurit.

Mercedes-Benz C220 CDiT 2006
Sú var tíðin að Benz-dísilbíll var ákveðin trygging fyrir gæðum og rekstraröryggi enda dýrari en aðrir bílar. Svo virðist sem upp úr 1996 hafi þessi trygging horfið - sumir fullyrða að s.l. áratug hafi Benz verið ávísun á tíðar og dýrar bilanir. Um 1996 hefðu fáir trúað því að fyrirtæki myndu afþakka Benz-umboð - hvað þá að Benz-umboð færi á hausinn. Stórmennskudraumar yfirstjórnenda Daimler-Benz, m.a. sú stefna að Benz skyldi taka upp framleiðslu smábíla ásamt því að leggja undir sig bandaríska markaðinn með kaupum á Chysler, gekk næstum af þessu virta þýska iðnaðarstórveldi dauðu. Afleiðingarnar eru m.a. þær að Mercedes-Benz er ekki sú trygging fyrir gæðum sem áður var en það sést m.a. á því að Benz hefur um árabil verið undir meðaltali á listum JD Power yfir gæðastig bíla. Hér áður fyrr gat maður gengið að því vísu að eldsneytiskerfið í Benz væri frá Bosch og þar með í hæsta gæðaflokki. Því er ekki lengur að heilsa. Forðagreinarkerfið í C220 turbódísil (150 hö) er frá Delphi. Í fljótu bragði mætti ætla að það þýddi að eldsneytiskerfið væri hannað, þróað og framleitt af þessu bandaríska risafyrirtæki á sviði tölvu-og rafeindatækni. Svo er ekki. Delphi-eldsneytiskerfi Benz-dísilvélanna í fólksbílunum er upprunnið hjá fyrrum Lucas-samsteypunni í Bretlandi - vörumerki sem lengst af var þekktast fyrir að vera lélegra en flest annað á markaðnum („Lucas fann upp myrkrið,’’ sögðu Bretar þegar rafkerfið gaf sig einu sinni enn!)
Án þess að fara út í langt mál skal bent á að bilanir í þessu Delphi-kerfi í Benz C220 CDiT (2148 rsm túrbódísilvélin) eru dularfyllri en gerist og gengur. Sem dæmi má nefna 2006 árgerð sem byrjaði að drepa á sér og ganga óreglulega öðru hverju en lagaðist á milli og var eðlilegur nokkra daga. Svo neitaði vélin að fara í gang. Kóðalestur gaf enga niðurstöðu. Allt var prófað en án árangurs. Loks, eftir langa mæðu og mikil heilabrot, kemur í ljós að allir fjórir (raf)spíssarnir eru ónýtir. Í ljós kemur að um galla er að ræða sem Benz bætir sé bíllinn enn í ábyrgð. Jafnvel bifvélavirkjum með áratugareynslu af dísilvélaviðgerðum er vorkunn þótt þeim hugkvæmist ekki að allir spíssar geti orðið ónýtir samtímis í dísilvél bíls sem er í notkun daglega (leigubíll). En alltaf er maður að læra!

MMC Galant 2.0 GLSi
Spurt: Ég og er með Galant ´93 2.0 glsi sem dó á ferð og fer ekki í gang aftur. Hann startar en tekur ekkert viðbragð og hann fær bensín
Er eitthvað sem þér dettur í hug sem gæti verið að ?

Svar:Ónýtur Crank sensor (toppstöðunemi) . Þú gætir fengið hann á einhverri partasölu. Fleira kemur til greina en eðlilegt að byrja á þessum skynjara sem gæti kostað á partasölu svipað og kóðalestur á verkstæði, sem væri næsta skref.

143
Þú hefur 2 ár til að kvarta
Spurt: Er með Musso 2001. Heddpakkningin fór eftir 110 þús. km og var skipt um spíssa í leiðinni. Frá því hefur bíllinn verið ómögulegur, eyðir meiru og er kraftminni og háværari. Þetta var gert hjá verkstæði í águst 2008. Þar vilja stjórnendur ekki gera neitt úr þessu og greinilegt að þeim finnst ég vera nörd. Get ég gert eitthvað frekar?

Svar: Hafi aldrei verið endurnýjaður kælivökvinn á vélinni er engin furða þótt heddpakkning hafi gefið sig eftir 8 ára notkun (eðlileg endurnýjun er 3. hvert ár). Af lýsingu þinni að dæma mætti ætla að vélin sé rangt stillt á tíma (kambásinn) eða tími olíuverks sé rangur (sem gæti hafa gerst um leið og skipt var um heddpakkningu). Mér kemur á óvart viðbrögð verkstæðismanna. En hafirðu nýlega kvartað undan viðgerðinni, sem framkvæmd var fyrir 10 mánuðum, er ekkert skrítið þótt þeim finnist þú bregðast undarlega seint við. En hjvað sem því líður hefur þú 2 ár til að kvarta samkvæmt lögum nr. 42 um þjónustukaup. Eigir þú reikninginn geturðu leitað með kvörtun til FÍB eða Bílagreinasambandins (sáttamanns) sért þú félagi og viðkomandi verkstæðið aðili að BGS - annars til Umboðsmanns neytenda hjá Neytendastofu.

Fornmenn á meðal atvinnubílstjóra?
Spurt: Hvað segir þú um lausagang dísilvéla? Er það rétt sem maður heyrir að lausagangur sé hagkvæmur þegar dísilvél á í hlut, t.d. gagnvart eyðslu og mengun, í stað þess að drepa á og gangsetja. Mér finnst ótrúlega algengt að díselbílar séu skildir eftir í lausagangi með tilheyrandi mengun, sérstaklega stórir flutningabílar - að ekki sé nú minnst á rúturnar og leigubílana fyrir utan Leifsstöð.

Svar: Þetta er furðu algengur ósiður byggður á fordómum, vanþekkingu (ef ekki heimsku), sérhlífni og leti. Lausagangur eykur eyðslu og loftmengun en hefur ekkert með slitvörn að gera nái vél ekki að kólna niður í 20°C en til þess þarf hún nokkrar klukkustundir, jafnvel í köldu veðri. Ástæða þess að rútur og flutningabílar eru skildir eftir í gangi er fyrst og fremst sérhlífni og leti bílstjóra (sem nenna ekki að klæðast yfirhöfnum) og valda þannig óþarfa loftmengun til þess eins að halda hita í stjórnhúsi. Erlendis (og í nokkrum mæli hérlendis) eru stórir dísilbílar búnir sérstökum olíumiðstöðvum sem halda hita í stjórnhúsi. Framleiðendur bíla og vinnuvéla mæla undantekningarlaust með því að drepið sé á vélum þeirra frekar en að þær séu látnar ganga án álags. Nýjustu bílar eru þannig útbúnir að vélar þeirra drepa á sér sjálfvirkt þegar stöðvað er og beðið við umferðarljós! Nýrri dísilbílar, búnir sjálfvirkt hreinsandi sótagnasíum, eru töluvert vistvænni en sambærilegir bensínbílar. Og þá saka ekki að minna á að samkvæmt umferðarlögum er bannað að skilja bíla eftir í lausagangi.

Smærri skemmdir á leðurklæðningu má laga
Spurt: Ég varð fyrir því óhappi að oddhvass hlutur reif upp flipa á stærð við hálfa fingurnögl af ekta leðuráklæði á armhvílu innan á annarri framhurðinni í tæplega ársgömlum jeppanum mínum. Þótt skemmdin sé ekki stór er hún áberandi og mér til mikils ama. Sennilega má panta nýtt hurðarspjald fyrir morð fjár en áður datt mér í hug að spyrja hvort þú kunnir einhver ráð?

