Leó M. Jónsson vélatæknifræðingur.

Porsche 911 í 40 ár

Fyrri grein.

(Þessi grein, nokkuð stytt, birtist upphaflega í Morgunblaðinu/Bílar 20/8/2003)

Fjórir ættliðir afburða-tæknimanna

Í september 2003 voru liðin 40 ár síðan fyrsti Porsche 911-bíllinn var sýndur opinberlega. Porsche er þýsk útgáfa af slavneska nafninu Borislav. Það er borið fram PORSH-E (en ekki PORS). Auðvelt er að ruglast á helstu forsvarsmönnum Porsche því þrír þeirra þekktustu bera sama ættarnafnið; faðir, sonur og sonarsonur auk þess sem fleiri úr fjölskyldunni hafa gegnt lykilstöðum hjá Porsche AG, eins og fyrirtækið nefndist fram að 1972. (Ljósmyndir eru fengnar frá Porsche.)

Ferdinand Porsche I

Ferdinand Porsche I fæddist 1875 í Bæheimi sem nú er hluti Tékklands. Að loknu tækninámi í Vínarborg um1900 réðst hann til austurríska dótturfyrirtækis Daimler sem tæknilegur ráðgjafi og síðar stjórnandi. Porsche I vakti heimsathygli fyrir ýmsar stórmerkilegar véltæknilegar lausnir hjá Austro-Daimler og Skoda sem þá voru undir sama hatti og var heiðraður fyrir, m.a. veitt heiðursdoktorsnafnbót af Háskólanum í Vínarborg 1916. Að fyrra stríðinu loknu 1918 varð Porsche I tjékkneskur ríkisborgari. Á millistríðsárunum hannaði Ferdinand Porsche I kappakstursbíla og hergögn, m.a. hannaði hann forgerð Tiger-skriðdrekans (greinar um skriðdreka er að finna annars staðar á þessari vefsíðu).

Porsche I hóf rekstur hönnunarstofu í Stuttgart 1930 ásamt Karl Rabe sem síðar stjórnaði tæknideild Porsche til 1966. Þeir unnu fyrir flesta þýska og tékkneska bíla- og vélaframleiðendur. Hönnunarstofan þróaðist jafnframt í framleiðslufyrirtæki. Merkilegasta og þekktasta verkefni Porsche I var Project 60 fyrir þýska ríkið 1934; - ,,Fólksvagninn" en fyrstu 3 forgerðirnar (prototype) af VW-bjöllunni voru smíðaðar hjá Porsche ásamt fyrstu framleiðslurununni fyrir þýska herinn. Hitler sæmdi Porsche I nafnbótinni ,,Prófessor" fyrir Fólksvagninn. Porsche I, sem varð þýskur borgari við innlimun Austurríkis í Þýskaland 1938, lést 75 ára 1951.

 

 

Ferdinand (Ferry) Porsche II

Ferdinand (Anton Ernst) Porsche II, í daglegu tali nefndur Ferry, fæddist í Vín-Neustad 1909. Að loknu tækninámi um tvítugt hóf hann störf í fyrirtæki föður síns í Stuttgart og tók við stjórn þess að föðurnum látnum. Undir stjórn (Ferry) Porsche II varð fyrirtækið að bílaframleiðanda og heimsþekkt fyrir sport- og keppnisbíla en (Ferry) Porsche II lét hefja raðsmíði fyrsta bílsins. Sá var sportbíllinn Porsche 356 hannaður af Erwin Komendaa) og þeim Porsche-feðgum og hófst þróun hans 1947 en hún byggði að miklu leyti á sömu grunnhönnun og Fólksvagninn. Eftir að loftárásir hófust fyrir alvöru í seinna stríðinu var bílasmiðja Porsche flutt 1944 frá Stuttgart til Gmünd í Austurríki þar sem hún fékk inni í gamalli sögunarmyllu. Fyrstu 50 bílarnir voru smíðaðir í Gmünd 1949 en 1950 var bílasmiðja Porsche flutt aftur til útborgar Stuttgart, Zuffenhausen.

