Leitarvél: Hægt er að leita uppi valið efnisorð í textanum. Stutt er á Ctrl-F og orðið skrifað í gluggann.

Brotajárn nr. 22

Jeppadekk: Hvað hefur reynslan kennt mér?

Fólksbíladekk: Atriði sem skipta máli (algengustu mistökin við val á dekkjum)

(Ath. Af gefnu tilefni er vakin athygli á að textinn sem hér birtist er svarið sem viðkomandi fær við spurningu með tölvupósti. Það sem birtist í Bílablaði Morgunblaðsins getur verið stytt vegna þess að rýmið í blaðinu er takmarkað við ákveðinn stafafjölda).

79
Slit eða brot í framvagni
Spurt: Hlaup er í stýrinu á Renault Megan 2000 árgerð. Fyrir nokkru kviknaði ABS-ljósið og lýsir stöðugt. Bíllinn leitar ýmist til vinstri eða hægri þegar stýrinu er sleppt. Mest finnur maður fyrir þessu á nýlegu malbiki. Ég nefndi þetta með ABS ef tengsl gætu verið þarna á milli.

Svar: Tjakkaðu bílinn upp að framan, öðru megin í einu, og taktu á framhjólunum. Ef þú getur fært hjólið til lárétt, inn/út, - þ.e. ef þú finnur lárétt hlaup er slit í stýrisenda eða stýrisvél/hjörulið. Sé lóðrétt hlaup merkjanlegt (þegar þú tekur á hjóinu efst og neðst) er slit í spindilkúlu sem er neðst í hjólfestingunni. Demparaskál, sem neðri hluti gormsins hvílir á, getur verið brotin eða demparinn ónýtur/laus í stýringunni að ofan (og ABS-leiðsla hjólsins slitin sundur). Framhjólslegur hafa gefið sig í Renault en því fylgir urg-hljóð þegar lagt er á stýrið. Kannaðu ástandið (slitið) strax því bíllinn getur verið hættulegur.

Eyðslumælir getur verið villandi
Spurt: Ég keypti Chevrolet Captiva 7 manna dísil og er mjög ánægður með bílinn að öðru leyti en mæling mín á eyðslu bendir til að hún sé meiri en eðlilegt telst, sérstaklega í innanbæjarakstri. Samkvæmt upplýsingum umboðs á eyðslan að vera um 8.5 í blönduðum akstri. Þú gefur upp í prófunargrein á www.leoemm.com 7.4 - 7.6 lítra? Spurningin er hvað telst eðlileg eyðsla?

Svar: Í örfáum tilvikum hefur sambandsleysi í tengi á loftflæðisskynjara valdið aukinni eyðslu í Chevrolet Captiva og hefur verið lagfært hjá þjónustuumboði. Eyðsla Captiva dísil er innan við 8 lítrar á jöfnum hraða á þjóðvegi (af gefnu tilefni mælt af mér í akstri Keflavík-Selfoss-Keflavík). Tölurnar í prófunargreininni eru svokallað ECE-meðaltal samkvæmt staðli UN ECE R101 og á að vera samanburðargrundvöllur frekar en nákvæm mæling á eyðslu (bílaframleiðendur reyna ýmislegt til að lækka þá tölu sem því ber að taka hana með fyrirvara). Stafrænir eyðslumælar í bílum sýna eyðslu á stað og stund. T.d.14 lítra þegar tekið er af stað á ljósum og minnkandi þar til eðlilegum hraða hefur verið náð. Sami mælir sýnir 7,8 lítra á 90 km jöfnum hraða á þjóðvegi! Sé borgarakstur 60% af notkun bílsins er meðaleyðslan samkvæmt eyðslumælinum um 11 lítrar sem ekki getur talist mikið fyrir 7 manna fjórhjóladrifsbíl.

Frosnar læsingar
Spurt: Á 4 ára LandRover Freelander lokast bílstjórahurðin ekki eftir slyddu/regn og frost, - get opnað en ekki lokað. Hefur þetta eitthvað með læsinguna að gera?
Svar: Ástæðan er rakamettað smurefni í læsingunni sem frýs. Oftast þarf að taka hurðarspjaldið af, hita læsinguna með hárþurrku sé hún frosin föst. Úða blöndungshreinsi (Carburator Cleaner/úðabrúsi) á læsingarbúnaðinn í hurðinni og í falsinu og blása hreint með þrýstilofti. Læsinguna á að smyrja með vaxefni (ekki smurfeiti eða smurolíu); svonefndu holrýmavaxi sem fæst á úðabrúsum. Eftir það á hún að virka eðlilega.

78
Stirð gírskipting
Spurt: Toyota Corolla ekinn 32 þús. Gírskiptingin hefur versnað og er orðið mjög erfitt að koma í 1. og stundum í 2. gír. Umboðsverkstæði búið að skoða þetta tvisvar en án árangurs. Getur þetta verið eitthvað stilliatriði?

Svar: Nei - það hafa engin vandamál verið með þessa gírkassa. Vegna þess að notuð er sjálfskiptiolía á suma keðjuknúna millikassa virðast sumir gefa sér að hana megi einnig setja á alla handskipta kassa í jeppum og fólksbílum. Sjálfskiptiolía getur gert samhæfingarhjólin (synkrónið), sem eru úr koparblöndu, of hál þannig að þau hætta að virka (bremsa). Láttu tappa af kassanum og setja á hann þá gírolíu sem gefin er upp í handbók bílsins. Þá jafnar þetta sig á viku (einn tappafylli af bremsuvökva saman við flýtir fyrir batanum). Rétt er að nefna að á þessu geta verið undantekningar, t.d. stirðir Nissan-gírkassar þótt rétt gírolía sé notuð. Þá getur lausnin verið sú að nota venjulega vélarolíu í stað gírolíunar t.d. 5W-30. Öruggast er að spyrjast fyrir á þjónustuverkstæði fyrir viðkomandi bíl. Sama gildir um ýmis bætiefni sem sögð eru eiga að gera einhver kraftaverk - hvorki skyldi nota þau sjálfskiptingu né handskiptingu nema að höfðu samráði við viðkomandi þjónustuumboð.

Fjarstýrður þrýstingur í dekkjum?
Spurt: Í fólksbílnum mínum er gaumljós sem lýsir sé ójafn loftþrýstingur í dekkjunum. Í lúxusjeppa sem ég skoðaði var mælir sem sýndi þrýsting í dekkjunum og takki til að hækka og lækka þrýstinginn. Af forvitni langar mig að spyrja hvernig þetta sé útfært tæknilega?

Svar: Um þrenns konar kerfi er að ræða: Dýrari gerðir bíla eru sumir á sérstakri tegund lágprófíldekkja sem aka má á, a.m.k. 100 km þótt enginn loftþrýstingur sé í þeim (ber ekki að rugla saman við venjuleg lágprófíldekk). Gaumljósið, sem þú minnist á, gæti verið merki um sprungið slíkt dekk sem þýðir um leið að draga skuli úr hraða því stöðugleikakerfi bílsins (ESP) sé óvirkt (sé ESP-kerfið aftengt lýsir annað ljós, t.d. í takkanum). Til að lesa megi dekkjaþrýsting í mælaborði bíls eru notuð 2 ólík kerfi: Eldri útgáfan er þráðlaust senditæki tengt þrýstinema innan í felgunni og mæli eða gaumljósi í mælaborði. Nýrri útgáfan notar snúningsnema hjólanna (ABS-nemana) til að mæla snúningshraða hjólanna. Lækki þrýstingur í dekki umfram ákveðin mörk (t.d. 8%) minnkar þvermál hjólsins og það snýst fleiri hringi á sömu vegalengd á beinni braut en hin hjólin. Nemarnir eru svo nákvæmir að þeir gætu gert viðvart um mun minni þrýstingsmun. Sum þessara kerfa nota bæði ABS-nema og senditæki, t.d. í ESP-kerfum stærri flutningabíla.

Margir halda að lágprófíldekk, en þá er t.d. hæð dekks frá jörðu upp á felgubrún um 45% eða minna hlutfall af breidd sólans, sé tískufyrirbrigði, - ef til vill vegna þess að belglægstu dekkin eru oftast undir hraðskreiðari bílunum. En þetta er ekki tískufyrirbrigði heldur öryggisatriði og hefur með stöðugleikabúnað bíls (ESP) að gera. Fjöðrunin sem áður var að hluta í dekkjunum hefur verið færð yfir í fjöðrunarbúnað bílsins. Því lægri sem prófíll dekkja er því minni verða hlutfallsleg áhrif breytilegs þrýstings á þvermál hjóls og um leið á stöðugleika bíls. En ESP-kerfið er flóknara fyrirbrigði m.a. með flóttaaflsnemum, stýrisstöðunema, ABS-læsivörn og fleiru sem bíður umfjöllunar í seinni pistlum. Með 3ja kerfinu má auka eða minnka loftþrýsting í dekkjunum með takka í mælaborðinu, t.d. eftir akstursaðstæðum. Sú tækni byggir á uppfinningu Timken á sérstakri hjóllegu með innbyggðri loftrás sem tengist felgunni, loftlögn, loftpressu og þrýstikúti.