Svar: Sértu sæmilega laghentur geturðu gert við þessa skemmd þannig að hún verði ekki greinanleg. Þú ert heppinn að flipinn rifnaði ekki af og týndist. Hann er auðvelt að líma aftur í sitt far með réttri tegund líms. Vandasamast er að ganga frá samskeytum leðurs og gervileðurs (vinyl) þannig að ekki sjáist nein merki viðgerðarinnar. Til þess að vinna svona verk á sem faglegastan hátt færðu sérstakt viðgerðarsett fyrir ekta leður og leðurlíki hjá N1. Settið er frá Permatex (vörunr. 571-80902) og nefnist "Vinyl & Leather Repair Kit'' en í því eru áhöld, lím og 7 grunnlitir ásamt leiðbeiningum á ensku (m.a. myndir). Sýnt er hvernig rétti liturinn er blandaður og sýnd réttu handtökin við viðgerðina. Ég hef notað þetta sjálfur með góðum árangri en bendi á að vænlegt til árangurs er að prófa viðgerð á svipuðu efni áður, ekki síst til að ná sem bestum tökum á litblönduninni.

142
Algengt vandamál varðandi kælikerfi
Spurt: Ég er með Nissan Patrol árg. '00 og er í vandræðum með miðstöðina. Hún blæs köldu þegar vélin gengur lausagang og þótt hitamælirinn sýni eðlilegan vinnsluhita. Þegar vélin vinnur undir álagi fer miðstöðin að blása heitu. Nógur vökvi er á kælikerfinu. Getur þetta verið vatnslásinn?

Svar: Nei - þá myndi hitamælirinn ekki sýna eðlilegan vinnsluhita. Væri vatnsdælan orðin slöpp myndi vélin hitna óeðlilega undir álagi. Líklegasta orsökin er stíflað miðstöðvarhitald vegna útfellingar. Þrátt fyrir að það standi skýrum stöfum í handbók allra bíla með vél með hedd úr áli, að endurnýja skuli kælimiðil (skola út) á 2-3ja ára fresti, virðast íslensk bílaverkstæði, með fáum undantekningum þó, yfirleitt hunsa þau fyrirmæli. Fyrir bragðið er útfelling í kælikerfi og ótímabær og kostnaðarsöm endurnýjun heddpakkninga, vegna tæringar, nánast daglegt brauð hérlendis en nánast óþekkt t.d. í Noregi þar sem endurnýjun kælivökva (og bremsuvökva) er fastur liður í ábyrgðarþjónustu!
Þegar vélin er heit og gengur lausagang skaltu stilla miðstöðina á hámarkshita og fullan blástur. Taktu með berum höndum á miðstöðvarslöngunum uppi við hvalbakinn. Önnur þeirra á að vera áberandi heitari en hin: Sé svo er loftspjald í miðstöðinni óvirkt; sé svo ekki er hitald miðstöðvarinnar stíflað. Stundum má hreinsa hitaldið. En stundum tekst það ekki eða hitaldið fer að leka eftir hreinsun vegna tæringar (nýtt hitald gæti fengist á hagstæðu verði hjá Gretti vatnskössum á Vagnhöfða). Losaðu slöngurnar af stútunum uppi við hvalbakinn eða þar sem þær tengjast vélinni, sé það auðveldara. Reyndu að tæma hitaldið með því að blása í aðra slönguna. Helltu vatnskassahreinsi (fæst á næstu bensínstöð) í aðra slönguna þannig að hann nái inn í hitaldið. Lokaðu hinni þegar rennur út. Láttu efnið vinna í 10 mín. Skolaðu hitaldið með vatni. Endurtaktu þessa aðgerð þar til útrennslið hefur aukist og er hreint. Losni óhreinindi greinilega úr hitaldi miðstöðvarinnar skaltu blinda stútana eða slöngurnar og setja hreinsiefni á kælikerfi vélarinnar (samkvæmt leiðarvísi á umbúðum). Þegar skolun með heitu vatni skilar hreinu út úr neðri hosu vatnskassans er kerfið tengt á nýjan leik og fyllt upp með kælimiðli af þeirri gerð sem tiltekinn er í handbók bílsins (Antifreeze/Coolant). Verðmunur á kælimiðli getur verið mikill. Rauður Comma (N1) hefur 5 ára tæringarvörn. Sérhæfður kælimiðill fæst hjá IB ehf. á Selfossi, Poulsen í Rvk. og víðar. Kælimiðil á að blanda til helmings með vatni.

Driflokur á Musso
Spurt: Get ég sett handvirkar driflokur á Musso 2001 sem er med fjarstýrðum (ónýtum) framdrifslokum? Ég er með driflokur í sigtinu sem nefnast "Super Wince'' og fást fyrir stuttu Dana/Spicer 30-hásinguna.

Svar: Dana/Spicer 30 nær ekki til hjólnafa og búnaðurinn því ólíkur þótt sjálf hásingin sé sé sama. Í Musso eru notaðar WARN-driflokur fyrir Nissan. Þeim er breytt með því að renna ytri slífina í ákveðið mál. Þær hafa fengist þannig breyttar hjá umboðinu. Þú getur ekki notað lokur frá „Super Winch’’ óbreyttar. Hins vegar getur Árni Brynjólfsson rennismiður í Hafnarfirði breytt þeim fyrir þig þannig að þær passi í Musso og þannig yrðu þær sennilega ódýrari en hjá umboðinu.

Hvítmálmur
Spurt: Mig langar að spyrja: Hvað er hvítmálmur?

Svar: Blanda úr eir, antimon, zinki, tini, blý o.s. frv. í ýmsum blöndunarhlutföllum. Hvítmálmstegundum eru gefin ýmis nöfn, t.d. babbit, þar sem aðalefnið er tin eða blý með hlutfallslega mikið antimon. Hvítmálmurinn er að byggingu blanda harðra og mjúkra kristalla eða agna. Hörðu agnirnar bera álagið en þær mjúku halda í sér smurolíu.

VW Golf Station 2004 afturhleraspjald og læsing
Spurt: Ég er með Golf station 2004 svokallaðann 4Motion, ágætisbíll en greinilega ekki mikil hugsun í sambandi við hurðaropnara og læsingar, það fór að bera á því að það var orðið erfitt að opna afturhlerann með takkanum aftan á hleranum og síðan var það hreinlega ekki hægt, okkur datt í hug að smyrja takkann með fine lup og eitthvað lagaðist hann við það, en mig langaði að taka spjaldið að innan verðum hleranum úr til að komast betur að þessu og koma feiti þarna í. Ég losaði tvær litlar skrúfur sem eru í tveimur handföngum á hleranum og hélt að þar með gæti ég smellt klæðninguni af hleranum en aldeilis ekki. Þannig að ég spyr hvernig er þetta eiginlega losað úr?

Svar: Algeng ástæða þess að erfitt er að opna þessa afturhlera á VW er að læsingin er rangt stillt frá upphafi, þ.e. stillingin á læsingarjárninu í dyrakarminum og einungis lítilsháttar óhreinindi eða stirðleiki getur þá valdið því að fjarlæsingin hætti að virka á skuthurðina/hlerann. Því miður þekki ég ekki þetta verk varðandi losun hurðaspjaldsins og því einungis um ágiskum að ræða. Flestum svona spjöldum er fest á miðjunni með skrúfum (í handföngum og/eða faldar undir hlífum sem smellt er af) - en það er gert til að spjöldin glamri ekki í akstri og þegar dyrunum er lokað. Skoðaðu spjaldið og reyndu að ímynda þér hvar þú myndir setja skrúfur til að það glamraði ekki - jafnvel í gegnum ytra handfangið/númersljósabrúna. Algengast er að plastsmellur séu á jöðrunum og þær losaðar með því að renna spaða undir og spenna út. Ath. Kunni einhver lesandi betri eða réttu aðferðina við að losa þetta spjald væri ábending vel þegin á leoemm(hjá)simneti.is

Subaru Station 1999 gangtruflun
Spurt: Þetta lýsir sér svona: Ég keyri frá Rvk. til Leifsstöðvar, allt í einu fer bíllinn að nötra á 90, ég lækka hraðann í 80, hann nötrar enn og ég sé að snúningshraðamælir er að skríða yfir 3. Ég lækka í 60 og bíllinn er slakur en hættur að nötra, ég eyk hraðann aftur skömmu síðar og nú virðist hann í lagi en sagan endurtekur sig einu sinni nokkru síðar og svo skyndilega (á jafnsléttu) hættir hann að erfiða og snúningshraðamælir sýnir tæpa 2. Bíllinn er svo í lagi á leiðinni heim. Þegar heim til Rvk. er komið legg ég bílnum, ætla af stað aftur um klst. síðar og þá fer hann ekki í gang í fyrstu þremur tilraunum, höktir bara. Ég hætti að reyna, reyni aftur skömmu síðar og þá fer hann í gang. Ég hef ekki keyrt hann síðan (þetta var á sunnudaginn). Mér finnst líklegt að það þurfi að jafnvægisstilla dekk - hann titrar alltaf aðeins í stýri og eins og það leiti til vinstri þegar hraði eykst, en þetta er eitthvað annað.
Veistu hvað þetta gæti verið og geturðu bent mér á verkstæði hér á Rvk-svæðinu með hófleg verð?