356-bíllinn var ekki mánaðargamall þegar hann vann sinn fyrsta kappakstur. Undir stjórn (Ferry) Porsche II var einnig smíðaður opinn sport/keppnisbíll sem nefndist 550 Spyder. (Kvikmyndaleikarinn James Dean fór síðustu ökuferðina undir stýri á slíkum bíl). 550 Spyder var hannaður af Erwin Komenda, Ernest Fuhrmann og fleirum en hann var afleiða 356-bílsins (1954). Flestir sport- og keppnisbílar Porsche á síðari hluta 20. aldar, þar á meðal 911, voru hannaðir og þróaðir undir stjórn (Ferry) Porsche II sem lést 1998.

 

Ferdinand A. (Butzi) Porsche III

Ferdinand (Alexander) Porsche III, elstur af 4 sonum Ferry, í daglegu tali nefndur Butzi, f. 1935, var helsti útlitshönnuður Porsche á síðari hluta 20. aldar. Hann teiknaði ,,Project 901" sem varð að fyrsta 911-sportbílnum fyrir 40 árum. Frændi hans Ferdinand Piëch og Ernst Fuhrmann hönnuðu og þróuðu flötu 6 sílindra loftkældu 911-vélina og aðra véltæknilega hluta bílsins. Yngsti sonur Ferry, Wolfgang Porsche viðskiptafræðingur, er nú einn af framkvæmdastjórum Porsche í Stuttgart en frá 1972 nefnist fyrirtækið ,,Dr. Ing. h.c. F. Porche AG." Ferdinand (Butzi) Porsche III hætti sem forstöðumaður hönnunardeildar Porsche 1972 og stofnaði sitt eigið hönnunarfyrirtæki í Stuttgart; Porsche Design, með bróður sinn, Hans-Peter, f. 1940, sem meðeiganda. Oliver Porsche er sonur Ferdinand (Butzi) Porsche III og þar með 4. ættliðurinn. Hann tók við af föður sínum og er nú stjórnarformaður Porsche Design í Stuttgart.

550 Spyder var upphaflega smíðaður sem kappakstursbíll af Wilhelm Hilde sem var á meðal fyrstu tæknimanna Porsche en þá tók fyrirtækið að sér að sérsmíða kappakstursbíla fyrir ákveðna keppnismenn (frægastur var Glöckler-Porsche fyrir Walther Glöckler). Eftir að Erwin Komenda hafði hannað endanlegt útlit bílsins mátti jafnframt nota hann sem sportbíl. Vélin var 4ra sílindra loftkæld, sú sama og í upphaflegu VW-bjöllunni; sérstaklega útfærð af Ernest Fuhrmann fyrir Porsche 356 skilaði hún 117 hö við 7800 sn/mín með 1498 rsm slagrými. (Eftir frekari meðferð hjá Fuhrmann skilaði þessi sama vél 185 hö með 2ja lítra slagrými). Gerðarnúmerið 550 fékk bíllinn vegna þess að eigin þyngd hans var 550 kg. 1953, sem var fyrsta smíðaár bílsins, náði Hans Herrmann 3ja sæti í einum erfiðasta rallakstri sem um getur, Carrera Panamericana í Mexikó og bætti um betur ári seinna og kom þá fyrstur í mark á 550 Spyder. Færri vita líklega að 550 Spyder vann sinn flokk í Le Mans-kappakstrinum 1954 með Belgann Zora Arkus-Duntov við stýrið en hann varð seinna þekktari sem ,,maðurinn sem skapaði Chevrolet Corvette". 718 Spyder (1958) var breyttur 550 fyrir F2-kappakstur og RS 60 Spyder (1959) var eins manns 718 með miðjusæti.

 