77
Spurt: Datt í hug hvort meðfylgjandi grein/tengll gæti falið í sér lausn fyrir okkur sem eigum stærri dísiljeppa til fjallaferða hér á Klakanum og erum að kikna undan hárri skattlagningu á dísilolíu. Er ef til vill lausnin að drýgja eldsneytið með vatni?
http://www.fastcompany.com/magazine/120/motorhead-messiah.html

Svar: Þetta er engin uppfinning - því miður - heldur hefur það verið þekkt áratugum saman að viss efni sem blönduð eru vatni og blöndunni ýrt inn í brunahólf auka þjöppunarþrýsting. Vatnsinnsprautun er þekkt tækni í túrbó- og keppnisvélum. Ég notaði sjálfur svona búnað árið 1971 á Chevrolet Corvair til að koma í veg fyrir miskveikjun (detonation) og hef sjálfsagt trúað því að þetta dót leysti það vandamál - en splundraði nú vélinni samt. Ég man ekki hverju var logið að okkur þá um eldsneytissparnaðinn (sem átti að vera mikill en mældist enginn) en tækin og dósin af íblöndunarefninu út í vatnið kostuðu sitt. Þetta er sú tegund viðskipta eða markaðstækni sem byggist á sjónhverfingum og innrætingu - spilað á sjúkleg nýsku, aðallega Ameríkana (sem borga 9 dollara fyrir 250 ml. dós með efni sem heitir "Engine Rebuilder'' og á að endurbyggja slitnar legur, jafnvel brotna ventla og annað ónýtt í vélinni. Og til er fólk sem trúir því og borgar frekar 9 dollara en 40 dollara fyrir endurnýjun smurolíu og síu og telur sig spara 31 dollar! - því efnið hefur verið á markaðnum í áratugi. Núna er hvert töfrabragðið í gangi af öðru vegna olíuverðs, sem hefur tekist að kjafta upp í hæstu hæðir. þ.e. með sjónhverfingatækni, innrætingu og "heppilegum stríðum'' og "spennu'' í Austurlöndum nær. Þá spretta upp sérstök tegund kaupmangara sem bjóða búnað sem á að spara eldsneyti. Þegar búið er að ljúga þessu dóti inn á fólk og reynslan farin að koma í ljós hverfa loddararnir sporlaust - eins og jörðin hafi kyngt þeim kvikum. (Hvar eru seglarnir sem átti að festa á bensínleiðsluna og áttu að spara 5-15% eldsneyti - eða pillurnar sem setja átti í tankinn, en skammturinn kostaði þúsundir króna og hver pilla átti að minna bensíneyðslu um svo so svo mörg prósentustig - er ekki áhuginn fyrir Hyclone-blikkrellunum farinn að minnka eftir að einhverjar soguðust inn í pústþjöppurnar og ullu hundruð þúsund króna tjóni ????).

Ágætt hagfræðilegt umhugsunarefni er t.d. hve lengi olíuverð þurfi að haldast óbreytt (eða hækka of hægt) til að Bandaríkjamenn ráðist inn í Íran? Hugsanlega fer það eftir því hvaðan peningarnir koma sem knýja munu kosningavél næsta Bandaríkjaforseta. Komi þeir frá olíuauðmönnum þarf varla að búast við að fundin verði lausn á erfiðum samskiptum Araba og Ísraelsmanna - spennan er nauðsynleg fyrir olíuiðnaðinn.
Gárungar segja að markaðstækni byggist á 3 lögmálum:
- Það er ávallt stöðug þörf fyrir bleyjur og líkklæði.
- Trúgirni er fasti (konstant): Ekkert er svo gagnslaust að sálfræðilega hannaðar auglýsingar selji það ekki.
- Það verður ávallt nóg framboð af fólki sem lætur plata sig (Nigeríumenn virðast vera sérstaklega lagnir við þann hóp). Og það verður ávallt offramboð á hlutabréfum sem ekki eru pappírsins virði (markaðsmenn hafa það í flimtingum að "síðasta fíflið sé ekki fætt").
Ég vona að ég móðgi engan með þessu svari - enda er það ekki tilgangurinn. Eðlilegt er að fólk sperri eyrun þegar jafnvel er reynt að telja því trú um að það hefði eins lækkað eldsneytiskostnaðinn með því að míga á tankinn hjá sér öll þessi ár sem við höfum verið féflett með ofurskattlagningu og okri á eldsneyti - eldsneyti sem er dýrast í heimi á Íslandi sem jafnframt er aftúrsiglari á meðal nágrannalanda með hærra verð á dísilolíu en bensíni, enda er hagur ríkissjóðs sagður góður! En það getur verið gaman að fylgjast með þessum alþjóðlegu loddurum. Nú hefur lítið heyrst af þessum alskeggjaða furðufugli í Kaliforníu/Nevada sem sagðist hafa fundið upp nýja vél í fyrra sem öllu átti að gjörbylta og sagt var frá í Mbl. og fólki bent á netslóðina; - vélin var fræðilegt rugl og náunginn greinilega með lausa skrúfu - í það minnsta var skafrenningur í heilabúinu og skyggni slæmt.
Gleiðilegt nýtt ár.

Um smurolíuverð - minnst auglýsta olían eru oft bestu kaupin
Eins og oft hefur komið fram í þessum pistlum er það reynsla mín sem eiganda 10 ára dísilbíls að hagkvæmast sé að endurnýja smurolíuna á vélinni oftar með ódýrari olíu en að nota dýra olíu lengi (gildir ekki um ýmsar nýrri dísilvélar þar sem smurþrýstingur er ein af breytum vélartölunnar). Reynslan undanfarin áratug hefur verið sú að minnst auglýsta smurolían (oft hágæðaolía) sé að jafnaði ódýrust hjá Olíufélögunum. Í 25 ár hef ég notað Comma-smurolíu á mína bíla af því hún hefur verið ódýrust og er jafnframt viðurkennt gæðamerki í Bretlandi. Núna í byrjun ársins 2008 kannaði ég verð á ódýrustu Comma-smurolíu fyrir dísilvélar (Comma Super Diesel 15w-40) hjá N1. Lítrinn kostaði m.vsk. 604 kr. Ódýrasta dísilvélarolían hjá Skeljungi var á sama tíma Helix 10w-40 sem hefur sömu gæðaflokkun og kostaði lítrinn 652 kr. m. vsk. Ég hef notað enn ódýrari Comma smurolíu fyrir dísilvél og endurnýjað á 4000 km fresti (sú vél er komin í 350 þús. km) en það er Comma Motorway Diesel (Mineral). Lítrinn af henni kostar 465 kr. m.vsk. Reynsla mín sl. 25 ár af Comm-smurolíu er slík að ég mæli hiklaust með henni - a.m.k. svo lengi sem hún er ódýrasta smurolían á markaðnum. Til þess að valda ekki misskilningi eru einnig til alsyntetískar hágæðasmurolíur frá Comma, sem standast allar ströngustu kröfur sem fylgja nýjustu dísilvélum, og þær kosta að sjálfsögðu miklu meira - hef þó ekki athugað hvort þær eru á hagstæðara verði en hátækniolíur af öðrum tegundum. Skoðum það næst.

76
Um álsuðu
Spurt: Hjá mínu fyrirtæki kemur það iðulega fyrir að bíll er rekinn niður þannig að hárfín sprunga kemur í álhluti svo sem pönnur undir vélum og skiptingum. Þetta er bagalegt þar sem tjónið kemur oft ekki í ljós fyrr en við hita-/kuldabreytingar (leki). Ef um er að ræða olíupönnu úr áli er það ekki svo mikið mál með endurnýjun. Nú er ég hins vegar með Ford Escape sem hefur fengið högg neðan á sjálfskiptinguna sem lekur fyrir bragðið. Kostnaðurinn við að endurnýja húsið er gríðarlegur. Mér sýnist þetta vera þannig sprunga að hana mætti sjóða saman. En hvar finnur maður sérfræðinga sem kunna að sjóða ál?

Svar: Hafðu samband við Ístækni ehf (nú sameinað Landvélum). Þeir selja öll sérhæfð tæki og efni fyrir álsuðu og þekkja flesta sem kunna að sjóða saman hluti úr áli. Suða er ef til vill ekki hentugasta aðferðin - þeir hjá Ístækni eiga einnig sérstakt viðgerðarefni (ál-epoxy) sem lokar svona sprungum eftir að þær hafa verið skornar upp og hreinsaðar en efnið þenst með álinu við hitabreytingar.

Pinjónslega: Verk sem lumar á sér
Spurt: Ég er með gamlan Kia Grand Sportage og það er leguhljóð í drifinu og mér er sagt að þetta sé pinjónslegan. Var bent á Stál og stansa en þar er margra vikna bið. Veistu um einhverja aðra sem kunna svona verk. Getur verið að kostnaðurinn sé um 70 þúsund?