Svar: Þessi ágæta lýsing þín bendir til þess að þetta sé einhver truflun í eldsneytiskerfinu - þyrfti ekki að vera alvarlegra en að endurnýja þurfi bensínsíuna, a.m.k. myndi maður byrja á því og sjá hverju það breytti og í framhaldi skoða loftsíuna. Talaðu við Sigurð hjá Bílahaga (893 3510) - geti hann ekki komið bílnum að hjá sér bendir hann þér á annað sanngjarnt verkstæði.

Smurolía - fjölþykktarolíur - seigjusvið - rennslishraði/þykkt
Spurt:
Er með smá fyrirspurn um smurolíur. Skiptir það miklu máli hvaða olía er sett á bílinn? Er með Ford Mondeo TDCI 2006 árg. Með bílnum stendur á blaði frá umboðinu að það eigi að fara á hann 5w-40. Það virðist samt fara eftir smurstöðvum hvað sett er á hann. Tvö skipti hefur verið sett á hann 5w-30 en núna síðast þegar ég fór með hann á aðra smurstöð þá var sett á hann 5w-40.

Svar: Þessi flokkun (eða mælikvarði) nefnist seigjusvið og gildir fyrir svokallaðar fjölþykktarolíur (rennslishraði á ekki að breytast með hitastigi). Því meiri mismunur sem er á tölunum því víðara er seigjusviðið. Það þýðir að rennslishraði (þykktin, á mannamáli) á að vera sá sami á víðara varmasviði. (5w-40 er 10 gráðum víðara svið en 5w-30). Þessi eiginleiki olíunnar er fenginn með íblöndun fjölþykktarefna. Gæði fjölþykktarolíu ræðst að hluta af því hve lengi þessi fjölþykktarefni endast (API-flokkun) en þau eyðast úr öllum smurolíum á misjafnlega löngum tíma (notkun) og þá þykknar hún eða þynnist eftir hitastigi og er þá ónýt.
Seigjusvið fjölþykktarolíu skiptir meira máli í Þýskalandi en á Íslandi. Ástæðan er heitara loftslag að sumri og breytilegra álag (ótakmarkaður hraði á átóban). Þetta skiptir minna máli hér á Íslandi, ekki síst hér á suðvestur-horninu sem er nærri því að vera "þýskt haust'' allt árið. Ég myndi ekki hafa nokkrar áhyggjur af þessu í þínum sporum. Í Mondeo 2006 skiptir mestu máli að API-gæðaflokkun olíunnar sé í samræmi við það sem framleiðandi bílsins gefur upp í handbók. Minna máli skiptir hvort seigjusviðið sé 5w-30 eða 5w-40.

Kia Sorrento - inngjöf hrekkur úr sambandi
Spurt:
Ég keypti Kia Sorento dísel 2.4 ,og fór í jómfrúarferð á honum vestur á firði. Bíllin reyndist mjög vel,fór vel um bílstjóra og farþega,og eyðslan 8 - 9 l/100 km. Þegar farið var yfir Þorskafjarðarheiði varð vegurinn verri; aurbleyta og holóttur. Málið er að þegar t,d bæði framhjólin lentu í holu samtímis og maður fann höggið þá var eins og inngjöfin færi úr sambandi. Þegar drepið var á og startað fór hann strax í gang og allt í lagi, þoldi mikin hristing en ekki högg. Hefur þú eitthvað heyrt um svona?

Svar: Kia Sorrento er með inngjöf sem er rafræn, inngjöfin er stiglaus rofi tengdur með rafleiðslum inngjafarkerfinu (Drive by wire). Af lýsingu þinni að dæma er einhvers staðar sambandsleysi, laust tengi eða slæmt jarðsamband sem hreyfist við högg. Þetta getur einnig verið vegna bilunar í inngjafar-rofanum sjálfum (eða TPS-skynjara/rofa). Til þess að yfirfara leiðslurnar þarf viðkomandi að hafa teikningu af rafkerfinu og einhverja kunnáttu og reynslu í bilanagreiningu. Kóðalestur mun ekki skila neinum árangri í þessu dæmi nema "Check Engine-ljósið'' lýsi, blikki eða hafi lýst stöðugt. Endurforritun vélartölvunnar (ecu) mun heldur ekki skila neinum svörum varðandi þetta vandamál. Þetta er nefnt vegna þess að sum verkstæði nota kóðalestur og endurforritun til að rukka fyrir - jafnvel þótt starfsmenn þess viti að afar litlar líkur séu á að það skili árangri nema vélarljósið lýsi stöðugt eða blikki.

Mustang 1965 V8 289 blöndungur
Svar: Mustang 65´Fastback, með upphaflegri 289 vél sem var tekin upp og endurbyggð fyrir 3 árum í USA.
Bílinn keypti ég í sept. Sl. ár, að sögn seljanda var blöndungurinn endurbyggður og stilltur fyrir ári síðan.
Frá því að ég fékk bílinn í hendur hafa verið stöðug vandamál með blöndunginn. Þrátt fyrir að skipt hafi verið um nálar og flotholt.
Allt sýnist í góðu lagi þegar keyrt er á stað frá verkstæði en eftir nokkurra klst. akstur er komið í óefni, hægra framhólf yfirfyllist af bensíni og lætur ekki að stjórn, veruleg bensínlykt er af útblæstri þótt bíllinn sé vel heitur, bíllinn drepur á sér á gatnamótum sérstaklega ef tekið er róleg á stað. Dæmi eru um það að bensín flæði út út úr blöndungnum. Skipt hefur verið um bensíndælu án þess að árangur til hins betra hafi náðst. Þrýstingur á flæði bensíns inn á blöndunginn virðist vera eðlilegur eftir hverja stillingu. Kanntu einhverja skýringu á þessu?

Svar: Það er væntanlega flothlotshæðin sem er rangt stillt eða bilaður flothólfsloki og ætti ekki að vera mikið mál að laga það sé "rétt'' þekking fyrir hendi. Prófaðu að tala við Kristján Erlendsson bifvélavirkjameistara í Keflavík (895 5662) - hann er einn af fáum sem enn kann á á þennan blöndung og fleira í þessum bíl.

SsangYong Rexton stýrisvél sem lekur
Spurt: Ég er með Rexton 2006 2.7 tdi og í síðustu viku varð ég var við leka í stýrismaskínu. Ég hafði samband við þjónustuaðila Bílabúðar Benna til að kanna hvort bíllinn væri enn í ábyrgð og var tjáð að svo væri ekki (ekinn 61000) og að stýrismaskínan væri ónýt og ný kostaði 150000 + kostnaður við skipti og hjólastillingu. Er einhver möguleiki að gera við þetta vandamál (lekur upp með öxlinum sem tengist við stýrið.) eða veistu um ódýrari aðila sem selur varahluti í þennan bíl.