Ferdinand Piëch

Louise, dóttir Porsche I og systir Ferry, giftist Dr. Anton Piëch hæstaréttarlögmanni Í Vínarborg. Piëch-fjölskyldan var hinn ráðandi austuríski armur Porsche þar til fyrirtækið var gert að hlutafélagi 1972 og fjölskyldumeðlimir hættu að ganga fyrir við val í stjórnunarstöður. Sonur þeirra er Ferdinand Piëch fartækjaverkfræðingur, fæddur 1937 í Vínarborg. Hann starfaði lengi sem véltæknilegur hönnuður hjá Porsche, átti m.a. stóran þátt í hönnun fyrsta 911-bílsins ásamt (Butzi) Porsche III og Ernest Fuhrmann. Piëch lét mikið til sín taka við hönnun og þróun keppnisbíla sem sigruðu í Le Mans og fleiri keppnum; nefna má fræga bíla á borð við Porsche 906, 908 og 917. Ferdinand Piëch er á meðal virtustu og fremstu tæknimanna Þýskalands og þáttur hans í árangri Porsche-bíla í alþjóðlegum aksturskeppnum er ekki alltaf metin sem skyldi, líklega vegna þess að hann ber ættarnafnið Piëch en ekki Porsche. Það er til marks um að Ferdinand Piëch fetaði í fótspor afa síns, Porsche I, að hjá GM Institute í Flint í Michigan (nú GM TECH I), en það er uppeldisstofnun General Motors fyrir stjórnendur á tækni- og viðskiptasviði, var árið 1973 kennd fræði sem nefnist ,,Hámörkun álagsþols samsettra burðarvirkja við lágmörkun þyngdar" eftir Dr. Ferdinand Piëch. Og það var vegna vísindalegra uppgötvana hans á sviði álags- og þolhönnunar hjá Porsche sem tækni- og þróunarmiðstöð þess í Weissach voru m.a. falin sérhæfð verkefni fyrir bandarísku geimferðastofnunina NASA og NATO. Ferdinand Piëch varð síðar æðsti stjórnandi VW-Audi-samsteypunnar.

Eins og forfaðirinn Porsche I og eins og títt er í Þýskalandi þegar afreksmenn á sviði tækni og vísinda eiga í hlut hafa synir, sonarsynir og dóttursonur verið heiðraðir á ýmsan hátt með heiðursdoktors- og prófessorsnafnbótum.

,,Project 901"
Raðsmíði bíla hófst hjá Porsche með sportbílnum 356 árið 1949. Sá bíll átti ýmislegt sameiginlegt með Fólksvagninum (VW-bjöllunni) sem Dr. Ferdinand Porsche I hannaði en sonur hans (Ferry) Porsche II var þá tekinn við stjórn fyrirtæksins. 356, sem var 4ra sæta af þeirri gerð sem seinna nefndist 2+2, var með sama berandi hjólbotn og VW-bjallan, breytta fjöðrun og loftkældu VW-vélina afturí. Porsche 356 var smíðaður á árunum 1948-1965 eða í 17 ár. Upphaflega hafði bílnum ekki verið spáð góðu gengi, jafnvel björtustu vonir Ferry Porsche II munu hafa verið að selja mætti 500 eintök. Þótt 356 þætti dýr höfðu 5.000 selst um miðjan mars 1954 en á tímabilinu 1950-1956 seldust 77.756 Porsche 35614 .

911 2.0 Coupe af árgerð 1963 911 2.0 Coupe af árgerð 1964

 

Bílar með vélina yfir eða fyrir aftan afturhásingu voru engin nýbóla upp úr 1950. VW-bjallan er frægust þeirra og hafði verið við lýði síðan 1936 sem ,,bíll fólksins" - og var ákveðinn þáttur í einni af ,,manískum" framkvæmdum á nasistatímanum en sú framkvæmd bætti samgöngur í Þýskalandi, m.a. með hönnun og byggingu ,,átóbananna". Fjöldaframleiðsla VW-bjöllunnar hófst þó ekki fyrr en eftir stríð. Aðrir bílar með aftanívél voru m.a. Renault 4CV frá 1946, Fiat 600 kom 1955, NSU Prinz 1957, Chevrolet Corvair 1959 og Hilman Imp 1963.

Alþjóðlega bílasýningin í Frankfurt í september 1963 markaði ákveðin þáttaskil fyrir Porsche sem þá var einn af minnstu bílaframleiðendum Þýskalands: Nýr sportbíll, Porsche 911, var frumsýndur. Bíllinn vakti verðskuldaða athygli - var tæknilega vel útfærður en þótti dýr miðað við aðra sportbíla af svipaðri stærð. Varla hefur margan sýningargestinn órað fyrir því að Porsche 911 yrði við lýði liðlega 3 áratugi sem einn vinsælasti sportbíll sögunnar. Af ,,markaðstæknilegum" ástæðum nefndi Porsche nýjan, gjörbreyttan og stórmerkilegan sportbíl (996), sem kom á markaðinn í apríl 1998, einnig 911. Porsche 911 hefur því verið fáanlegur í 40 ár.