Svar: Þeir hjá Skiptingu í Keflavík eru m.a. sérfræðingar í drifum. Árni Brynjólfsson rennismiður í Hafnarfirði kann þetta líka. Kannaðu hvernig stendur á hjá þeim. Um kostnaðinn get ég ekki fullyrt en þetta er meira verk en margur heldur vegna þess að staða pinjónsins er hluti af drifstillingunni, þ.e. gripsins á milli kambs og pinjóns, sem verður að vera nákvæmlega rétt til að drifið slitni ekki óeðlilega og hvíni ekki í því. Auk kunnáttunnar þarf sérstök mælitæki til að stilla þetta saman.

Golf með púkablístru í húddinu
Spurt: Eer með 1996/7 árgerð af VW Golf Syncro (4x4) með 1800 vél. Búið er að aka bílnum120 þús. km. Hann er í góðu lagi og gengur eins og klukka en tók nýlega upp á því að blístra ansi hátt þegar maður slær af og jafnvel líka í lausagangi. Þetta hefur verið að aukast. Ég tók lofthreinsarann frá og losaði hann ofan af blöndungnum (eða einvherju sem líkist blöndungi) en fann ekki hvaðan þetta hljóð kemur og þó er það svo hávært að mann verkjar í eyrun sé maður nærri vélinni með húddið opið. Þetta er greinilega blístur en ekki ískur. Hvað getur þetta verið?

Svar: Möguleg orsök, - hljóðfærið sem veldur þessu, gæti verið ónýt soggreinarpakkning. Settu bensín á handdælubrúsa og úðaðu varlega yfir soggreinina (en ekki á pústgreinina) með vélina í lausagangi. Breytist lausagangurinn (hraðari) við það er pakkningin ónýt. Verði engin breyting merkjanleg skaltu athuga hvort kertin geti verið laus í heddinu.

75
Högg/skrölt í stýri á Corolla
Spurt: Ég á Toyota Corolla 2004. Komið er fínt skrölt í stýrið stýrið þegar ég keyri í holu eða yfir einhverja ójöfnu og hljóðið virðist vera þar sem að stýrið fer í gegnum gólfið. Hvað heldurðu að þetta geti verið?

Svar: Hjöruliðurinn á stýrisstönginni er ónýtur. Í Avensis bilar þessi liður oftar þannig að stýrið þyngist og myndast brak og smellir í því.

Óeðlilegur Renault Megan 2005
Spurt: Bíllinn minn er nýkominn úr 2ja ára skoðun. Það heyrist í stýrsidælunni þegar ég legg á. Svo finnst mér sjálfskiptingin ennþá skrýtin en þeir sem prófuðu hana hjá BL sögðu hana vinna eðlilega - það er hökt í henni og myndast högg þegar hún skiptir niður...?

Svar: það á ekkert að heyrast í stýrisdælunni eftir 2ja ára skoðunina (illa unnið verk). Bíllinn er enn í ábyrgð svo þú skalt ekki sætta þig við neitt annað en að sjálfskiptingin vinni án hnökra og/eða högga. Fáðu sölumann hjá BL til að fara með þér einn hring og segja þér hvort hann telji að skiptingarnar í Renault séu allar svona - sé ekki á því skaltu ræða málið við þjónustustjórann - því á næsta ári, þegar ábyrgðin er útrunnin, getur þetta orðið að 500 þús. kr. dæmi fyrir þig.

Durango er með sérstakt dráttarprógram
Spurt: Hjólhýsið mitt er 1500-1600 kg. Ég er á nýjum Dodge Durango. Á maður að nota "Tow/Haul'' stillinguna í öllum drætti eða bara upp og niður brekku?

Svar: Sé kerra eða vagn þyngri en 750 kg skal nota þessa stillingu í drætti. Hún veitir ákveðið öryggi, kemur m.a. í veg fyrir að eftirvagn auki hraða bíls niður brekku, eykur veggrip þegar tekið er af stað í bratta og hlífir sjálfskiptingunni gegn yfirhitnun og sliti.

Enn um amerískt útvarp/GPS
Spurt: Minn Ford Expedition EB var ekki fluttur inn af umboðinu. Hann er með amerískt GPS sem ekki virkar. Er ekki mögulegt að breyta þessu í evrópskt kerfi með Evrópukorti? Prófaði að senda fyrirspurn til Ford en fékk engin svör. Umboðið hér vill ekkert gera fyrir mig vegna þess að bíllinn er ekki fluttur inn af þeim. Hvað er til bragðs?

Svar: Farðu á vefsíðuna www.leoemm.com og veldu Brotajárn efst á síðunni. Veldu svo Brotajárn nr. 18 í Gagnabankanum. Notaðu leitarorðið útvarp - þar eru svörin.

Húsbíll "laus í rásinni''
Spurt: Gamall en góður Dodge RAM húsbíll er leiðinlegur í stýri, rásar mikið og leitar til hliðar í halla. Hann skánaði lítið við ný framdekk, nýjar framhjólslegur og stýrisdempara. Nú er mér sagt að líklega sé stýrisvélin ónýt?

Svar: Það er áreiðanlega ekkert að stýrisvélinni. Hins vegar er það þekktur galli í Dodge RAM fyrir árgerð 2000 að hjöruliðurinn við stýrisvélina, slitnar og veldur þessu rási. Þú þarft að skipta um stöngina frá stýrisvél upp að hvalbak með endurbættum búnaði (ekki frá Dodge). Stöngin með liðnum var til hjá Bílabúð Benna, sem annars pantar hana fyrir þig, t.d. frá www.borgeson.com (steering shaft assembly).

74
GM-bátavél sem hitnar ekki eðlilega
Spurt: GM 6.5 L Marine Diesel 300 hp bátavél árgerð 2003 hitnar aldrei yfir 60° C þrátt fyrir talsvert álag. Vatnslásinn opnast við 80°C í potti og virðist vera eðlilegur, lögnin er einnig kaldari viðkomu kælismegin við vatnslásinn. Hitamælirinn virðist í lagi því halda má um vélina á þess að brenna sig. Getur þetta verið eitthvað annað en vatnslásinn? Annað þessu óviðkomandi: Þarf eitthvað að huga að hráolíukælingunni á olíuverkinu eða er sams konar kæld stýrieining á þessum vélum eins og er í bílunum?

Svar: Þótt vatnslás opnist við 80° (180°F sem eru hæstu mörk) í potti er ekki víst að hann lokist (fjaðri) nægilega hratt í vélinni. Sumar GM-V8-bátavélar eru með 2 vatnslása, einn fyrir hvora hlið. Standi annar þeirra fastur opinn nær vélin ekki eðlilegum vinnsluhita vegna öryggisgáttar í milliheddinu. Hitaskynjari sem stýrir rafknúinni kæliviftu gæti verið bilaður eða sílikonkúpling á kæliviftu þannig að viftan gangi stanslaust. Kælivandamálin með stýrieiningu spíssanna var í bara vélunum fram að árgerð 2000. Hins vegar er olíuverkið kælt með hringrás eldsneytisins í gegn um geyminn og hitastig þess hækkar eftir því sem lækkar í geyminum. Á vefsíðunni www.ssdieselsupply.com eru ýmsir hlutir fyrir GM-bátavélar.

Dyntir í Renault Clio
Spurt: Handskiptur Renault Clio 1999 ekinn 75 þús km. Engin villumerki í mælaborði en drepur á sér af og til. Athugað var hvort raki væri í kveikju/háspennu kefli ( ferhyrnt box). Í ístungum tveggja þráðanna var olía og einnig á endatengjum þráðanna. Vélin fer sjaldnast í gang strax eftir að hafa drepið á sér. Búið er að þurka þessa olíu en hafði engin áhrif. Þrátt fyrir að startarinn snúi vélinni fer hún sjaldnast í gang heit fyrr en eftir dágóða bið. En sé bílnum hins vegar ýtt fer hún alltaf í gang. Hvað telur þú geta verið orsök þessara vandræða?

Svar: Lýsing þín bendir til þess að neistinn sé veikur (sótug dökk skaut á kertum myndu staðfesta það). Bilanakóði gæti verið í minni tölvunnar þótt vélarljósið lýsi ekki. Byrjaðu á að útiloka raka í bensíninu (lýsingin gæti bent til vatnsmengaðs bensíns) með því að setja ísvara í geyminn og endurnýja bensínsíu hafi það ekki verið gert. Eftirfarandi eru ágiskanir og þá með hliðsjón af þekktum bilunum í 1,4 lítra Renault: Sé alltaf hægt að ýta í gang gæti það bent til bilunar í svissbotni. Kertaþræði og háspennukefli þyrfti að mæla. Olían í ístungunum bendir til að endurnýja þurfi o-hring á ási/botni boxins eða að boxið sé skemmt. Algeng gangtruflun í Renault er vegna lekrar loftslöngu MAP-skynjarl (8 mm sver slanga sem liggur frá inngjafarkverkinni í MAP-skynjarann - plaststykki á hvalbaknum bílstjóramegin). 8 mm sogslöngu færðu í metravís í bílabúðum. Þar sem vélarljósið lýsir ekki eða hefur ekki kviknað aftur ætti það að útiloka bilun í öðrum skynjurum. Viðbót: Hér áðyr fyrr var bifvélavirkjum kennt að "lesa kerti'' - en oft mátti fá sterka vísbendingu um orsök bilunar í vél af útliti kertaskauta (ljósgrá, eða hvít skaut benti til of veikrar blöndu, dökk olíublaut kerti bentu til sogleka (of sterkrar blöndu) eða veiks neista, o.s.frv.) Nú má segja að þessi fræði séu gagnslaus nema í undantekningartilfellum. Aukin sparneytni og minni mengun hefur breytt hönnun soggreina nýlegri bensínvéla þannig að 4 - 8 klst. vinnu þarf iðulega til að komast að kertunum áður en hægt er að skrúfa þau úr. Það er því engin furða þótt fólki þyki bílaviðgerðir stundum dýrar!