Svar: 150 þúsund krónur fyrir nýja eða endurbyggða stýrisvél þykir ekki mikið nútildags. Hins vegar skaltu tala við Svavar í varahlutabúðinni hjá umboðinu eða staðgengil hans því þú gætir farið miklu ódýrar út úr þessu. Hjá Svavari var til, a.m.k. í fyrra, þéttisett fyrir stýrishjólsöxulinn. Tvenns konar stýrisvélar eru í SsangYong jeppunum, annars vegar frá TRW og hins vegar frá Saginaw - Segi framleiðslunúmer bílsins ekki hvor tegundir er í honum má sjá það á hringlaga S-merkinu (Saginaw) á húsi stýrisvélarinnar fyrir neðan þenna öxul. Hjólastilling er dálítið orðum aukið - það er bara millibilið sem þarf að stilla þegar stýrisvélin er endurnýjuð en þegar þéttingarnar eru endurnýjaðar á stýrishjólsöxlinum þarf ekki að stilla neitt.

Renault Megane lekur kælivökva
Svar: Ég er með Megane árgerð 1998 með 1600 cc vélinni. Málið er að fyrir 6 mánuðum fór vélin að leka, líklega kælivökva, vélin er blaut fyrir neðan útblástursgreinina. Ég man samt ekki eftir því að hafa þurft að bæta vatni á hana. Ég veit samt að stýrisvélin smitar aðeins og ég þarf að bæta á hana hálfum brúsa af glussa á ca. 4 mánaða fresti. En þar sem stýrisvéling er staðsett langt til hliðar á vélinni (og bleytan er beint fyrir neðan pústgreinina) að þá finnst mér ólíklegt að þessi leki undan pústgreinini sé frá stýrisvélinni. Þetta er orðið soldið hvimleitt núna því þessi vökvi lekur á pústgreinina þar sem hún hverfur undir vélina og reykurinn (eiturgufurnar) fara inn með miðstöðinni þegar ég er á ljósum. Dettur þér eitthvað í hug hvaðan þessi bleyta er að koma?

Svar: Sennilegasta skýringin er leki með heddpakkningu. þar sem lekinn er út frá blokkinn en ekki inn í brunahólf geturðu prófað að setja vatnskassaþétti í kælikerfið - það gæti stöðvað þennan leka einhvern tíma. Vatnskassaþétti færðu á næstu bensínstöð. Þar eða hjá N1 færðu einnig efni sem minnkar eða stöðvar leka frá stýrisvél - í vökvanum er efni sem veldur því að þéttingar þrútna og hættir að leka með þeim.

Nissan Terrano II ýmsar bilanir
Spurt: Ég á Nissan Terrano II árg. 2000 með 2,7 díselvélinni. Hann er ekinn 210.000. Þessi bíll hefur reynst mér ákaflega vel í þau 9 ár sem ég hef átt hann. Nú bregður svo við að í hann eru hlaupin ýmis undarlegheit, flest rafmagnstegnd. Ég lét skipta um mælaborð hjá umboðinu um daginn þar sem hraðamælir var stundum með og stundum ekki, eldsneytismælir á núlli og gaumljós kveikt. Stafaglugginn (LCD) virkaði ekki heldur. Við þessa viðgerð lagaðist stafaglugginn, en hraðamælirinn er enn brokkgengur fer út og kemurinn inn í akstri og eldsneytismælirinn er enn á núlli. Ég hef ekki mikið álit á verstæði IH eftir þessa viðgerð. Þrennt í viðbót. Bíllinn er farinn að leka dísilolíu. Það virðist koma ofan af tanknum, væntanleg lek slanga. Annað veldur mér meiri áhyggjum þ. e. að sjálfskiptingin kemur undarlega inn þegar bíllin er tekinn af stað og þarf mikla inngjöf til að koma honum af stað. Eftir það er allt eðlilegt. Þetta gerist bara stundum. Forhitunin virkar ekki. Gaumljós kviknar en startið er greinilega kalt. Böndin berast stax að glóðarkertum. Er eitt eða fjögur kerti í svona bíl?
Spurningarnar varða sem sagt:
1. Eldsneytismælir: Hvað skoða ég þar?
2. Hraðamælir: Er þetta barki eða rafnemi. Hvað á að skoða?
3. Forhitun: Ráð um þau.
4. Hefur þú hugmynd um hvað ég á að gera við sjálfskiptinguna?

Svar: Þú færð faglega og trausta (Nissan) þjónustu hjá Bifreiðaverkstæði Friðriks Ólafssonar í Kópavogi.
Eldsneytismælir: Gæti verið samband á milli lekans ofan á geyminum og óvirks mælis - Sendirinn sem stýrir mælinum og rörið frá dælunni í botni geymisins eru áföst loki ofan á geyminum. Lekinn bendir til ryðtæringar sem jafnframt getur þýtt að sambandsleysi sé á tengjum frá sendinum í geyminum en þau eru í lokinu.
Hraðamælir: Til í dæminu að tiktúrur í honum hafi ekki verið vegna bilunar í tengjum mælaborðsins heldur vegna sambandsleysir (útfellingar) í tengjum hraðanemans (speed sensor) sem er í millikassanum aftast á undan afturskaptinu - þú finnur hraðanemann með því að leita að rafleiðslunum (útfellingin er oftast í plögginu). Stundum er tannhjól nemans, sem er úr plasti, slitið eða tannhjólið í millikassanum.
Forhitun: Það eru 4 glóðarkerti í þessari vél - eftir þessa notkun er kominn tími á þau. Ný glóðarkerti (NGK) færðu á hagstæðasta verði hjá N1. Um leið skyldi skoða öryggi fyrir forhitunina. Í einstaka tilfellum er bilun í stýrieiningu forhitunarinnar. En rökrétt byrjun er að endurnýja glóðarkertin.
Sjálfskipting: Af lýsingu þinni að dæma er skiptingin biluð og hætta á að sú bilun geti valdið dýrum skemmdum sé ekki brugðist við strax. Í þessari sjálfskiptingu eru rafsegullokar í ventlaboxi. Einn eða fleiri geta staðið á sér og valdið því að kúplingar nái ekki eðlilegum þrýstingi. Oft er það vegna þess að sía á upptökuröri í pönnunni er teppt af óhreinindum. Þá þarf að endurnýja síuna og vökvann og þrífa ventlaboxið um leið. Vísbending um það er dökkur vökvi sem lyktar af sóti (brunalykt). Ráðlegg þér að láta Jeppasmiðjuna við Selfoss athuga skiptinguna sem fyrst.

Lada Sport - hersla hedds og legubakka
Svar:
mig vantar smá tæknilegar upplýsingar. Ég og félagi minn vorum að hirða Lödu Sport sem við ætlum að reyna að lappa eitthvað uppá sem svona sumarverkefni eða því um líkt. Var að spá hvort þú hefðir aðgang að eða vissir eða veist um herslutölur fyrir hedd vélarninnar(orginal vélin fyrir 1600) og kannski líka fyrir höfuðlegubakkanna?

Svar: Heddið er hert í 4 áföngum: 4 Kpm, 8 Kpm, 11,5 Kpm, losað upp á bolta 90° og hert aftur í 11,5 Kpm. Hersuferli er venjulegt; byrjað á boltunum í miðjunni og stækkaður hringurinn þar til endað er á ystu boltunum. Veit ekki hver herslan er á sveifaráslegum en til samanburðar má hafa Volvo B16 og B18 þar eru stangarleguboltar hertir í 5,2 - 5,8 Kpm (38 -42 lb ft) og höfuðleguboltar í 11,9 - 12,9 Kpm (87 - 94 lb ft) - tek þó ekki ábyrgð á að það sé rétt fyrir Löduna en upphaflega Fiat-vélin er frá svipuðum tíma.