Árið 2000 voru 2/3 allra smíðaðra Porsche-bíla frá upphafi enn í notkun (2) (auk þess eru heilir bílar í geymslu eða á söfnum) en það segir meira en langt mál um gæði Porsche-bíla yfirleitt. Undirritaður fer ekki leynt með þá skoðun sína, byggða á reynslu, að Porsche 911 sé, að öðrum ólöstuðum, einn best smíðaði bíll sem völ er á.

Fyrsti 911 Targa (opni) kom 1967 911 Carrera RS 2.7 af árgerð 1973

 

Dr. Ferdinand Porsche I lést 30. janúar 1951. Sonur hans, Ferry, hafði breytt fyrirtækinu úr hönnunar- og þróunarverkstæði í bílaframleiðanda. Raðsmíði sportbílsins 356 hafði reynst ábatasöm.

Þegar arftaki 356, Porsche 911, birtist 1963 var Porsche-fyrirtækið í Zuffenhausen við Stuttgart frábrugðið öðrum þýskum bílaframleiðendunum. Sá munur er enn þann dag í dag: Hjá Porsche eru bílar smíðaðir en ekki framleiddir; - handsmíði og handverk eru enn áberandi meiri hjá Porsche en í tíðkast í venjulegri bílaframleiðslu.

Á hönnunarstiginu nefndist verkefnið ,,Project 901" og bíllinn nefndist upphaflega 901. En franska Peugeot mótmælti og reyndist eiga skráð einkaleyfi fyrir þriggja tölustafa gerðarheiti með núlli í miðjunni. Heiti bílsins var því breytt í 911 en klúðrið tafði söluna í næstum heilt ár og fyrstu 911-bílarnir voru því ekki afhentir fyrr en í ágúst 1964.

Nýi 911 var einstykkishönnun; sjálfberandi skel með sjálfstæða fjöðrun; McPherson dempara/hjólfestingu að framan með snerilfjöður (stálstaf) í klafanum að innanverðu. Að aftan voru snerilfjaðrandi hjólarmar. Vélin var flöt 6 sílindra loftkæld með ofanáliggjandi kambás á hvoru heddi. Slagrýmið var 1991 rsm og hámarksaflið var 130 hö við 6100 sn/mín. Með því að hafa flata vél með láréttum stimplum, þremur á hvorri hlið, varð þyngdarpunktur bílsins neðar en í flestum öðrum bílum en það m.a. skýrir merkilega aksturseiginleika og getu bílsins. Gírkassinn var alsamhæfður með 5 þéttstikaða gíra en 5 gíra kassa höfðu einungis örfáir bílar á þessum tíma, hvað þá mismunardrifslæsingu sem boðið var uppá. Sama er að segja um diskabremsurnar sem voru á öllum hjólum. Lögun bílsins, en eiginþyngd hans var sögð 995 kg, gerði það að verkum að vindviðnám var minna en margra annarra bíla (Cw 0,38). Hámarkshraðinn var 208 km/klst. Hröðun (0-100) var um 8,5 sek. Bílaprófari þýska tímaritsins Auto-Zeitung benti á , á sínum tíma, að Porsche 911 næði ekki einungis rúmlega 200 km hámarkshraða heldur mætti halda honum á hraðbrautum í lengri tíma en það væri meira en hægt væri að segja um ,,suma keppinauta". Upphaflega var 911 með 165 mm breið dekk. (Afturdekkin á 911 GT2 eru nú 315 mm breið).