Þetta helv... rafeindadrasl! - eða gleymdist handbókin?
Nokkrir eigendur stórra vel búinna amerískra Ford-lúxusjeppa, frá Navigator, Explorer og upp í F-350 hafa lent í þeirri ósþægilegu reynslu að koma að bílnum rafmagnslausum að morgni, jafnvel dag eftir dag. Ástæðan er sú að þeir hafa ekki haft fyrir því að kynna sér leiðbeiningarbækling eða kaflann í handbókinni sem fjallar um stillingar ljósbúnaðarins. Nánast alltaf er ástæð rafmagnsleysisins sú að inniljósin slokkna ekki sjálfkrafa eftir ákveðinn tíma eftir að gengið hefur verið frá bílnum - eins og þau eiga að gera. Ástæðan er sú að styrkstillihjólið fyrir mælaborðsljósið er stillt í efstu stöðu - en í þeirri stöðu kveikir það innihljósin. Lausnin er fólgin í því að snúa hjólinu niður á við um 1-2 tennur. Annað sem sumir hafa látið rugla sig í ríminu er staða takkans fyrir ökuljósin. Þessir amerísku Ford-bílar eru ekki búnir sjálfvirkum dagljósum en hins vegar ljósnema sem kveikir sjálfvirkt ökuljósin þegar birta hefur minnkað, þ.e. þegar dimmir. Sé aðalljósrofanum snúið til fulls rangsælis í birtu kvikna aðalljósin sjálfkrafa þegar dimmir og fara ekki af fyrr en rafgeymirinn er tæmdur sé bíllinn ekki hreyfður. Þessu rugla sumir saman við annan búnað sem lætur aðalljósin lýsa ákveðinn tíma eftir að svissað hefur verið af og gengið er frá bílnum en slekkur þau síðan sjálfkrafa og ganga því frá bílnum með ljósin kveikt.(en sá tími er virkur á stillanlegu bili á aðalljósarofanum sem merkt er með strikaboga). Sé takkinn stilltur á strikabogann þar sem hann er breiðastur slökkna aðalljósin ekki t.d. í myrkum bílskúr - það er efri hluti strikabogans sem er stilling á tímanum sem ljósin lýsa eftir að svissað er af - því styttri tími sem stillt er á mjórri hluta bogans. Rétt staða ökuljósarofans með öll ljósin slökkt er lóðrétt beint upp. Sé honum snúið réttsælis á fyrsta þrep kvikna stöðuljós og mælaborðsljós og sé honum snúið alla leið réttsælis (til hægri) kvikna ökuljósin. Sé takkinn dreginn út í þessari stöðu kvikna dreifiljós (til að auðvelda beygju inn í innkeyrslu (en eru ekki kastarar eins og sumir lögreglumenn virðast halda og eru að skipta sér af), Aðalljósin þarf að slökkva með með því að snúa rofanum í lóðrétta stöðu.
Aðrar hremmingar sem tölvubúnaður bílsins getur valdið er að vélarljósið kviknar sé lokið á bensíngeyminum laust eða reynt að fylla á með vélina í lausagangi. Þá verkstæðisferð má spara sér með því að lesa leiðbeiningarnar í handbókinni. Einhverjir hafa lent í því að drepa óvart á bensínvélinni (Explorer) með svisslyklinum þegar skiptingin hefur verið stillt á D og þá ekki getað startað aftur þótt stöngin sé færð í P eða N. Þetta er öryggisatriði sem ekki verður farið út í hér. En lausnin á þessu er einfaldari en margur hyggur. Með lykilinn í svissnum nægir að læsa og opna einu sinni með fjarstýringunni og þá er aftur hægt að starta í P.

73
Smurolía á Econoline, bilun í Mondeo og Dodge RAM

Spurt: Ég las pistil þinn um smurolíur og hef verið að leita að 5W-20 fyrir Ford Econoline E-150 af árgerð 2004 en ekki haft árangur sem erfiði. Veist þú hvar maður fær þessa sérstöku smurolíu?

Svar: Á þessar (bensín)vélar í Ford er reyndar notuð smurolía með seigjusviðið 5w-30. En miklu máli skiptir að hún uppfylli þá A-gæðaflokkun, API-flokkun eða Ford-staðla, sem gefnir eru upp í handbók bílsins (tafla). Allar sérhæfðar smurolíur, gír/drifolíur og glussa fyrir Ford, GM, Chrysler, Jeep og bandaríska Toyota-pallbíla færðu hjá IB ehf. á Selfossi.

Ford Mondeo plagaður af gangtruflunum
Spurt: Ford Mondeo, árg. 1994, 2.0 l sjálfsk. keyrður 140 þús. Bíllinn hefur verið plagaður af gangtruflunum. Það lagaðist að mestu leyti við endurnýjun loftmagnsskynjara fyrir um 3 mánuðum en nú sækir aftur í sama farið með hökti og vélin drepur jafnvel á sér. Vélin hikar og hikstar við 4000 og meiri snúningshraða. Verkstæðið sem setti skynjarann í leitaði að öðrum bilunum en fann engar.

Svar: Til að greina svona bilun þarf sérstök tæki og þekkingu. Orsökin gæti verið bilun í kveikjukerfi þótt mér þyki nú líklegt að viðkomandi verkstæði hafi athugað það. Bilaður eða sambandslítill súrefnisskynjari gefur ekki alltaf bilanakóða en getur valdið gangtruflunum við hærri sn.hraða. Súrefnisskynjara færðu í Stillingu, N1 eða á www.bifreid.is fyrir hagstætt verð. Þú getur fengið súrefnisskynjarann, kerti, kertaþræði og kveikjulok sett í á betri smurstöðvum, t.d. Klöpp í Múlahverfi. Tölva vélarinnar stýrir loftmagnsskynjaranum og bilun í henni getur valdið því að hann hreinsi sig ekki sjálfur og hættir þá smám saman að virka. Tölvuna má yfirfara og gera við fyrir hóflegt gjald (Varahlutalagerinn á Smiðjuvegi 4 sér um þá þjónustu). En fyrst skaltu setja hálfan brúsa af ísvara (Ísóprópanóli) í bensíngeyminn áður en þú fyllir hann. Breyti það engu næstu 20 km skaltu fara með bílinn í Vélaland á Vagnhöfðanum. Þeir bilanagreina þetta Bosch-kerfi og taka tölvuna úr fyrir þig og setja í aftur eftir viðgerð sem tekur um viku (Varahlutalagerinn sendir tölvuna til Bretlands).

Þekkt vandamál í Dodge RAM dísil
Spurt: Ég á Dodge Ram 2500 dísil árgerð 2000. Eldsneytisdælan er að stríða mér. Ég mældi þrýstinginn fyrir framan síu. Hann kemur ekki fyrr en vélinni er startað, þ.e. ekki þegar "svissað'' er á, en er um 10 pund í lausagangi og fellur í 5 þegar vélin erfiðar. Eftir 15 - 20 mín. akstur hættir dælan að virka. Sé vélin gangsett aftur virkar dælan þar til hún stöðvast og þannig koll af kolli. Ný dæla kostar rúmlega 30 þús. kr. Er þetta bilun í dælunni eða í stýringu hennar?

Svar: Þetta vandamál er þekkt í árgerðum 2003/2004 af Dodge RAM. Oft veldur straumloka dælunnar vandamálinu (og þá er ekkert að marka mælinguna) en lokan hleypir ekki straumi á dæluna fyrr en hún fær stýristraum frá startaranum. Verra er að biluð straumloka nær oft að eyðileggja dæluna. Þeir sem hafa skipt um straumlokuna (Pump Relay) í tíma hafa sloppið ódýrar frá þessu. Það er tilraunarinnar virði að endurnýja straumlokuna og tengja um leið endurbót sem nefnist "DSG High lift fuel pump kit for 03-04 Ram''. Það kostar um 350 dollara og fæst, ásamt betri straumloku, hjá www.dieselservice.com. Vegna himinhás flutningskostnaðar er erfitt að panta einstaka varahluti frá USA. Varahlutaverslun H. Jónsson & Co í Kópavogi pantar þetta fyrir þig en þeir safna saman í vikulega pöntun. (DSG er kanadískt fyrirtæki).