Metan í stað bensíns
Spurt: Mikið er fjallað um metangas á bíla. Hægt er að fá kaupta metanknúna bíla. Er einhver aðili hér á landi sem tekur að sér að breyta bensinknúnum bílum fyrir metangas?. Kannast þú við að hægt er að fá keypt breytingarsett fyrir bensinbíla hér heima eða í útlöndum? Fyrir nokkrum árum var mikið rætt um að breyta bíla til að keyra á flöskugasi en þá vorur einhver vandræði í sambandi við það. Skattaleg?

Svar: Upplýsingar færðu á www.metan.is Sendu þeim netpóst með fyrirspurn - þeir ættu að geta bent á verkstæði sem breyta bílum og selja nauðsynlegan búnað.

141
Hnökrar í rafknúnum rúðuvindum
Hliðarrúður renna í lóðréttu flókaklæddu falsi. Flókafölsin gegna hlutverki stýringar og þéttingar og eru þeirrar náttúru að þrútna ekki við að blotna. Hins vegar geta þau safnað í sig ryki þar til rúðan fer að stinga við eða stöðvast í falsinu, oftast á leið upp. Stöm rúðuföls má liðka á auðveldan hátt þannig að rúðuvindur vinni eins og nýjar. Rúðunni er rennt alla leið niður. Grönnum sívölum bursta (eða öðrum helmingi þvottaklemmu) er rennt upp og niður fölsin um leið og þau eru ryksuguð eða blásin. Á bensínstöðvum fæst silikón á úðabrúsum (sama efni og notað er á stirða rennilása á tjöldum). Silikón-efninu er úðað í fölsin og niður með rúðunni sem brátt rennur liðlega upp og niður á ný.

Peruskipti, ökuljós
Oft er erfitt að komast að til að losa og endurnýja perur í ökuljósum, sérstaklega þeim megin sem rafgeymirinn er. Stundum má sjá starfsmenn bensínstöðva glíma við þetta lítt öfundsverða verkefni. Margur bíleigandinn hefur bölvað hressilega við þessar tilraunir enda munu vera brögð að því að perur sitji ekki rétt í ljósunum. Öll ljósker eru hönnuð þannig nú til dags að stilling ökuljósa breytist ekki þótt ljóskerið sé losað og fest aftur. Oft er mun auðveldara og öruggara að endurnýja framljósaperur með því að losa ljóskerið og færa það framar. Algengt er að ljóskeri sé fest með þremur 6 mm boltum (10 mm lykill). Gæta skal þess að taka ekki á gleri perunnar heldur á perustykkinu. Perurnar hitna mikið og fita í fingrafari getur eyðilagt þær.

Ískrandi þurrkublöð
Þótt ískri í þurrkublöðum og þau þurrki illa er ekki þar með sagt að þau séu ónýt. Ástæðan getur verið tjara á vör blaðanna - tjara sem bindur í sér fín sandkorn og önnur óhreinindi. Auðvelt er að þrífa þurrkublöð. Svissað er af þegar þurrkuarmarnir eru í uppréttri stöðu. Armarnir eru spenntir upp og blöðin þrifin með tusku vættri með kveikjarabensíni eða ísvara (spritti); vör blaðanna núin þar til tjaran er uppleyst. Þá er borið yngingarefni á blöðin (Son of Gun, ArmorAll eða sambærilegt efni). Stundum getur ískrið verið vegna tjöru á rúðunni sem þá er meðhöndluð á sama hátt eða með sérstöku hreinsiefni fyrir bílrúður.

Truflaðir mælar í Ford Focus
Spurt: Ford Focus Ambient 2003 er að stríða mér. Snúnings- og hraðamælir detta stundum úr sambandi mislangan tíma saman eða hvor fyrir sig. Stundum lætur hitamælirinn sem dauður. Vélarljós í mælaborði á það til að lýsa ekki þegar svissað er á. Stundum er allt mælaborðið óvirkt. Þessar truflanir hafa engin áhrif á gang vélarinnar. Svo geta liðið mánuðir og allt er með felldu. Þegar spurst er fyrir hjá verkstæði umboðsins segjast þeir ekki vita hvað þetta geti verið!

Svar: Af lýsingunni að dæma er orsökin viðnám í aðaltengi mælaborðsins eða snertitengjum prentrása. Stundum er mælaborðið ónýtt og þarfnast endurnýjunar. Stundum má laga þetta með hreinsun tengja og snertiflata prentrásanna aftan á mælaborðinu. Auðvelt er að taka mælaboðið úr. Aftan á því er enginn hraðamælisbarki heldur borðatengi sem auðvelt er að losa. Öll sjáanleg útfelling er þrifin með Contact Cleaner (efni á úðabrúsa sem fæst á næstu bensínstöð). Til varnar gegn útfellingu eru snertitengi smurð með silikónfeiti, eftir hreinsun, (Dielectric Compound) sem fæst hjá N1, Stillingu, Poulsen og víðar. Áður en mælaborðið er sett aftur í er ráðlegt að leita uppi jarðsambönd (svartar leiðslur), losa, þrífa og smyrja þau með silikónfeiti.

Ónýtur bremsukútur í VW Polo 2006 Diesel
Spurt: Ég er með Polo Diesel 2006. Ég þurfti að bremsa dálítið snögglega. Uppfrá því hafa bremsurnar verið rosalega þungar, bremsa næstum ekki neitt nema stigið sé á af öllu afli en hann bremsar þó jafnt á báðum að framan. Enginn leki er sjáanlegur og forðabúrið er fullt. Hvað gæti verið að?

Svar (réttara sagt niðurstaða eftir talsverðar pælingar): Allur andskotinn bilar núorðið í VW. Þar sem ekki er nægilegt sog í inntaki dísilvélar er notuð sérstök dæla til að mynda undirþrýsting í kútnum fyrir aflbremsurnar. Þetta kerfi er að hluta til tölvustýrt (tengist stöðugleikakerfinu (Electronic Stabilization Program = ESP) og sjálfvirku aukaafli við nauðbremsun (EmergencyBrake Assistance = EBA), séu þessi kerfi í bílnum). Maður bjóst því við einhverri tölvubilun. Í ljós kom að sogkúturinn fyrir aukaaflið reyndist ónýtur. Það er í fyrsta sinn á mínum áratugaferli á sviði bíltækni sem ég veit um ónýtan sogkút í 3ja ára gömlum bíl enda leitun að einfaldari hlut enda endast þessir kútar oft bílinn. En þetta er nýi tíminn. Í VW-bílum og fleirum er núorðið rafknúið aflstýri, rafknúin handbremsa auk alls konar rafeindabúnaðar. Það væri í góðu lagi hefðu gæði rafkerfanna í þessum bílum aukist í stað þess að rýrna. Engin furða þótt bilanatíðnin sé með ólíkindum. Það sem vakti þó athygli mína, fyrir utan þessa óvenjulegu bilun, voru svörun sem eigandinn fékk hjá VW-umboðinu. Þar var honum tjáð í síma að það gæti kostað 200-300 þúsund krónur að endurnýja sogkútinn í bremsukerfinu. Hjá Bílvogi í Kópavogi (VW-þjónusta) kostaði þessi viðgerð hins vegar 49 þúsund krónur! Auk þess sem greinilega borgar sig að skipta við Bílvog er annað sem þetta dæmi kennir enn einu sinni - en það er að byrja bilanagreiningu aftast í verkferlinu. Í þessu tilviki (lýsingin á biluninni) er eðlilegast að byrja á að prófa hvort sogkúturinn virki en það er gert með venjulegri handknúinni sogdælu/prófunardælu.

140
Nissan 2.5 tdi
Spurt: Ég er að velta fyrir mér Nissan Pathfinder sem bjóðast á hagstæðu verði nú um stundir. Þú talar mjög vel um þennan bíl í bílaprófun á 2006 árgerðinni á vefsíðunni þinni en nefnir líka galla í Nissan dísilvélum í svari í gagnasafninu varðandi Navara 2003. Eiga þær athugasemdir við um vélarnar í 2006 og yngri Pathfinder?