911 var ekki gallalaus fremur en aðrir bílar en kostir hans voru þó slíkir að 1964 átti hann varla nokkurn hættulegan keppinaut. Þyngdarhlutfall (40/60) á milli fram- og afturhjóla gaf afturhjólunum gott veggrip og spyrnu. Veggrip framhjólanna var lakara. Fyrir bragðið var bíllinn yfirstýrður við ákveðnar aðstæður sem gat reynst viðvaningum hættulegt. En í höndum kunnáttumanna sem kunna að nýta þennan agnúa sem fylgt hefur 911 nánast alla tíð, er þessi eiginleiki einmitt það sem gerir bílinn skemmtilegan. Porsche gerði ýmislegt til að draga úr yfirstýringu, m.a. var 11 kg blýlóðum laumað innan í sitthvort horn framstuðarans. Þau voru svo fjarlægð þegar efri festingum framdemparanna var breytt þannig að stilla mátti hjólhalla (chamber) og framhalla hjólvalarins (caster) til að auka veggrip í beygjum. Önnur og virkari lagfæring kom í árgerð 1969 en þá var hjólhafið aukið um 58 mm með því að færa afturhjólin aftar og nota breiðari felgur/dekk. Fyrstu 911-bílarnir með styttra hjólhafið nefnast A-bílar. (Þegar sagt er að bíll sé yfirstýrður þýðir það að hann hafi eiginleika til að skrika út á við í beygjum - þ.e. miðflóttaaflið stýrir bílnum frekar en vísun framhjólanna. Með einni undantekningu (964) eru 911-bílarnir allir mismunandi mikið yfirstýrðir).

Stöðug þróun
Endurbætur og breytingar hafa fylgt Porsche 911 alla tíð. Þróun bílsins, sem byggist að miklu leyti á árangri í kappakstri, var mismunandi þróttmikil eftir tímabilum vegna utanaðkomandi áhrifa svo sem sveiflna á bílamarkaðnum, ekki síst á þeim bandaríska. Hér verður stiklað á stóru í þróunarsögu 911:

1965 var ódýrari gerðin 912 boðinn en sá bíll var með 4ra sílindra VW-vélina úr 356. 912 leysti 356C af hólmi en kaupendur sýndu honum lítinn áhuga. Þrátt fyrir það var aftur reynt að bjóða þessa ódýrari gerð 1975, þá sem 912E, en aftur án teljandi árangurs. Ef undan er skilin 911 SC - ,,niðurskurðargerð", sem boðinn var 1978 þegar sérstaklega illa áraði eftir samdráttinn í Bandaríkjunum, hefur Porsche ekki boðið upp á mismunandi dýrar gerðir af 911 (skýrt betur í seinni greininni).

1967 kom fyrsti Targa-bíllinn (með þakhlíf sem taka mátti af). Sama ár voru 3 mismunandi gerðir í boði; 130 ha, 160 ha (S) ásamt Targa (T). 1968 var byrjað að bjóða 3ja gíra hálfsjálfskiptingu (Sportomatic).

1970 var slagrými vélarinnar aukið í 2,2 lítra (180 hö í 911S) og bein innsprautun boðin í fyrsta sinn (911E).

1972 var slagrýmið enn aukið í 2,4 lítra en án aflaukningar til að mæta auknum kröfum um mengunarvarnir.

1973 kom 911 Carrera RS (Carrera er heiti sem Porsche tók upp eftir góðan árangur 356- og 550-bílsins í Carrera Panamericana upp úr 1953 - rallakstri sem hefst í Mexikó og lýkur í Guatemala en RS stendur fyrir þýska Rennsport = kappakstur). Carrera RS af árgerð 1973 er ein merkilegasta gerðin af 911. Sá var sérstaklega hannaður til að standast skráningarkröfur GT-kappaksturs, fyrst í flokki 4 (500 eintök) og svo í flokki 3 þegar 1000 höfðu verið smíðaðir. Eftirspurnin reyndist þó slík að 1580 bílar (1) voru smíðaðir af þessari gerð. Fyrsti Carrera RS er með 2,7 lítra 210 ha vél auk þess að vera sérstaklega léttbyggður, skelin er úr þynnra stáli, húddið úr plasti, þynnra gler í rúðum, stuðarar úr trefjaplasti, óklædd innrétting o.s.frv. Þessi bíll sem vegur 970 kg í keppnisútfærslu3 er enn þann dag í dag með öflugustu keppnisbílum í sínum flokki; aksturseiginleikar eru með hreinum ólíkindum og hlutfallið þyngd/afl er 4,3 kg/ha. Með Carrera RS 1973 kom vindskeiðin í fyrsta sinn (kollustélið) en með henni jókst stöðugleikinn og veggripið. 1974 var þessi 2,7 lítra vél í 911. Vélin í 1974 árgerðin af Carrera RS var hins vegar með 3ja lítra slagrými sem jók hámarkstogið um 8% 284 Nm við 5100 sn/mín) og dró úr mengun í útblæstri þótt hestöflin væru áfram 210 við 6300 sn/mín. Árið 1973 smíðaði Porsche 15.415 bíla og 75% af þeim voru fluttir út1 .