72
Forhitun biluð
Spurt: Ég á 2005 árgerð af BMW 320dísil ekinn 120 þús. Hann er leiðinlegur í gagnsetningu kaldur - mjög grófur gangur í fyrstu og blár reykur en eftir svo sem mínútu verður gangurinn eðlilegur og einnig við seinni gangsetningar sama dag. Þetta gerist bara við fyrstu gangsetningu að morgni hafi bíllinn staðið yfir nóttina. Ég lét endurnýja glóðarkertin en það breytti engu. Kóðalestur hjá umboðinu gaf enga niðurstöðu. Hvað er til ráða?

Svar: Þótt glóðarkertin séu ný er ekki þar með sagt að forhitunin og kaldstartið (aukið magn eldsneytis) sem hvort tveggja er rafeindastýrt, virki - en það kerfi virkar bara þegar hitastig vélarblokkar er undir 4°C. Með rétt tengdum prófunarlampa og kunnáttu má sjá hvort kerfið virkar. Ráðlegg þér að fara með bílinn í Vélaland, segja þeim að glóðarkertin séu ný en biðja um að athugað sé hvort forhitunin/kaldstartið virki. Sérstakur hitanemi stýrir þessu kerfi og hann gæti verið sambandslaus eða ónýtur.

Áður en húsbíll er settur í geymslu
Spurt: Ég er nýbakaður húsbílseigandi. Á Fiat Ducato Maxi 2002 með Dethleffs húsi. Getur þú ráðlagt mér varðandi geymslu á svona bíl? Ég get fengið inni fyrir hann í óupphituðu húsnæði. Er það í lagi? Hvað á ég að gera áður en ég set bílinn í geymsluna? (t.d. varðandi gas, vatn, olíur, dekk o.s.frv.) þannig að bíllinn sem jafngóður að vori? Er einhver undirbúningur nauðsynlegur fyrir geymslu og svo þegar bílinn er aftur tekinn í notkun næsta vor?

Svar: Geymdu bílinn ekki nema þar sem sérstök trygging er í gildi og kynntu þér skilmála hennar. Gaskúta á að fjarlægja og geyma á öðrum stað og aftengja rafgeyma (tengja má 9 volta rafhlöðu kveikjaratengi til að vernda minni útvarps). Hafðu 35 punda þrýsting í dekkjunum og kælivökva á vélinni sem þolir 25 gráða frost. Aðalatriðið varðandi óupphitað húsnæði er að það sé vel loftræst og músa- og rottuhelt. Sé einhver skemmd sjáanleg á bílnum þegar þú ferð með hann í geymsluna skaltu sýna viðkomandi umsjónarmanni hana og fá hana færða inn á samninginn. Með því móti má losna við vandræði og leiðindi verði bíllinn fyrir einhverjum skemmdum í geymslunni. Að vori þarf að huga að þrýstingi í dekkjum og hlaða rafgeyma.

Vifta sem hagar sér einkennilega
Spurt: Er með Mercury Mystique 1998 með 2ja lítra Zetec-vél. Rafknúin kælivifta vatnskassans snýst stöðugt nema slökkt sé á miðstöðvarmótornum þá stöðvast hún en við það finnst mér nálin á hitamælinum stíga. Fyrir skömmu fór "Check Engine-ljósið'' að lýsa af og til. Getur þetta verið alvarlegt?

Svar: Ég gef mér að bíllinn sé búinn loftkælikerfi (AC) en það myndi skýra sambandið á milli miðstöðvarrofans og viftunnar sem þá er önnur tveggja vifta, þ.e. sú sem er fyrir loftkælikerfið. Hafi ekki soðið á kælikerfi vélarinnar gæti þetta bara verið bilun í loftkælikerfinu. Vélarljósið bendir til að bilanakóði/kóðar kunni að vera í minni tölvunnar og því eðlilegt að kanna það með kóðalestri.

71
Ódýrari alvörujeppar og fleira
Spurt: Er að leita að nýjum fjórhjóladrifsbíl til að skoða landið næsta sumar. Hvað kemur til greina fyrir um 3 mkr? Hef lesið greinina þína um nýja Hilux. En svo er það Isuzu DoubleCab og Nissan Navara sem eru talsvert ódýrari bílar og jafnvel flottari en Hiluxinn. Félagar minir halda því fram að vélarnar í Isuzu séu mjög óáreiðanlegar. Ég man enn fréttina af Izusu Trooper lögreglubílnum í Búðardal sem alltaf var á verkstæði!

Svar: Ef þú ætlar að skoða landið að einhverju gagni þarftu alvöru jeppa - jepplingur dugar ekki nema í sunnudagsbíltúra. Þú færð mest fyrir peningana í SsangYong Kyron með 4ra sílindra 140 ha túrbódísilvél og sjálfskiptingu (kramið er að mestu leyti þrautreynt úr Musso), Kia Sorrento og Suzuki Vitara með 4ra sílindra túrbódísilvél eru einnig alvöru jeppar en dýrari. Af jepplingum bendi ég t.d. á Hyundai SantaFe og Tucson dísil á þessu verðbili. Varðandi Izusu/Nissan þá öðlast bílar og þjónusta orðstír í samræmi við reynslu bíleigenda frekar en af slúðri. Hilux, en stöðugleika hans má bæta með lítilli fyrirhöfn (með vísun til sk. Elgprófs sem hann stóðst ekki), Kyron og Sorrento eiga það sameiginlegt að vera sparneytnir alvörujeppar (10-12) lítra. Þjónustan fyrir Toyota endurspeglast í hæsta endursöluverðinu en varahlutaþjónusta fyrir SsangYong hefur verið ágæt og verð varahluta hagstætt
.

Hestöfl - hestöfl
Spurt: Mig langar að spyrja hvers vegna hestöflum amerískra V8-véla fækkaði um allt að helming á árunum 1973-1985 en margar þeirra náðu varla 150 SAE-hö. Voru þær kannski með fleiri hestöfl en gefið var upp? Voru amerísku V8-vélarnar sem framleiddar voru á árunum 1965-1973 með fleiri hestöfl en gefin voru upp? Ég las að 428 cid Ford CobraJet-vélin hafi verið skráð 335 hestöfl en hafi skilað um 400 hp í raun.. og 350 Chevy hafi skilað 380 hp. Eru einhverjar bækur um ameríska bíla sem þú getur mælt með ?
Svar: Þetta var vegna orkukreppunnar - þegar arabaríkin, í mótmælaskyni, drógu úr útflutningi olíu um 1970 og Bandaríkin urðu bensínlaus og þurftu að taka upp skömmtun. Þá voru allar nýjar amerískar V8-vélar "keflaðar'' - þ.e. gerðar aflminni með minni blöndungum og alls konar sparnaðar- og mengunarvarnarbúnaði samkvæmt sérstökum lögum (Clean Air Act) og framleiðendur sektaðir fyrir hvert hestafl umfram ákveðna tölu (hestaflakvóti) . Þú getur lesið um þetta á www.leoemm.com í greininni um Pontiac GTO. Hjá Bókabúð Steinars í Reykjavík er úrval af vönduðum bókum um bíla.

Um AMC/Chrysler Cherokee
Spurt: Er ekkert umboð fyrir Cherokee á Íslandi? Veistu hvort "Hig Output'' 5,7 lítra V8-vélarnar séu eitthvað verri en þessar venjulegu "Power Tech''? Er 5 þrepa sjálfskiptingin lakari en sú 4ra þrepa? Ég hef aðeins rekist á bíla sem heita Grand Cherokee Overland eru þeir eitthvað frábrugnir Limited bíl?
Þessir bílar sem ég er að spá í eru 2001-2004 módel er eitthvað sem skiptir máli með árgerðina?
Svar: Umboðsmál gætu verið óljós eftir aðskilnað Daimler og Chrysler. En IB ehf. á Selfossi hefur selt flesta þessa bíla nýja undanfarin áratug og er með fulla varahluta- og viðhaldsþjónustu fyrir ameríska pallbíla og jeppa og umboðsþjónustu úti á landi. Fleiri hestöfl þýðir betri dráttarbíll en meiri eyðsla. Overland mun vera sérstök gerð fyrir ákveðið sölusvæði en munur óverulegur. Í 2001 árgerðinni var eitthvað vandamál með drifsköft en það er löngu leyst. Því nýrri bíll því væntanlega betri.

Honda Civic gangtruflun
Spurt: Ég keypti 1998 árgerð af Honda Civic og hef lent í miklu basli með hann. Í fyrsta skiptið sem ég þvoði bílinn kom pollur á gólfið fram í farþegamegin og vélin fór ekki í gang. Daginn eftir, eftir að hafa staðið inni á verkstæði yfir nótt fór vélin í gang. En hún hefur verið að drepa á sér af og til og neita að fara í gang en hrekkur svo í gang og hægt að keyra bílinn í nokkurn tíma en samt ekki án truflana t.d. missir hann afl þegar farið er upp Ártúnsbrekkuna. Nú síðast neitaði hann að fara í gang en eftir að hafa verið á verkstæði yfir nótt þá fer hann í gang og þess vegna getur bifvélavirkinn ekki fundið neitt að. Hvað er hægt að gera?