Svar: Þær eiga við um 2,5 lítra túrbódísilvélina (tdi) með forðagrein (common rail) í stað olíuverks. Gallinn var sá að brunageisli spíssa gat brennt gat á stimpilkolla - í versta tilfelli þannig að vélin brotnaði. Nissan endurbætti spíssana og var ætlast til að skipt væri um þá á ábyrgðartímanum til að girða fyrir skemmdir. Sértu að velta fyrir þér kaupum á notuðum Nissan jeppa/jepplingi/pallbíl með 2,5 lítra forðagreinar-dísilvélinni skaltu kynna þér, eins vel og þú getur, hvað hafi verið gert við vélina á ábyrgðartímanum. Sé sjáanlegur reykur í útblæstri er dísilvél ekki í lagi. Nissan Pathfinder er bæði lipur og þægilegur lúxusjeppi.

Innrétting klæðning - þrif
Eftirfarandi er samantekt margra fyrirspurna:
• Þrífðu stýrishjól, gírhnúð, handföng geymsluhólfa og hurða og armhvílur með tusku vættri í volgu sápuvatni. Þér mun koma á óvart hve mikil óhreinindi (gerlar!) geta verið á þessum snertihlutum.
• Stamt gervileður eftir þrif, t.d. á stýri, má gera eins og nýtt með yngingarefni fyrir plast (Son-of-a-gun og sambærileg efni).
• Hundahár getur verið erfitt að ná úr tauáklæði eftir því hve mikið er af gervitrefjum í vefjarefninu (rafspenna). Sé strokið yfir sæti og klæðningu með einnota Latex-hönskum (fást í Bónus), vættum með rakri tusku, má skafa hundahárin saman og margfalda afköst ryksugu.
• Fitubletti (ís, kókómjólk, olía o.fl.) í tauáklæði er auðvelt að uppræta með réttum efnum og aðferðum. Reynið ekki að fjarlægja fitubletti með leysiefnum svo sem bensíni, hvítspíra eða þynni - með því móti stækkar bletturinn í stað þess að hverfa. Þess í stað skal nota sérstök lífræn niðurbrotsefni. Eitt þeirra er Undri blettahreinsir sem fæst víða, m.a. í matvörubúðum.
• Sætaáklæði og klæðningu er auðveldast að hreinsa með til þess gerðum lífrænum skúmefnum og svampi sem fást í sérverslunum og á bensínstöðvum. Nokkur fyrirtæki, t.d. Besta, leigja út sérstakar teppahreinsivélar. Með réttum hreinsiefnum, sem þessi fyrirtæki selja, má hreinsa teppi og innréttingu bíls á 2 klst. með ótrúlegum árangri.
• Óhreint og innþornað leður getur farið illa vegna sólargeislunar, það getur upplitast og sprungur geta myndast í ysta laginu.Ekta leður og gervileður má oftast þrífa á auðveldan hátt með volgu sápuvatni og tusku. Á ekta leður er síðan borin leðurnæring fyrir bílaáklæði. Það efni fæst á bensínstöðvum (Leather Cleaner & Conditioner). Með því mýkist leðrið, fær upphaflegan lit og gljáa, sprungur hverfa og yfirborðið óhreinkast síður.
• Gerviefni í mælaborði, hlífum, miðjustokk og annars staðar í innréttingu vilja upplitast og missa upprunalega áferð og gljáa.

  • Þegar þurrkublöð fara að ískra eða hnökra á rúðunni skaltu ekki vera of fljót/ur á þér að kaupa ný. Byrjaðu á að þrífa rúðuna með rúðuhreinsiefni. Láttu þurrkuarmana fara í toppstöðu til vinstri - svissaðu þá af. Spenntu svo upp þurrkuarmana. Skoðaðu þurrkublöðin. Séu þau óskemmd að sjá er ekki ástæða til að endurnýja þau með ærnum tilkostnaði. Vættu tusku með kveikjarabensíni eða ísvara og nuddaðu snertivör blaðsins. Þannig þrífurðu tjöruna sem hefur safnast fyrir og óhreinindin sem hún bindur í sér. Til að gera blaðið nægilega hált á ný og þannig að óhreinindi festist síður á því berðu á þau yngingarefni fyrir plast.
  • Notið aldrei leysiefni til að þrífa nema það sé sérstaklega mælt með því. Yfirleitt er auðveldast að fjarlægja óhreinindi af alls konar gerviefnum með volgu sápuvatni. Þannig er jafnframt minnsta hætta á að þau geti skemmst. Að þrifum loknum er notaður sérstakur yngingarúði fyrir gerviefni (Cockpit Reconditioner) á flötinn. Það efni getur gert kraftaverk þannig að innrétting fái aftur upprunalega áferð og glæsileika (og lykt). Þetta sama efni má nota á hliðar dekkja til að skerpa svarta litinn og gljáann.
    Ath. Um öll ofantalin hreinsi- og yngingarefni gildir að nauðsynlegt er að fara nákvæmlega eftir leiðbeiningum sem fylgja þeim. Röng notkun efnanna getur valdið skemmdum.

KN Enn um KN-loftsíur
Spurt: Mig hefur lengi langað til að spyrja þig um K&N loftsíur. Þannig er að ég hef keypt tímaritið Four Wheeler Magazine í rúm 30 ár og hef mikið af minni „visku" þar úr. Eitt af því sem ég hef tekið eftir er að þeir nota undantekningarlaust K&N-loftsíur í sínum „project-bílum."
„Til þess ad verja vélina betur gegn skaðsemi ryks og óhreininda," eins og þeir segja. Það er því engin furða þótt ég hafi staðið í þeirri trú að með K&N-síu væri maður að tryggja endingu vélarinnar. En nú skilst mér á því sem ég hef verið að lesa í Brotajárninu þínu þetta séu ef til vill ekki hinar einu sönnu staðreyndir lífsins og mér verður við eins og forfeðrum okkar hefur efalaust orðið þegar einhver „besservisser" sagði þeim að jördin væri hreint ekki flöt, eins og allir þóttust vita þá, heldur hnöttótt og vildu fá einhverjar sannanir fyrir þeirri nýju heimsmynd. Því langar mig að forvitnast um hvar ég gæti fundið þessar niðurstöður prófana sem þú nefnir í einu brotajárns-svarinu (mér tókst ekki að finna það aftur).

Svar: Ég var að svara KN-fyrirspurn fyrir nokkrum dögum - sem ég tel vera næsta bæ við pillurnar sem átti að setja saman við bensínið eða dísilolíuna (sömu pilluna!) til að minnka eyðsluna um 5-25% (og sumir komu hlaupandi til að kaupa minnsta skammtinn sem kostaði 5 þús. kr.). Ég hef grun um að Four Wheeler Magazine, sem ég þekki vel, mæli sjaldan með nokkrum hlut sem ekki er auglýstur hjá þeim á einn eða annan hátt, augljóslega eða öðru vísi - öll þessi stóru amerísku tímarit eru „á fóðrum'' og það hefur bara aukist með árunum + allur hálvitagangurinn sem er innan um í þessum amerísku tímaritum. Þetta er að vísu bara mín persónulega skoðun - enda ekki í vasanum á einhverjum sem auglýsir á Vefsíðu Leós. Ég man ekki lengur hvar þessi ákveðni samanburður var á Netinu sem ég vitnaði einhverju sinni til en það má finna hann með Google og leitarstrengjunum Air Cleaner Comparision, Air Filter Capacity eða KN Versus Conventional Air Filters.
Kv.
L.M.J.
------------
Ég hef lengi haft illan bifur á KN-loftsíum og ýmsar prófanir sem birtar hafa verið á Netinu hafa styrkt mig í þeirri trú að þetta sé sölubrella. Það sem meira er - ég tel mig hafa sannreynt það sjálfur að KN-loftsía hleypir í gegnum sig meiri óhreinindum en venjulegar (hefðbundnar) loftsíur og tel að ótímabæra eyðileggingu V8-vélar í einum af mínum bílum megi beinlínis rekja til KN-loftsíu (pottur og kónn). Aflaukningin sem KN auglýsir og þykist styðja með niðurstöðum alls konar prófana er einfaldlega vegna þess að viðnámið í síunni er minna - hún hleypir meiri óhreinindum og ryki í gegn um sig. KN-loftsíur eru rándýrar og auk þess þarf að kaupa sérstakan dýran vökva til að hreinsa þær (sniðuglega uppbyggður tekju-píramíti). Það er hægt að spara sér KN og fá ódýrari aflaukingu með því einfaldlega að sleppa lofthreinsaranum - vélin eyðileggst fyrr í báðum tilfellum. Sölusnilldin er í því fólgin að hleypa smásalanum að jötunni líka því þegar hann hefur selt þér síuna á hann eftir að míga á marga brúsa og selja þér sem sérstakan KN-hreinsivökva. Mín skoðun: Haltu þig við upprunalega hefðbundna lofthreinsarann eða notaðu stærri lofthreinsara af sömu gerð.