Einhver hefur líklega velt því fyrir sér hvernig hafi verið hægt að auka slagrými 911-vélarinnar úr 1991 rsm í 3600 rsm (964 Carrera 4 árgerð 1989), þ.e. um rúm 80% án grundvallarbreytinga á blokkinni. Skýringin, og um leið ástæða þess að hér er ekki notað hugtakið ,,útborun", er fólgin í því að sílindrarnir eru sjálfstæð stykki sem sitja í stýringu í blokkinni og utan á þeim er kápa með kælirifflur. Með því að hafa rifflurnar grynnri en virkari og með öflugri kæliblæstri hefur verið hægt að auka innra þvermál sílindranna á kostnað ytra þvermáls kælikápunnar. Þetta skýrir hvers vegna Porsche hélt svo lengi áfram með loftkældu vélina, þ.e. þar til slagrýmið varð ekki aukið meira með óbreyttri blokk. Svo mikil stækkun sílindra er ekki möguleg þegar vatnskæld vél á í hlut. Af þessum ástæðum er undirritaður og fleiri gallharðir á því að smíði hins raunverulega 911 hafi lokið með síðasta 993 árið 1998 þegar sá vatnskældi 996 tók við.

a) Erwin Komenda (1904-1966) var aðalhönnuður Porsche frá 1931 til dauðadags og mótaði sem slíkur form og útlit þeirra bíla sem framleiddir voru á tímabilinu. Komenda var yfirmaður hönnunardeildar Daimler Benz í Sindelfingen áður en hann réðst til Porsche. Sérgrein Erwin Komenda var boddíhönnun en með því er ekki einungis átt við útlit heldur jafnframt form og burð. Á meðal bíla sem teljast til hugverka Erwin Komenda eru fyrstu kappakstursbílarnir sem smíðaðir voru hjá Porsche, á meðal þeirra var Cisitalia. Færri vita að þótt Ferdinand Porsche I teljist yfirleitt höfundur VW-bjöllunnar kemur grunnútfærslan og véltæknin í hans hlut. Boddíið á Bjölluna hannaði hins vegar Erwin Komenda. Þeir sem hafa fengist við bílasmíði og boddíviðgerðir vita að boddíið á Bjöllunni er miklu meira en útlit og/eða yfirbygging - það er stór hluti af bílnum. Eins og tekið er fram í greininni var boddíið á 356 Spyder einnig verk Erwins Komenda sem, skömmu fyrir andlát sitt, hafði unnið að hönnun boddísins á Porsche 911 - veltiboginn á 911 Targa er eitt af mörgum snilldarverkum Komenda sem stundaði sportbílakappakstur í frístundum. Eins og oft vill verða, og er sennilega árangur ímyndarsköpunarinnar hjá Porsche, lenda lykilmenn hjá Porsche gjarnan í skugga þeirra sem bera Porsche-nafnið en auk Komenda á það við Ferdinand Piëch, sem einnig er fjallað um í þessari grein.

Copyright © Leó M. Jónsson

Heimildir:
1 ,,New Complete Book of Collectible Cars 1930-1980." Richard M. Langworth og Graham Robson. Útg. Beekman House, New York 1987.

2 ,,Hreyfing sem hrífur." (bls. 18) Bók útgefin af Dr. Ing. H.c. F. Porsche AG, Stuttgart 2000. Íslensk þýðing: Leó M. Jónsson. Dreifing: Bílabúð Benna Rvk.

3 ,,Carrera RS. Leichtere Karosserienbau." Bók. Höf. Dr. Thomas Grüber og Dr. Georg Konradsheim. Útg. TAG Verlag GmbH. Vínarborg 1993.

4 ,,The World Guide to Automobiles. The Makers and their Marques." Bók. Höf. Nick Baldwin, G.N. Georgano, Michael Sedgwick og Brian Laban. Útg. Macdonald Orbis. London 1987.

Seinni grein um Porsche 911

Til baka á aðalsíðu