Svar: Pollurinn á gólfinu er alvarlegra mál en virðist í fljótu bragði. Leki með framrúðu eða annars staðar á þessu svæði gerir það að verkum að vatn getur komist í tölvuheilann sem er í kverkinni farþegamegin undir hanskahólfinu og er það líklegasta skýringin á því að vélin fór ekki í gang eftir þvottinn. Nauðsynlegt er að verja tölvuna á einhvern hátt ef ekki er hægt að stöðva lekann. Stundum má sjá á kertunum hvort bilun sé í kveikjukerfinu eða bensínkerfinu. Séu kertin svört og sótug er neistinn veikur og einhver bilun í neistakerfinu (kveikjulok, kerti, kertaþræðir). Algengt er að svokallaður Igniter, sem er ferkantað stykki með spaðatengjum á og er inni í kveikjunni valdi því að vél fer stundum i gang og stundum ekki. Í þessum Igniter er toppstöðuneminn auk þess sem Igniter gefur straum á spíssana. Séu kertin hins vegar laus við sót og í ljósara lagi eru líkur á að bilunin sé í bensínkerfinu, (teppt sía, lek leiðsla, biluð bensíndæla eða biluð straumloka sem stýrir bensíndælunni - en sú straumloka fær stýristraum frá þessum Igniter. Reyndu að fá aðra kveikju á partasölu og byrjaðu á að láta skipta um hana auk þess að laga lekann. (Þessu máli lauk á þann veg að svo virðist sem um fleiri en eina bilun hafi verið að ræða - því þegar önnur kveikja var komin í reyndist straumlokan fyrir bensíndæluna ekki virka eðlilega - eftir að skipt hafði verið um hana - gekk vélin eðlilega. Verstu bilanir sem bifvélavirkjar lenda í að þurfa að greina eru einmitt af þessu taginu, þ.e.gangtruflunin er ekki til staðar þegar bíllinn er á verkstæðinu eða þegar fleiri en ein bilun er til staðar eins og virðist hafa verið í þessu tilfelli, þ.e. Igniter og straumlokan fyrir bensíndæluna. Því er varla við því að búast að svona „andalækningar’’ eins og undirritaður stundar á bíltæknisviðinu séu alltaf til mikils gagns - en þær eru þó tilraun/viðleitni. L.M.J.).

Pústþjöppumál og fleira
Spurt:
Ég er búinn að keyra Skoda Octavia 1,9 túrbódísil 170 þús. km. Allt í einu brotnar túrbínan (pústþjappan), öxullinn fer í sundur. Verkstæðið segir að ástæðan hafi verið stíflun í smurröri til túrbínunnar. Túrbínan er til hjá umboðinu en kostar ótrúlega mikið. Fæst þessi túrbína einhvers staðar á hagkvæmara verði?
Svar: Ástæðan er ekki stíflun í rörinu - hún er afleiðing. Ástæðan er, að mínu áliti, sú að röng gerð af smurolíu hefur verið notuð á vélina og líklega verið endurnýjuð of sjaldan. Þessar VW-dísilvélar í Skoda, eins og aðrar nýlegar túrbódísilvélar með háþrýsta forðagrein (Common rail) og innsprautun með rafspíssum (í stað gamla olíuverksins og gormaspíssanna) nota smurþrýsting sem eina af breytunum fyrir vélartölvuna til að stýra brunanum og til að auka þrýsting og flæði til sveifarhússlega og túrbínu þegar álag er mest. Því skiptir miklu máli að farið sé eftir tilmælum framleiðandans (handbókin) um val og notkun smurolíu. Það þýðir ekki endilega að kaupa þurfi rándýra smurolíu þótt um sé að ræða syntetískar olíur sem eiga það sameiginlegt að vera þær dýrustu. Aðalatriðið er að smurolían uppfylli uppgefinn gæðastaðal (API, A_staðla eða staðla framleiðanda), í þessu tilviki gæðastaðal VW503 og/eða WV505. (Comma Syner-D 5w-40 stenst t.d. VW505 og er ódýrari en ýmsar aðrar sem standast þennan VW-staðal). Þeir varkárustu stytta notkun smurolíu og síu upp úr 80-90 þús. km. eftir notkun/aðstæðum.
Pústþjappa (forþjappa knúin með pústþrýstingi) er mjög einfalt tæki. Það eina sem hún þarf til að endast bílinn er eðlileg smurning einnar legu. Við eðlilegt slit vélar, t.d. þegar hún hefur skilað 80-90 þús. km er eðlilegt að hún sótmettist fyrr (og miklu fyrr sé hún ekki af réttri gerð) og þegar magn hennar á vélinni er innan við 5 lítrar gefur augaleið að fylgjast þarf með ástandi hennar. Notkun rangrar smurolíu og trassaskapur leiðir undantekningarlaust til meiriháttar vandræða þegar nýrri dísilvélar með forðagrein eiga í hlut, þ.e. "Common rail-dísilvélar" af nýjustu gerð (kynslóð II og III með spíssaþrýsting á forðagreininni upp undir 30 þús. pund). Í Þýskalandi, svo dæmi sé tekið, eru til spjöld með grisjuglugga. Þegar dropi af notaðri smurolíu er settur á grisjuna litast hún og með samanburði við gráskala á spjaldinu má sjá hve sótmettuð hún er (Þannig spjöld bauð Skeljungur ókeypis á sínum bensínstöðvum fyrir 15-20 árum). Vélaland er með sérstaka túrbínuþjónustu, selur og pantar nýjar túrbínur og á endurbyggingarsett í margar gerðir. Framtak/Blossi selur og gerir við túrbínur. www.bifreid.is gæti átt svona túrbínu eða pantað fyrir þig. Hjá þessum aðilum hefur mátt fá túrbínur á hagstæðu verði. Þetta mál gefur tilefni til að vekja athygli á því (því enginn virðist lesa handbókina) að sé bíl með túrbóvél beitt undir álagi, t.d. við mikla inngjöf eða við drátt á þungum vagni upp brekku, á ekki að drepa snögglega á vélinni - heldur leyfa henni að ganga lausagang í um 30 sek. þannig að smurolían nái að kæla niður burðarleguna í pústþjöppunni sem þá er jafnvel rauðglóandi. Sé þessa ekki gætt - brennur smurolían í legunni, verður að koksi, og pústþjappan endist skemur.

Opel - stöðug vandræði
Spurt: Ég hef lesið greinar eftir þig þar sem þú mælir m.a. með Opel Vectra (fram að 1999) sem sérlega vönduðum og traustum bíl. Ég á Astra Station með 2ja lítra dísilvél af árgerð 2000 og get ekki sagt að mín reynsla sé góð né útgerðin hagstæð. Bilanir hafa verið tíðar og gerast kostnaðarsamari. Nú hef ég þurft að láta skipta um loftmagnsskynjara með 6 mánaða millibili og enn á ný er gangsetning orðin erfið og gangtruflanir í vélinni. Vélarljósið lýsir en samt virðast (dýr) kóðalestur ekki geta upplýst ástæðu bilunarinnar - verkstæðismenn yppa bara öxlum og klóra sér! Hvað getur maður gert í svona stöðu?
Svar: Engu er líkara en að farist hafi fyrir að upplýsa verkstæðin í landinu um þann grundvallarmismun sem er á tölvustýrða olíuverkinu og brunastýringunni á 2ja lítra Opel-dísilvélunum, sem fyrst komu í Vectra og Omega upp úr 1997. Í 2ja lítra vélunum í Astra var galli sem var lagfærður með því að færa bakrennslið (slefrörið) aftar á lögnina. Margir hafa kvartað undan því að forhitunarljósið lýsi ekki á undan gangsetningu og hafa gefið sér að það væri vegna bilunar. Svo er ekki. Í stað þess að nota sérstaka tímastraumloku fyrir forhitun með glóðarkertum er forhitun/kaldstarti stjórnað af vélartölvunni í nýrra kerfinu og sé hitastig yfir frostmarki á ekkert forhitunarljós að lýsa. Annað sem menn virðast heldur ekki hafa áttað sig á í sambandi við þessi ákveðnu kerfi er að bæði loftmagnsskynjarinn og EGR-pústhringrásin (sem ekki voru í eldri gerðunum) lúta stjórn tölvunnar. Þegar endurnýjaður er loftmagnsskynjari í þessum kerfum og bilunin virðist hverfa er það oft vegna þess að bilun í tölvunni gerir það að verkum að viðnámsmælirinn (platínuvírinn) í skynjaranum glóðast ekki reglulega (hreinsar sig ekki) - hann byrjar strax eftir viðgerðina að safna aftur á sig óhreinindum þar til súrefnismagnið í inntaksloftinu hættir að hafa áhrif á viðnám hans og stýring á magni spíssanna á móti loftmagninu ruglast. Og þá er aftur skipt um loftmagnsskynjarann í stað þess að uppræta vandamálið sem er bilun í tölvunni. Í þessum kerfum er því tölvubilun algengari orsök vandamála en í eldri kerfunum. Lausnin er sú að senda tölvuna út til greiningar og viðgerðar. Þá þjónustu veitir Varahlutalagerinn á Smiðjuvegi 4 (eins og ég hef áður bent fólki á og sem getur sparað því mikil útgjöld).