139
Fastur í bremsum
Spurt: Nissan Micra '99. Annað afturhjólið (skálar að aftan en diskar að framan) er fast eftir að að bíllinn stóð óhreyfður 6 rigningardaga í handbremsu. Búinn að prófa að bakka en hjólið losnar ekki. Hvað skal gera?

Svar: Þetta kemur fyrir hjá flestum tegundum bíla með skálabremsur að aftan. Losaðu felguboltana, tjakkaðu bílinn upp, taktu hjólið af og sláðu nokkur högg á bremsuskálina, sikk-sakk, uppi/niðri - hægri/vinstri með hamri. Sláðu ekki of fast (getur skemmt hjólleguna) en því oftar. Þá losna bremsuborðarnir sem eru grónir við skálina vegna saltmengunar. Gefðu hinu afturhjólinu sömu meðferð - til öryggis. (Séu ekki álfelgur undir, en þær þola ekki sleggjuhögg, nægir stundum að taka hjólkoppinn af og slá á ystu brúnir stálfelgunnar). Þetta er algengt vandamál eftir lengri geymslu á stæðunum t.d. við Leifsstöð þar sem saltrok er algengt . Alternatorar í Toyota vilja t.d. festast þar og brenna þá reimina af sér. Ráð: Notið ekki handbremsu við lengri tíma geymslu. Úðið WD-40 inn í alternator (en Toyota-alternatorinn og fleiri er með kæliop við trissuna) áður en bíllinn er yfirgefinn. því meira sem handbremsan er notuð dags daglega því minni hætta er á að hjól festist af þessum völdum. Hjá Securitas við Leifsstöð er enga þjónustu að fá en dráttarbílaþjónusta í Keflavík getur leyst málið sé tekið fram að einungis vanti sleggju til að leysa málið en flutningur óþarfur (minni kostnaður).

Hvenær er dempari ónýtur
Spurt: Hvernig merkir maður að demparar séu ónýtir (jeppinn minn er orðinn mjög hastur að aftan)? Er nóg að endurnýja einn dempara? Hver er eðlileg ending dempara? Eru gasdemparar mýkri? Get ég skipt um dempara sjálfur? Á maður einungis að nota dempara frá viðkomandi bílaframleiðanda?

Svar: Hlutverk dempara er ekki höggdeyfing heldur að halda fjaðrandi hjóli að undirlagi, þ.e. að tryggja stöðugt veggrip hjóls (ónýtir demparar auka því eldsneytiseyðslu). Óstöðugleiki, rás og hopp (bíll sem dúar á ferð); sjáanlegur leki utan á dempara, brotin gormaskál eða skrölt/ískur þegar beygt er (turndempari) eru algengustu merkin. Sé jeppi með hefðbundna fjöðrun (gorma eða blaðfjaðrir) óeðlilega hastur að aftan er það lélegum fjöðrum að kenna (bæling og samsláttur) og lagast ekki nema með því að endurnýja samtímis fjaðrir, dempara og jafnvel samsláttarpúða. Ending dempara fer eftir hleðslu bíls, notkun og aðstæðum. Í þéttbýli getur ryðtæring (tími) eyðilagt dempara frekar en álag og akstur. Bili dempari á ábyrgðartíma (galli) er eðlilegt að endurnýja hann. Séu demparar endurnýjaðir eftir að 3ja ára ábyrgð er útrunnin er reglan sú að endurnýja a.m.k. báða á sama hjólási. (Nitur)gas í dempara hefur ekkert með mýkt að gera. Gasið eykur þrýsting í demparanum sem hækkar suðumörk glussans þannig að demparinn þolir að hitna meira, t.d. í torfæruakstri án þess að glussinn sjóði en sjóði glussinn missir demparinn máttinn. Gasdemparar eru því nauðsynlegir fyrir fjallabíla. Enginn bílaframleiðandi framleiðir dempara og því er engin ástæða til að greiða meira einungis fyrir umbúðirnar og merkið. Helstu seljendur dempara eru N1, Stilling, Fálkinn, GS-varahlutir og Poulsen (Poulsen hefur oftast verið með besta verðið í könnunum Vefsíðu Leós). Gæði ódýrustu dempara fyrir venjulega fólksbíla og malbiksjeppa tel ég vera sambærileg hjá þessum aðilum. Verðkönnun borgar sig undantekningarlaust. Margir geta endurnýjað dempara sjálfir. Yfirleitt er þetta fljótlegt verk fyrir þá sem hafa til þess þekkingu og rétt verkfæri. Sumar betri smurstöðvar vinna þetta verk fyrir umsamið verð samhliða annarri þjónustu. Þá má bæta því við að ástæða þess að Koni-demparar (N1) eru svo dýrir eru tvær; annars vegar einstök gæði en hins vegar hönnun þeirra og bygging. Kaupa má varahluti í Koni-dempara og endurbyggja þá mörgum sinnum. Í fjallabíl er Koni því ákveðin fjárfesting.

Tímareimin: Hvað gerist þá?
Spurt: Hvað er það sem gerist slitni tímareim í bílvél?
Svar: Í flestum vélum með 3 eða fleiri ventla á hverju brunahólfi fer ekki saman stimpill í toppstöðu og ventill opinn til fulls - svo lengi sem sveifarásinn snýr kambás/um með tímareiminni. Slitni tímareim (yfirleitt örugg 90-120 þús. km. eða 5 ár) þegar vél er í gangi raskast samhæfing og stimpilkollar geta rekist í hausa opinna ventla. Skaðinn verður því meiri sem snúningshraði vélar er meiri þegar þetta gerist - jafnvel eyðilögð vél. Tímareimar voru teknar upp á sínum tíma í stað stálkeðja til að draga úr hljóði í vélum með ofanáliggjandi kambás. Nýjustu vélar eru nú aftur með tímakeðju úr sérstaklega útfærðum stálhlekkjum sem gerir þær jafn hljóðlátar og tímareimar. Tímakeðjurnar eru öruggar 160 - 250 þús. km, eða lengur, þær slitna við notkun en öfugt við tímareim þá fylgir slitinu aukið hljóð og því lítil hætta á að tímakeðja slitni sundur. Auk þess er stundum ódýrara er að endurnýja tímakeðju en reim, t.d. er tímakeðjan þrædd í margar Benz-vélar
.

Mercedes-Benz ML320 - stöðugar bilanir
Spurt:
Ég er með 2003 árgerð af Benz ML320 sem er síbilandi. Það hvimleiðasta eru gangtruflanir en ég hef þurft að láta skipta um eitt af háspennukefliunum og 2 af kertaþráðunum. Vélin hefur aldrei gengið almennilega lengi. Nú er hún farin að sleppa úr og ganga óreglulega í lausagangi - og eyðslan rokin upp úr öllu valdi. Sérfræðingar hjá umboðinu segja mér að skipta þurfi um alla kertaþræðina, eða a.m.k. þá sem enn eru upprunalegir og að það kosti með ísetningu um 100 þúsund krónur!