Ford F-150 sem rásar
Spurt: Er með Ford F-150 SuperCab árgerð 2000 sjálfskiptan með 4,2 lítra 6 sílindra bensínvél sem ég hækkaði með 4" hækkunarsetti sem ég keypti frá Bandaríkjunum, m.a. með nýjum gormum og dempurum að framan og lægri hlutföllum (4,10). Bílinn er núna á 33" dekkjum. Hækkunin og breytingin virðist hafa tekist nokkuð vel og eyðslan er viðunandi þótt drifhlutfallið sé í lægri kantinum. Það eina sem ég er ekki ánægður með - og er reyndar fjandi pirrandi er að bíllinn rásar þegar honum er ekið á beinum vegi og ekki frítt við að hann slái upp í stýrið þegar ekið er í á verri vegi. Hann gerði þetta ekki fyrir breytinguna og millibilið á framhjólunum hefur verið stillt samkvæmt því sem gefið er upp. Getur þú sagt mér hvað maður getur gert til að laga þetta?
Svar: Þetta hækkunarsett veldur því að stýrisvélin færist ofar um 4". Við það eykst hallinn á stýrisstöngunum sem tengjast stýrisörmunum úti við hvort hjólið. Ef þú lítur undir bílinn að framan muntu sjá að mun lægra er upp í stýrisstangirnar úti við hjólin. Hallinn á stöngunum veldur því að þegar þyngdin flyst til, t.d. vegna hliðarvinds og bíllinn leggst á annað framhjólið dregur stöngin hjólið inn á við - það að bíllinn vagar veldur því að hann rásar til hvorrar hliðar í sitt og hvað. Það sem þú þarft að gera til að laga þetta er að kaupa viðbótarbúnað (aukaupphengju, pitmanarm sem nær lengra niður og stangir) sem breyta afstöðu stýrisstanganna þannig að þær liggja sem næst láréttar. Þegar þær eru láréttar hættir bíllinn að rása. Það sem ekki skiptir minna máli er að slit á framdekkjum verður eðlilegt - en þau munu spænast upp eins og þetta er núna. Þú færð sennilega þennan stangar-breytingarbúnað hjá sama fyrirtæki og seldi þér hækkunarsettið. Þú getur einnig keypt þennan búnanað á www.summitracing.com eða látið IB á Selfossi panta hann fyrir þig - þeir þekkja vandamálið.Lestu greinina http://www.leoemm.com/styrisgeometria.htm þar gæti skýringuna verið að finna.

Pjero-dísill - auka-tísthljóð
Spurt: Var að skipta um alternatorreimina (flatreimina) á Pjero 2,8 dísil 2001. Nú heyrist einhvers konar aukahljóð, tíst eða ískur frá vélinni framanverðri og tíðni þess eykst með auknum snúningshraða. Ég er búinn að ganga úr skugga um að alternatorreimin er rétt á sett, eðlilega strekkt, af réttri gerð og lengd en samt virðist þetta tengjast henni. Getur þú eitthvað hjálpað mér í þessu máli?
Svar: Án þess að þú nefnir það í þínu bréfi þá hef ég grun um að af einhverjum ástæðum hafi vélinni verið snúið öfugt á trissuboltanum. Þessar vélar eru svo furðulega hannaðar að við það getur slaknað á tímakeðjunni og hún farið upp úr nælonstýringu (eins konar brú sem hún rennur í) og tístið sé vegna þess að keðjan sé að hefla niður kantinn á stýringunni. Sé svo - og ekki lagfært tafarlaust máttu búast við að tímakeðjan slitni og af hljótist miklar skemmdir á vélinni og viðgerðarkostnaur geti hlaupið á hundruðum þúsunda króna.

Nýr Chevrolet Captiva „steindauður’’
Spurt: Tvo morgna í röð hef ég komið að nýlegum Chevrolet Captiva rafmagnslausum. Rafgeymirinn steindauður - nær ekki 3ja volta pólspennu. Gaf mér að ég hefði gleymt einhverju í gangi og hafði hleðslutæki á í sólarhring. En það var rétt með naumindum að hann startaði í gang. Hleðsluljósið slökknar og bíllinn er eðlilegur í akstri. Næsta morgun var sama uppi á teningnum - allt steindautt og þó hafði ég sérstaklega gengið úr skugga um að ekki væri inniljós lýsandi eða neitt sem gleymst hefði á. Talaði við sérfræðing sem giskaði á að annað hvort væri geymirinn botnfallinn (nýr geymir) eða þetta gæti haft eitthvað með þjófavarnarkerfið að gera - hvað segir þú?
Svar: Vonandi sleppurðu með geyminn þótt það fari ekki vel með hann að tæmast - sérstaklega sé frost úti - en þetta er ekki botnfall og hefur ekkert að gera með þjófavörnina. Þessir alternatorar eru með útsláttarkúpplingu (fríhjólun sem á að spara eldsneyti) sem hefur viljað bila en þá lýsir hleðsluljósið. Í þínu tilviki er orsökin ónýtur straumliði í alternatornum, sem á að koma í veg fyrir að straumur geti farið nema í eina átt.. Það þýðir að kerfið leiðir út í gegn um alternatorinn og rafspennan fellur niður í 1-3 volt á 7-8 klst. Þetta er galli sem umboðið bregst væntanlega við með því að skipta um alternator. Séu einhver vandræði með það getur hvaða rafvélavirki sem er lagfært þetta til bráðabirgða, annaðhvort með hliðtengdum auka-einliða eða með því að skipta um spennubrúna í alternatornum - mér kæmi ekki á óvart þótt hún væri til hjá N1 eða Vélalandi.

69
Tröllasögur um smurolíu - umboð getur ekki sett nema takmörkuð skilyrði !
Spurt: Ég á Ford Escape sem ég keypti af umboðinu Brimborg. Bíllinn er í ábyrgð. S'iðast þegar ég fór með hann í ábyrgðarskoðun var skipt um smurolíu og sett á hann rándýr smurolía sem mér var sagt á versktæðinu að væri sú eina sem mætti nota. Væri önnur tegund smurolíu notuð félli ábyrgðin á bílnum úr gildi. Er unboði heimilt að gera svona kröfur?
Svar: Nei - bílaumboði er óheimilt að skilyrða 2ja ára ábyrgð samkvæmt íslensku kaupalögunum hvað varðar rekstrarvörur til eðlilegs viðhalds bíls. Hins vegar leggja lögin þær skyldur á herðar bíleigandanum að hann noti efni og vörur sem passa og eru í samræmi við þá alþjóðlegu gæðastaðla sem tilteknir eru í viðhaldshandbók viðkomandi bíls. Ford-umboð, ekki frekar en Toyota-umboð, getur ekki skilyrt ábyrgð sína t.d. við að notaðir séu einungis frumhlutir, þ.e. t.d. smurolíusíur sem merktar eru Toyota, kjósi bíleigandinn að nota FRAM-smursíu er hann í fullum rétti og það hefur engin áhrif á ábyrgðarkvöð umboðsins (enda framleiðir FRAM síur fyrir flesta bílaframleiðendur, t.d. Rolls Royce, svo dæmi sé tekið). Og komi upp deila vegna t.d. notkunar smursíu sem umboð telur ófullkomna að gæðum verður umboðið að standa straum af kostnaði við að færa sönnur á að svo sé, og er það samkvæmt sem nú gilda innan ES.Varðandi smurolíuna þá verður bíleigandi að nota smurolíu sem stenst þá alþjóðlegu gæðastaðla, API, A-staðla og staðla bílaframleiðanda sem bílaframleiðandi tiltekur. Þetta er mikilvægara nú en áður fyrr vegna þess að margar nýjar vélar nota smurþrýsting sem eina af þeim breytum sem vélartölvan notar til að stýra bruna og smurflæði við mismunandi álag. Standist vélarolía ekki gæðakröfur þessara staðla getur það valdið alvarlegum skemmdum á vélunum. Sem dæmi um staðal má taka Volkswagen sem gefur upp að smurolía á túrbódísilvél skuli vera á ákveðnu seigjusviði, t.d. 0w/ 20 eða 5w/30 en þurfi að standast gæðastaðal vW503 og/eða VW505. Þá er bíleiganda í sjálfsvald sett hvort hann notar smurolíu af tegundinni Uniflow, Castrol eða Comma o.fl. svo fremi sem hún stenst þessi uppgefnu norm um seigjusvið og gæði (en það er gefið upp á umbúðum smurolíu). Rétt er að benda þeim á sem ekki kaupa þjónustuskoðanir á ábyrgðartíma af umboði en kjósa að kaupa þá þjónustu af öðrum löglegum verkstæðum eða þjónustustöðvum, en til þess þarf meistari í bifvélavirkjun að vera þar í forsvari, að þær skoðanir eru fullgildar á ábyrgðartíma bílsins. En hins vegar verður að gæta þess að upplýsingar um mælisstöðu og tegund smurolíu og annað sem fellur undir þjónustueftirlit sé samviskulega fært inn í smurbók og sú færsla dagsett, stimpluð og undirskrifuð. Færsla þjónustubókar er of oft illa gerð og ófullnægjandi og það hefur stundum reynst bíleiganda dýrt spaug komi eitthvað uppá.

Skrítið hljóð í Sprinter o.fl.
Spurt: Ég er með Bens Sprinter 2005 ekinn 28þ. og það er aukahljóð sem kemur í vélina eftir að hún hefur gengið köld í u.þ.b. 10 sek. - eins konar skrölthljóð sem stendur yfir í 15 til 20 sek. og hverfur svo. Ef drepið er á og gangsett á ný gerist það sama. Hægt er að endurtaka þetta, en tími skrölthljóðsins styttist eftir því sem vélin hitnar. Hvað gæti valdið þessu hljóði?

Svar: Mér dettur einna helst í hug svokallaður EGR-loki en hann er virkur m.a. rétt á meðan gangsetning fer fram en þessi loki stjórnar hringrás pústs sem veitt er aftur inn í brunahólfin til að draga úr nitoroxýðmyndun. Þessi EGR-loki hefur verið til vandræða í mörgum Benz Sprinter en í honum er gormur sem getur hringlað í og er þá yfirleitt stutt í einhverjar gangtruflanir, sótbólstra við inngjöf o.þ.h. En þetta er bara ágiskun - bilanagreining með lýsingu á hljóði er ekki sú auðveldasta. (Eftirfarandi sleppt í Mbl. vegna rýmis): Skrölt eða óreglulegt tikk-hljóð, á því tvennu er munur. Svo lítið notuð vél er tæplega með ónýtan vökvadempara á ventiltoppi en dempari sem ekki nær að fylla sig (oft þegar vél er köld) myndar tikkhljóð sem svo hverfur. Það á að vísu við um eldri 5 sílindra Benz-dísilvélar, sem sett hefur verið í heddpakkning frá öðrum en Benz, að þær geta lekið út frá smurrásinni sem liggur upp í heddið þannig að ventladempararnir ná ekki að fyllast. Þá sést lekataumurinn utan á blokkinni sé grannt skoðað, t.d. í Musso.

Borgar sig að skipta um kol?
Spurt: Hvað er eðlilegt að langan tíma taki að skipta um kol í startara á Nissan Terrano II dísil?

Svar: Ég myndi búast við reikningi fyrir 5 tíma hjá fagmanni. Þetta er ekki flókið verk en geti maður ekki unnið það sjálfur liggur við að borgi sig frekar að kaupa nýjan startara hjá N1, Rafstillingu ehf eða Bílarafi og láta setja hann í á verkstæði.

Edelbrock Performer hedd á Ford Mustang-vél
Spurt: Ég keypti ný álhedd (Performer) frá Edelbrock til að setja á 5 lítra vél í Mustang. Mér var sagt að fá mætti rúllurokkerarma sem væru með opnunarhlutfall 1,7 í stað pressuðu stálarmanna sem eru víst bara með hlutfall 1,4 -1,5. Ég pantaði þessa rúlluarma en þá kemur í ljós að þeir eru fyrir 7/16 rokerarmabolta en þeir sem eru í fyrir í nýju heddunum eru 3/8". Get ég borað út götin í nýju heddunum og snittað þau fyrir 7/16 eða er hægt að fá rúllurokkerarma með opnunarhlutfalli 1,7 sem passa á þessa 3/8 bolta? Ef maður borar út og snyttar 3/8" gengjur fyrir 7/16" hvaða þvermál á borinn að hafa?
Svar: Málið er ekki svona flókið því í Edelbrock-álheddunum eru götin fyrir rokkerarmaboltana með 7/16" gengjum þótt efri hluti boltans sé með 3/8" enda mun algengara að rúllurokkerarmar séu fyrir 3/8". Þú þarft því aðeins að panta nýja bolta sem eru með 7/16" gengjum bæði uppi og niðri. Annar boltinn fyrir hvern sílindra gengur niður og inn í sogportið svo hann þarf að þétta með genjuþétti/lími frá Loctite. Hins vegar skaltu fara varlega í þessu máli því rúllurokkerarmar með hlutfall 1,7 ganga ekki á Ford 302/5,0 lítra nema blokkin sé með .030 yfirstærð af stimplum með úrtökum fyrir ventlahausa. Sé blokkin ekki boruð skaltu halda þig við 1,6 rokkerarma fyrir 3/8" eða nota þá upprunalegu. (Þótt það sé aukaatriði eins og málið er í pottinn búið þá myndi maður bora 3/8" gengjur í áli út með 9,2 mm bor til að snytta fyrir 7/16" gengjur).

Tölvubilun þarf ekki að kosta 100 þús. kr.
Spurt: Er með Hyundai Elantra '00.Ónýt sjálfskiptitölva. Önnur samsvarandi tölva ekki til á landinu nema hjá umboði á tæp 100 þús. Get ég notað tölvu úr öðrum bíl ef ég skipti um allar tölvur bílsins þannig að þær samsvari hver annarri?
Hvaða fyrirtæki er það sem sendir tölvur út til UK í viðgerð og veistu hvort hægt er að gera við Kefico tölvu?

Svar: Þá á að vera hægt að gera við allar þessar tölvur. Þótt verkstæði dæmi sjálfskiptingarölvu ónýta getur það verið vegna þess að þeir átta sig ekki á bilun í sjálfskiptingunni sjálfri. Vatnskassa/varahlutalagerinn á Smiðjuvegi 4 í Kópavogi (sama hús og N1-búðin) hefur sent tölvur af öllum gerðum út til Bretlands til greiningar og viðgerðar. Þeir hafa líka útvegað endurbyggðar tölvur fyrir hagstætt verð. Ráðlegg þér að byrja á að tala við þá.

Spurt: Erum með Dodge Sprinter 2005 2,5D ekinn ca 40þús mílur Tók upp á því að drepa á sér eða verður aflítill, ber meira á þessu á malarvegi (og
meira í bleytu) Stundum koma 3 ljós ABS, ESP og spólvörnin Dettur stundum í hægagang og reykir stundum kolsvörtum reyk Það er búið að lesa hann 1
sinni án áranngurs.Eru einhver þekkt vandamál í þessum bílum?
Svar: Farðu með bílinn í Eskju ef þú ert á höfuðborgarsvæðinu - þeir hafa bestu græjurnar til að greina svona bilanir. Vandamálið er að þetta er greinilega ekki ein bilun heldur fleiri. Hringlandinn í ganginum og sótbólstrarnir geta verið vegna óvirks loftmagnsskynjara og EGR-loka en ljósagangurinn er eitthvað annað mál - útleiðsla , leiðslur í sundur eða sambandleysi á milli skynjara og tölvu. Byrjunin væri að skoða vandalega allar leiðslur að og frá tölvu og ABS-stýribúnaðarins. Láttu kenna þér að hreinsa þessa skynjara - það er auðvelt en ekki sama hvernig það er gert.

Sítengt aldrif = eyðsla
Spurt: Er að velta fyrir mér kaupum á nýjum eða nýlegum bíl og hef skoðað og prófað Subaru B9 Tribeca, Benz ML 350 og Lexus RX og lýst vel á þá alla. Tel mig vita ýmislegt varðandi Benz og Lexus - en þekki ekkert þennan Subaru B9. Hvað getur þú sagt mér um hann?
Svar: Subaru B9 Tribeca er með 6 sílindra boxaravél og sítengt aldrif. Bíllinn er sérstaklega hannaður til að Subaru geti boðið svona lúxusjeppling á bandaríska markaðnum. Hann þykir of eyðslufrekur til að eiga einhverja teljandi möguleika á evrópska markaðnum. Lexus RX 350 er ódýrari jepplingur, örlítið sparneytnari en er samt eyðslufrekur bíll. Benz ML 350 hefur enn sem komið er verið ávísun á vandræði og pirrandi bilanir. Bendi á að Hyundai-jepplingurinn Santa Fe, með 4ra sílindra dísilvél, er mun sparneytnari, svipaður að stærð og með lága bilanatíðni og alverujeppinn SsangYong Kyron kostar ekki nema rúmar 4 mkr. (sjá grein í BÍLAPRÓFANIR). Toyota RAV4 frá og með árgerð 2006 er sparneytnari og skemmtilegri bíll en sá eldri - jafnframt fáanlegur með dísilvél.

Meira brotajárn

Aftur á aðalsíðu