Svar: Fyrsta kynslóðin af „Alabama-Benzanum’’ (af árgerðum 1998 til og með árgerð 2003) eru afspyrnu lélegir bílar og áttu stærsta þáttinn í því að Mercedes-Benz hrapaði á listum yfir gæðamat og hefur verið undir meðaltali varðandi gæði undanfarin 7 ár. Þetta gamla gróna gæðamerki hefur orðið fyrir alvarlegum hnekki sem mun taka langan tíma að vinna upp og er, af sérfræðingum, talið skólabókardæmi um röng vinnubrögð í stjórnun, m.a. þar sem markaðshyggjan hefur komist upp með að stýra tækniþróuninni í stað tækniþekkingar. í þessum 3,2ja lítra V6-bensínvélum eru 2 kerti á hverju brunahólfi. Kertaþræðirnir eru því 12 stk. Upprunalegu þræðirnir hafa reynst lélegir. Þeir munu kosta hjá umboðinu hér heima um 95 þúsund krónur settið. En það er engin ástæða til að láta okra á sér í þessu efni. Þú getur fengið vandaðra kertaþráðasett (12 stk.) frá Bandaríkjunum fyrir innan við 40 þús. kr. Þú pantar þá á Netinu frá www.discountautoparts.com (senda í flugpósti) eða frá www.thepartsbin.com (sem þú getur látið www.shopUSA.is flyta inn fyrir þig eftir að þú hefur skráð þig sem viðskiptamann). Áríðandi er að panta kertaþráðasett frá BREMI. Þeir kosta um 180 dollara (43 þús. kr. til þín með öllum gjöldum samkvæmt reiknivél ShopUSA). Þú sparar þér 50 þúsund krónur og færð betri vöru en hjá umboðinu. Það er um 30 mín. verk fyrir laghentan mann að endurnýja þræðina. Ath. Upplagt er að endurnýja kertin í leiðinni - því þau kosta 5-6 dollara stykkið hjá þessum fyrirtækjum sem er hálfvirði (með öllum gjöldum) miðað við verðlag hér.
P.S: Ég er persónulega þeirrar skoðunar að bílaumboð sem stunda skefjalausa okurstarfsemi í þeirri trú að þau nái að bjarga sér - eigi að fá að fara í gjaldþrot - okrið mun hvort eða er ekki bjarga þeim nema hér verið sett á verslunarhöft að hætti Danakonungs forðum.

Chrysler 300C sem rásar
Spurt: Ég á Chrysler 300C árgerð 2005 með 5.7 lítra V8 Hemi-vél. Bíllinn uppfyllir allar mínar væntingar að einu atriði undanskildu - mér finnst hann ekki nógu stöðugur í akstri á beinni braut, það liggur við að hægt sé að segja að hann rási. Þegar ég keypti bílinn frá USA (tek sérstaklega fram að ekki var um tjónabíl að ræða) hafði honum verið ekið 50 þús. km og mælanlegt slit í munstri afturdekkjanna (Michelin 225/60 R18W). Ég pantaði sérstaklega 2 ný dekk sömu gerðar (Michelin) og setti þau nýju undir að framan og þau lítið slitnu undir að aftan. Þrátt fyrir nýju dekkin og réttan þrýsting og jafnan (32 psi) merkti ég enga breytingu - mér fannst bíllinn, eftir sem áður, ekki nægilega stöðugur - eða á maður að segja rásfastur? Ég fór með bílinn í hjólastillingu og var sagt að allar stillingar „væru innan uppgefinna marka’’ og ekki hefðu þurft að breyta neinni. Ekkert slit var merkjanlegt í framvagninum. Þegar ég spurði um hugsanlega ástæðu var mér sagt að þetta væri að öllum líkindum dekkjunum að kenna og bent á að prófa að lækka þrýstinginn í 28 psi. Það breytti engu. Ég átti þess kost að prófa sömu gerð af bíl, að vísu með V6-vél, og fann ekki fyrir þessu „rási’’ í honum - hann var eins og á teinum og einnig á Michelin-dekkjum af sömu gerð en þó ekki sömu stærð. Ég hef verið að spyrja fagmenn hver orsökin fyrir þessu gæti verið og fengið að heyra ýmsar kenningar mismunandi trúverðugar (ég er ekki algjör asni hvað varðar bíla). Svona bilun hlýtur að vera erfitt greina hafandi ekkert annað fyrir sér en þessa lýsingu mína en samt ætla ég að reyna hvort þú getir eitthvað aðstoðað mig í þessu máli?

Svar: Afturhjóladrifinn fólksbíll með klafafjöðrun að framan og á dekkjum með 23 sm breiðum sóla er mjög viðkvæmur hvað varðar vísun framhjólanna (innskeifur - útskeifur) - örfáir millimetrar geta skipt sköpum. Í þínu tilfelli tel ég nánst blasa við að bil á milli framhjóla að framan sé of mikið - ástæða þess að bíllinn virkar laus í rásinni sé of mikil útvísum framhjólanna, t.d. á 90 km/klst. Sé bilið minnkað, hjólin gerð innskeifari t.d. um 2 mm (stillt jafnt báðu megin) kæmi mér ekki á óvart þótt þú fyndir strax mun. Ástæðan fyrir þessu getur einfaldlega verið slæleg vinnubrögð hjá Chrysler (of mikil vikmörk leyfð við gæðaeftirlit). Hugsanleg ástæða þess að vísun framhjólanna „mælist innan uppgefinna marka’’ og millibilið því ekki verið minnkað getur verið ruglingur í grunnstillingu hjólastillingarbekksins. Halli og vísun hjóla í gagnabönkum fyrir ameríska markaðinn eru gefin upp í gráðum með ákveðnum vikmörkum (plús/mínus). Þær gráður eru, síðan 1995, nánast undantekningarlaust svokallaðar nýgráður, þ.e. með 100 strikum í gráðu í stað 60 eins og í eldra kerfinu. Eldri hjólastillingartæki eru einungis með gamlar gráður og þarf því að umreikna. Dæmi: Ákveðin uppgefin stilling í gagnasafni er 2,5 nýgráður. Bekkurinn sem notaður er sýnir einungis gamlar gráður. Það þýðir að uppgefnu 2,5 nýgráðurnar samsvara 60/100 x 2,5 = 1,5 gamalli gráðu. Nýrri hjólastillingartæki eru fyrir bæði kerfin en sá sem notar þau þarf að muna og kunna að skipta á milli nýgráða og gamalla gráða. Þetta er að vísu bara ágiskun mín - en hafi maður reynslu af „stýrisgeómetríu’’ veit maður að rásfesta byggist á því að framhjól vísi ekki of mikið út á við. Eftir að þú hefur látið minnka millibilið skaltu fylgjast með jöðrum framdekkjanna. Sé sjáanlegt slit á ytri jöðrunum er millibilið of lítið að framanverðu en sé sjáanlegt slit á innri jöðrunum er millibilið of mikið- þarna á milli er rétti punkturinn án ráss og án slits (dekkið slitnar á þeim jaðrinum sem er á undan). Í þessu dæmi geng ég út frá því sem gefnu að réttur loftþrýstingur sé í dekkjum, hjóllegur í lagi og án slits/hlaups, stýrisupphengja og aðrir slithlutir í lagi. Bendi jafnframt á að þegar talað er um jákvæða vísum framhjóla (+ toe-in) er átt við innvísun að framan en útvísun þegar gefin er upp neikvæð vísun (- toe-in) eins og er yfirleitt á framdrifsbílum.

Meira brotajárn

Aftur á aðalsíðu